Efnisyfirlit

Efnisyfirlit

Efnisyfirlit

Formáli

Aðalnámskrá tónlistarskóla er gefin út á vegum menntamálaráðuneytisins og kom hún síðast út í maí árið 2000 (almennur hluti). Í því riti er tilgreint hvernig uppbygging skólanámskráa í tónlistarskólum skuli vera háttað (bls. 21 – 22).

Fyrsta útgáfa Skólanámskrár Tónmenntaskóla Reykjavíkur kom út í febrúar 1996. Hún hefur verið endurbætt reglulega, en sú útgáfa sem hér er birt var síðast uppfærð haustið 2023.

Skólanámskráin er ætluð öllum sem vilja fræðast um hvernig skipulagi, námi og kennslu er háttað í skólanum. Einnig er þar stuttlega fjallað um sögu skólans sem er elsti starfandi tónlistarskóli Reykjavíkur og sá eini sem ber nafn borgarinnar.

Reykjavík 27. september 2023

Anna Rún Atladóttir

Skólastjóri

Forsaga og þróun

Frá stríðslokum höfðu verið starfandi barnadeildir eða undirbúningsdeildir fyrir börn í Tónlistarskólanum í Reykjavík.  Frumkvæði að stofnun þessara barnadeilda hafði dr. Heinz Edelstein en hann hafði verið ráðinn sem sellókennari og kennari í kammermúsík að skólanum haustið 1938, auk þess að vera ráðinn sellóleikari við nýstofnaða Hljómsveit Reykjavíkur.

Barnadeildirnar í Tónlistarskólanum uxu jafnt og þétt næstu árin og starfsemin varð æ umfangsmeiri.  Um 1950 fór Heinz Edelstein að huga að nýjum ramma eða skipulagsgrundvelli fyrir þessa starfsemi.  Í júní 1951 lagði hann “Tillögur um alþýðlegan músíkskóla“ fyrir fræðslumálastjóra.  Þessar tillögur hlutu góðan hljómgrunn og voru samþykktar af fræðslumálastjórn.  Ragnar Jónson forstjóri og menningarfrömuður sýndi þessu máli mikinn áhuga og styrkti Heinz Edelstein til námsdvalar í Þýskalandi veturinn 1951 – 52 í þeim tilgangi að hann kynnti sér það sem efst var á baugi þar í tónlistaruppeldismálum.

Haustið 1952 var skólinn formlega stofnaður og hlaut nafnið Barnamúsíkskólinn.  Í skólaráði voru dr. Páll Ísólfsson skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík, Ragnar Jónsson forstjóri, dr. Róbert Abraham Ottósson hljómsveitarstjóri og Ingólfur Guðbrandsson kórstjóri.  Skólinn tók til starfa í september 1952.

Dr. Heinz Edelstein var skólastjóri frá stofnun skólans til vors 1956.  Eftirmaður hans Ingólfur Guðbrandsson stýrði skólanum veturinn 1956 – 57 en þá tók dr. Róbert Abraham Ottósson við stjórn skólans til vorsins 1961.  Veturinn 1961 – 62 veitti Jón G. Þórarinsson  skólanum forstöðu. Stefán Edelstein var skólastjóri skólans frá hausti 1962 til vorsins 2017. Þá tók Rúnar Óskarsson við í einn vetur. Núverandi skólastjóri Anna Rún Atladóttir tók við haustið 2018.

Í upphafi voru aðeins tveir kennarar við skólann, Heinz Edelstein og Róbert Abraham Ottósson.  Sinntu þeir allri kennslu við skólann fram til vorsins 1955.  Smám saman bættust við fleiri kennarar eftir því sem skólinn dafnaði og nemendum fjölgaði.

Á fyrstu árum skólans voru kennsluáætlanir þannig að nemendum var kennt í hópum í minnst þrjú ár.  Lögð var áhersla á söng, hreyfingu og grundvallaratriði tónfræðinnar en nemendur gátu einnig stundað hljóðfæranám í smáhópum, annað hvort á píanó, blokkflautu eða einföld strengjahljóðfæri.  Smám saman breyttist námskipan og kennsluhættir.  Árið 1977, þegar gamli Barnamúsíkskólinn flutti í húsnæði gagnfræðaskólans við Lindargötu og tók upp nafnið Tónmenntaskóli Reykjavíkur var núverandi skipulagi komið á.

Nemendafjöldi við skólann var í upphafi um 80.  Smám saman fjölgaði nemendum en aldrei komust allir að sem vildu vegna þrengsla og skorts á hentugu húsnæði.  Veturinn 1960 – 61 fór nemendafjöldinn í 200, veturinn 1965 – 66 í 275, veturinn 1970 – 71 upp í 375, veturinn 1980 – 81 í 480 og veturinn 1982 – 83 er nemendafjöldinn orðinn 540.  Það var meira en hægt var að ráða við með góðu móti í húsnæði skólans og var nemendafjöldinn í skólanum frá skólaárinu 1983 – 84 um 450 – 500 nemendur á ári.  Þegar einsetning grunnskólans hófst í Reykjavík þurfti að fækka nemendum í skólanum þar sem tíminn til kennslu takmarkast við tímabilið frá kl. 14:00 – 19:00.  Nemendafjöldinn er nú rúmlega 170.

Húsnæðismál
Húsnæðismál Barnamúsíkskólans voru erfið frá upphafi og fengu ekki viðunandi lausn fyrr en 1977 þegar skólinn fékk inni í Lindargötuskólanum.  Skólinn hóf starfsemi sína í Valsheimilinu við Hlíðarenda, var síðan í gagnfræðaskóla Vesturbæjar við Hringbraut, þá í Austurbæjarskólanum og síðast í húsnæði Iðnskólans þar sem hann var í rúm tuttugu ár.

Við flutninginn í Lindargötuskólann batnaði öll aðstaða skólans til muna og nemendum tók að fjölga verulega.  Skipt var um nafn á skólanum og hlaut hann nafnið Tónmenntaskóli Reykjavíkur með samþykki borgaryfirvalda.

Á tímabilinu 1973 – 1990 rak skólinn útibú á nokkrum stöðum í borginni meðal annars í Breiðholti og Vesturbæ en frá 1990 hefur öll starfsemi skólans farið fram í Lindargötuskólanum og í tveimur bakhúsum sem standa á lóð skólans.

Rekstur og fjármögnun
Barnamúsíkskólinn hlaut rekstrarstyrk frá Reykjavíkurborg fyrstu árin og einnig greiddi borgin laun skólastjóra.  Síðar komst skólinn inn á fjárlög ríkisins, en frá 1975 til 1988 var hann rekinn eins og aðrir tónlistarskólar í landinu samkvæmt lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla.  Frá 1989 hefur launakostnaður verið greiddur af Reykjavíkurborg samkvæmt lögum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Framtíðarsýn

Framtíðarsýn

Allt skólastarf er breytingum undirorpið.  Stundum hafa fræðsluyfirvöld rætt um að æskilegt væri að hluti af starfsemi tónlistarskólanna væri úti í grunnskólum, sérstaklega hvað varðar yngri börnin.  Þetta hefur verið reynt í nokkrum tilfellum en ekki tekist nægilega vel til.

Mikilvægt er, að ekki sé tjaldað til einnar nætur í þessum efnum, aðbúnaður fyrir tónlistarskóla sem ætlar að sinna kennslu í samvinnu við grunnskólann verður að vera góður og traustur; bráðabirgðalausnir og léleg aðstaða eru með öllu óaðgengilegar.

Tónlistarskólar þurfa að huga að því að hljóðfæraval sé þar margbreytilegt.

Á meðal þeirra nýjunga sem bryddað hefur verið upp á undanfarin 3 ár eru hljóðfæraforskólar. Þeir eru  ætlaðir börnum fimm til sjö ára, með það að markmiði að gefa  börnum sem eru enn ekki læs á nótur tækifæri til að kynnast hljóðfærinu, læra einföldustu lög eftir eyranu og grundvallartækni á hljóðfærið ásamt grunnatriðum í tónfræði gegnum leik og söng.

Eitt af meginmarkmiðum Tónmenntaskólans er að koma til móts við þarfir nemenda. Önnur nýjung er einmitt liður í því en það er nám í Miðstöðinni, sem einnig er gott dæmi um góða samvinnu milli tónlistarskólanna á höfuðborgarsvæðinu. Sjá nánar undir kaflanum Miðstöðin.

Kennsla í spuna fer fram í formi námskeiða yfir veturinn. Þar er farið í grunnþekkingu í spuna með tónsköpun að leiðarljósi. Leitast er eftir að þjálfa með nemendum meðvitund og næmni, jafnt sem frumkvæði og dyrfsku í tónsköpun sinni, bæði sem hljóðfæraleikarar og í samspili. Farið er yfir mismunandi notkun tónbila, rythma, dínamík og áferðar í tónsköpun. Einnig er frumkvæði og hlustun í tónsköpun efld með kennslu á mismunandi hlutverkum hljóðfæra í samspili.  Byggt er jöfnum höndum á sköpun, hljóðfærakunnáttu og tónfræði kunnáttu nemenda og er ætlað að styrkja allar þessar grunn stoðir tónlistariðkunnar enn frekar með praktískum æfingum og hópvinnu. Mikið er spilað saman og spunnið í tímunum með gleði í tónsköpun að markmiði!

Samvinna við íslensk tónskáld var lengi vel fastur liður í starfsemi skólans. Fólst hún meðal annars í því að pöntuð voru tónverk fyrir ýmsar hljómsveitir og samspilshópa í skólanum, og einnig í því að fá íslensk tónskáld til að vinna að tónsmíðum með nemendum í hópvinnu. Auk þess voru samdar alls 4 barnaóperur fyrir skólann eftir pöntun.

Skólinn hefur mikinn hug á að koma á fót fullorðinsfræðslu, þar sem fullorðnum (t.d. foreldrum sem eiga börn í skólanum) væri kennd undirstöðuatriði tónlistar auk þess sem hlustað yrði á ýmiss konar tónlist og hún greind og skoðuð frá ýmsum hliðum. Eins er mikill áhugi á hljóðfærakennslu fyrir eldri borgara. 

Nemendur skólans hafa verið duglegir að sinna samfélagsþjónustu með því að heimsækja spítala og halda tónleika fyrir eldri borgara.  Þetta mætti vera enn stærri hluti af skólastarfinu sem og heimsóknir í leik- og grunnskóla þar sem tónlistarskólar kynntu hin ýmsu hljóðfæri og heim tónlistar fyrir nemendum.

Þetta eru þeir vaxtarbroddar sem álitlegir eru í starfsemi Tónmenntaskóla Reykjavíkur á næstu árum.  Tíminn verður að leiða í ljós hvort þeir verða allir að veruleika.

Hagnýtar upplýsingar

Hagnýtar upplýsingar

Starfstími Tónmenntaskóla Reykjavíkur er frá miðjum ágúst og fram í lok maí.  Kennarar mæta til ýmissa starfa og vinnufunda þriðju viku í ágúst og innritun nemenda hefst strax og þeir hafa fengið stundaskrár sínar úr grunnskólanum í ágúst.  Þá er stundatafla Tónmenntaskólans samin, en það er flókið verk sem tekur nokkurn tíma.  Kennsla hefst svo á hljóðfæri síðustu dagana í ágúst skv. bráðabirgðastundaskrá en hópkennslan og hljómsveitir hefja starfsemi sína í byrjun september skv. endanlegri stundaskrá.

Jólaleyfi, páskaleyfi og aðrir frídagar eru svipaðir og í grunnskólanum, þó hefst jólaleyfið að jafnaði nokkrum dögum fyrr vegna “litlu jólanna“ í grunnskólanum.  Kennt er fram undir 20. maí og þá taka við próf, vinnudagar kennara, útskrift nemenda og skólaslit. Tónmenntaskólinn er með haustfrí og vetrarfrí og eru þessi frí samræmd við dagsetningar haust- og vetrarfría grunnskóla.

Vitnisburður með umsögn um námsárangur er sendur til  foreldra með tölvupósti í janúar (fyrir haustönn) og í maí (fyrir vorönn) .

Nýir nemendur eru skráðir inn á vorin um mánaðarmótin mars/apríl. Nemendur sem þegar stunda nám við skólann, systkini þeirra og þeir umsækjendur sem eiga lögheimili í Reykjavík fá forgang við skráningu í skólann. Framboð getur verið mismunandi eftir hljóðfærum.

Í apríl, ár hvert, þurfa allir nemendur skólans og umsækjendur að staðfesta áframhaldandi nám með því að greiða staðfestingagjaldið. Öðruvísi er ekki hægt að tryggja sér áframhaldandi vist í skólanum.

Ganga þarf frá skólagjöldum við upphaf skólaárs. Skólagjöld eru innheimt með kröfum í heimabanka sem má skipta og greiða fyrri hlutann í ágúst en seinni hlutann eftir áramót í febrúar.  Einnig er hægt að dreifa greiðslum á allt að 7 mánuði sé þess óskað.

Hægt er að nota Frístundakort Reykjavíkurborgar til frádráttar á skólagjöldum, en einungis er hægt að ráðstafa styrknum á haustönn.

Tónmenntaskóli Reykjavíkur nýtur fjárframlaga frá Reykjavíkurborg.

Sjá skólagjöld

Ef fleiri en eitt barn úr sömu fjölskyldu sækir skólann er veittur systkinaafsláttur, 20% af gjöldum 2. barns,  30% af gjöldum 3. og 4. barns. Alltaf er greitt fullt verð fyrir dýrasta námið.

Uppsögn: Segja þarf upp námi með þriggja mánaða fyrirvara, þannig að ef nemandi hættir þarf að greiða fyrir þrjá mánuði eftir að uppsögn er tilkynnt. Uppsögn þarf að tilkynna til skrifstofu skólans skriflega.

Til að forðast allan misskilning skal tekið fram að skólagjöld eru ekki fyrir launakostnaði (sem greiðist af Reykjavíkurborg) heldur fyrir öllum öðrum rekstrarkostnaði, s.s. skrifstofuhaldi, ræstingu, húsaleigukostnaði, viðhaldi húsnæðis, orku, hljóðfæra- og tækjakaupum, efnisgjaldi og fleiru sem of langt mál væri að telja upp hér.

Efnisgjald vegna ljósrita, nótnapappírs,  blokkflautu (í forskóla), möppum og annarra gagna sem nemandi fær fyrir hóptíma og hljóðfæratíma er innifalið í skólagjaldinu.

Nótnabækur vegna hljóðfæranáms og Opus tónfræðikennslubækur eru ekki innifaldar í skólagjaldinu.  Foreldrar verða að gera ráð fyrir kostnaði á hverju ári vegna nótnakaupa handa þeim börnum sem læra á hljóðfæri, enda er það markmið að nemendur eignist dálítið nótnasafn þegar frá líður.  Tekið skal fram að ljósritun á nótum er óheimil.

Hljóðfæri (önnur en píanó og blokkflautur) eru leigð út til byrjenda þar til ljóst er að nemandinn haldi áfram námi og tímabært þykir að hann eignist eigið hljóðfæri.  Foreldrar greiða leigugjald og skrifa undir lánssamning þar sem kveðið er á um ábyrgð á hljóðfærinu.  Vinsamlega athugið að ef nemandi ætlar að læra á píanó þarf að vera til hljóðfæri á heimilinu.

Skrifstofa skólans er opin frá kl. 13:00 – 16:00 alla virka daga. 

Starfslið: Við skólann starfa alls 20 kennarar, flestir í hlutastörfum auk ritara og skólastjóra og tveir húsverðir sem búa í lítilli íbúð á efri hæð hússins.

Viðtalstími skólastjóra er eftir samkomulagi. 

Hlutverk og Markmið

Í aðalnámskrá tónlistarskóla segir að tónlistarskólar gegni fjölþættu hlutverki í samfélaginu.  Þeim ber að stuðla að öflugu tónlistarlífi jafnframt því að vinna að aukinni hæfni, þekkingu og þroska einstaklinga.  Skólunum ber að taka tillit til margvíslegra áhugasviða nemenda, getu þeirra og þroska;  kennsluaðferðir og viðfangsefni þurfa því ætíð að vera fjölbreytt og  sveigjanleiki í skólastarfi því nauðsynlegur.

Í aðalnámskrá tónlistarskóla segir á bls. 13:

Hlutverk tónlistarskóla er að:

 • stuðla að aukinni hæfni nemenda til að flytja, greina og skapa tónlist og til að hlusta á tónlist og njóta hennar […]
 • búa nemendur undir að geta iðkað tónlist uppá eigin spýtur […]
 • búa nemendur undir nám í tónlist og skyldum greinum á háskólastigi […]
 • stuðla að auknu tónlistarlífi […]

Tónmenntaskóli Reykjavíkur samsamar sig þessu almenna hlutverki og gerir það að sínu.  Að öðru leyti er hlutverk Tónmenntaskóla Reykjavíkur fyrst og fremst að veita reykvískum börnum og unglingum á grunnskólaaldri alhliða tónlistarmenntun.  Nemendum skólans gefst bæði kostur á undirstöðumenntun og þjálfun í hljóðfæraleik að eigin vali.  Hlutverk skólans er einnig að reyna ýmsar nýjungar í starfi sínu, bæði hvað varðar námsefni og kennsluaðferðir.

Skólinn fylgist vel með framvindu námsins hjá nemendum og hefur augun opin fyrir því ef sérstakir og óvenjulegir tónlistarhæfileikar koma í ljós hjá einstökum nemendum með það í huga að hlú að og styrkja þessa hæfileikaríku nemendur.

Í aðalnámskrá tónlistarskóla er rætt um meginmarkmið tónlistarskóla og þeim skipt í þrjá flokka:  Uppeldisleg markmið, leikni- og skilningsmarkmið og samfélagsleg markmið.  Þar segir:

Uppeldisleg markmið stuðla að auknum tilfinningaþroska nemenda, listrænum þroska, mótun viðhorfa, samvinnu og ögun.
Leikni- og skilningsmarkmið stuðla einkum að aukinni færni og þekkingu nemenda.
Samfélagsleg markmið stuðla að þátttöku í fjölbreyttri mennta- og menningarstarfsemi (bls. 14).

Of langt mál væri hér að telja upp öll meginatriði sem aðalnámskrá greinir frá í þessum þremur flokkum.  Þau helstu, í samþjöppuðu formi, eru (bls. 14 – 16):

A. Uppeldisleg markmið

 1. Nemendur öðlist lifandi áhuga á tónlist og tónlistariðkun með því að:
  • syngja og leika á hljóðfæri
  • hlusta á fjölbreytta tónlist við margs konar aðstæður
  • skapa eigin tónlist
  • taka þátt í samleik og samsöng
  • koma fram á tónleikum
 2. Nemendur læri að njóta tónlistar og upplifa hana sem:
  • hlustendur
  • þátttakendur

Auk þessa stuðli tónlistarnám að því að efla sjálfsmynd nemenda, einbeitingarhæfni þeirra og hæfni til að vinna með öðrum.

B. Leikni- og skilningsmarkmið

 1. Sjálfstæð vinnubrögð – Nemendur:
  • læri og æfist í að leika tónlist eftir nótum, jafnt undirbúið sem óundirbúið
  • æfist í að leika og syngja eftir heyrn og minni
 2. Hlustun og skilningur – Nemendur:
  • læri að heyra og skilja frum- og túlkunarþætti tónlistar
  • öðlist þekkingu, geti greint og gert grein fyrir ólíkum tónlistarstefnum,
  • stíltegundum og tímabilum
 3. Sköpun eigin tónlistar – Nemendur:
  • læri og þjálfist í að setja fram eigin tónhugmyndir bæði skriflega og leiknar af fingrum fram
  • læri og þjálfist í að setja saman hefðbundnar eða óhefðbundnar tónsmíðar
  • læri og þjálfist í að spinna út frá gefnu upphafi, hljómferli eða eftir öðrum aðferðum
 4. Túlkun tónlistar og flutningur – Nemendur:
  • þjálfist í að túlka tónlist með tilliti til aldurs og stíls tónverka
  • læri að flytja og túlka tónlist með tilliti til greiningar á viðkomandi verkum
  • þjálfist í að flytja tónverk með tilliti til tilfinningalegs innihalds þeirra

Einnig er á bls. 15 og 16 í aðalnámskrá fjallað um að nemendur læri að tjá sig um einkenni og áhrif tónlistar sem og læri að leggja mat á flutning og túlkun tónlistar.

C. Samfélagsleg markmið

Tónlistarskólar:

 • veiti öllum sem þess æskja, færi á að kynnast tónlistarnámi af eigin raun
 • skapi nemendum tækifæri til tónlistarflutnings, jafnt innan skóla sem utan
 • stuðli að aukinni þátttöku áhugafólks í tónlistarlífi
 • stuðli að góðri fagmenntun tónlistarmanna og tónlistarkennara.

Auk þess er rætt um að stuðla að góðum undirbúningi undir tónlistarstörf, að efla tónlistarlífið í samfélaginu og íslenska tónmenningu og varðveita tónlistararf þjóðarinnar  […]

Þessi almennt orðuðu markmið í aðalnámskrá tónlistarskóla eru nánast þau sömu og Tónmenntaskólinn stefnir að með starfsemi sinni.
Sem dæmi um almenn markmið með kennslunni í Tónmenntaskólanum mætti nefna eftirfarandi:

Nemendur:

 • upplifi tónlist gegnum eigin virkni, hlustun og þátttöku með öðrum
 • taki þátt í skapandi tónlistarathöfnum sem einstaklingar eða með öðrum í smærri og stærri hópum.
 • öðlist skilning og þekkingu á grundvallarþáttum tónlistar (t.d. hryn, laglínu, hljómi) með því að upplifa fjölbreytilega tónlist í gegnum hlustun og eigin þátttöku.
 • fái grundvallarþekkingu í þeim tónfræðaþáttum sem nauðsynlegir eru til að geta stundað  hljóðfæranám í viðkomandi stigi.

Þessi markmið eru útfærð nánar í hóp- og hljóðfærakennslunni.  Það skal tekið fram að inntaksþættir hóptímanna hvað varðar tónfræðaþáttinn, allt frá 1. – 7. bekk skólans, liggja fyrir og eru foreldrum aðgengilegir óski þeir þess.  Auk þess liggur fyrir námskrá í tónfræðum fyrir grunn- og miðnám  útgefin af menntamálaráðuneytinu.

Hljóðfæranámskrárnar útgefnar af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu skýra og skilgreina nánar námsmarkmiðin með hljóðfæranáminu miðað við tiltekin námstig og er þeim sem óska frekari upplýsinga vísað á þær.

Nú er hljóðfærakennslan yfirleitt einkakennsla og má því í raun segja að kennarinn sé með einstaklingsbundin markmið fyrir hvern nemanda, löguð að getu hans og þörfum, jafnvel með einstaklingsbundna námskrá.  Tíminn milli áfangaprófa getur verið mjög breytilegur eftir nemendum vegna þess hve misfljótir þeir eru að komast yfir verkefni hvers námsstigs.

Ekki er þó öll hljóðfærakennsla í einstaklingskennsluformi.  Í Tónmenntaskólanum er iðkað samspil á ýmis hljóðfæri, allt frá samspili á tvö hljóðfæri upp í samspil í blásara- og strengjasveitum. Yngstu strengjanemendur taka þátt í strengjasveit Tónmenntaskólans. Eldri nemendur eiga kosta á að leika með Strengjasveit Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og  blásarar leika með Skólahljómsveitum borgarinnar.

Inngangur

Hlutverk skólanámskrár Tónmenntaskóla Reykjavíkur

Í aðalnámskrá tónlistarskóla, útgefinni af Mennta- og menningarmálráðuneytinu í maí 2000 segir:

Lögð er áhersla á sjálfstæði skóla.  Í því skyni eru í aðalnámskrá tilmæli um að starfssvið tónlistarskóla skuli skilgreint í skólanámskrá þar sem fram komi markmið náms og fyrirkomulag skólastarfs í viðkomandi skóla.  Við gerð skólanámskrár skal taka mið af stefnumörkun aðalnámskrár tónlistarskóla ásamt því að setja fram sérhæfð og staðbundin markmið einstakra skóla (bls. 11).

Aðalnámskrá tónlistarskóla mælir eindregið með því að allir tónlistarskólar skilgreini starfssvið sitt og markmið í skólanámskrám.  Skólanámskrá Tónmenntaskólans er ætlað að stuðla að árangursríku skólastarfi með því að veita upplýsingar og yfirsýn, auðvelda endurmat áætlana og tryggja sem farsælast tónlistaruppeldi.

Skólanámskrá Tónmenntaskólans er ætluð foreldrum og öðrum aðstandendum nemenda skólans, nemendum sjálfum og stjórnvöldum sem veita fé til skólans (Reykjavíkurborg) og sem bera faglega ábyrgð á þeim ramma sem tónlistarkennsla í tónlistarskólum landsins byggir á (Mennta- og barnamálaráðuneytið).  Auk þess gæti Skólanámskrá Tónmenntaskólans nýst öðrum tónlistarskólum sem hugmyndabanki og  almenningi sem áhuga hefur á tónlistaruppeldi sem almennt upplýsingarit.

Skólanámskrá getur aldrei orðið endanleg.  Hún þarfnast stöðugrar endurskoðunar og er breytingum undirorpin frá ári til árs, þótt meginatriði hennar geti verið óbreytt lengur.

Námsefni, náms- og kennsluáætlun

Hópkennsla

Námsefni sem skólinn notar fyrir forskóla I er samið af hópkennurum skólans.

Í forskóla II er bókin „Tuttugu töffarar“ eftir Annamaria Lopa og Ólöfu Maríu Ingólfsdóttur kennd auk námsefnis sem kennarar skólans semja.

Hvað tónfræði viðvíkur eru einföldustu grundvallaratriðin kennd í Forskóla II og einnig í fyrsta bekk.

Í hópkennslu fyrsta bekkjar fá nemendur kennsluhefti sem samið er af kennurum skólans.

Í öðrum til  sjötta bekk eru Opus tónfræðikennslubækurnar kenndar. Höfundar bókanna eru Guðfinna Guðlaugsdóttir og Marta E. Sigurðardóttir. Auk þeirra eru notuð ýmiss verkefni og ýtarefni sem samið er af hópkennurum skólans og endurskoðað reglulega.  Þetta aukanámsefni er meðal annars hlustunarefni, skapandi verkefni, verkefni með tónfræðilegu ívafi og fræðsla um tónskáld og tónverk.   

Ætlast er til að nemendur vinni tónfræðina í heimanámi, sérstaklega þegar ofar dregur og skili kennara þeirri vinnu til yfirferðar og leiðréttingar.  Að sjálfsögðu eru tónfræðileg atriði oftast útskýrð og unnin fyrst í hóptímunum.

Þar sem töluverður munur getur verið á þroska og færni hliðstæðra námshópa þá kallar það á sveigjanlegar náms- og kennsluáætlanir.  Hver kennari gerir sínar áætlanir fyrir hóptímana miðað við þann hóp sem hann er með hverju sinni.  Í tónfræðakennslunni er þó reynt að víkja ekki frá áætluninni sem miðast við að nemandi taki eitt próf á ári frá 2. bekk upp í 7. bekk. 

Hljóðfærakennsla
Í hljóðfærakennslunni, sem venjulega hefst eftir nám í Forskóla II eða við átta til níu ára aldur, styðjast kennarar við gildandi námskrár viðkomandi hljóðfæra.  Þessar námskrár hafa verið gefnar út af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.  Gert er ráð fyrir því í aðalnámskrá tónlistarskóla að hljóðfæranámskrár verði endurskoðaðar reglulega.

Í hljóðfæranámskrám er námsefninu skipt í þrjá prófáfanga, Grunnpróf, Miðpróf og Framhaldspróf.  Í Tónmenntaskólanum ljúka nemendur að meðaltali fjórum (jafnvel fimm) hljóðfærastigum eða prófum eftir átta ára nám í hljóðfæraleik þ.e. Forpróf, (sem er skólapróf sem gæti jafnvel verið tvískipt þ.e. Forpróf I og Forpróf II), Grunnpróf, sem er á vegum Prófanefndar, Millipróf sem er skólapróf og að lokum Miðpróf sem er á vegum Prófanefndar.  Hljóðfærakennarinn semur einstaklingsbundna námsáætlun fyrir hvern nemanda, sem tekur mið af þroska hans, áhuga, vinnugleði og næmi.  Töluverður munur getur verið á yfirferð nemenda, sumir vinna hraðar, aðrir hægar.  Prófin eru tekin þegar nemandinn er að mati kennara tilbúinn til þess og hefur tileinkað sér hæfilegt námsefni úr viðkomandi stigi samkvæmt hljóðfæranámskrá.  Grunnpróf og Miðpróf eru tekin skv. forskrift og reglum Prófanefndar og dæmd af utanaðkomandi prófdómurum. 

Námskipan

Taflan hér að neðan lýsir gróflega skipan náms við Tónmenntaskóla Reykjavíkur.

KennslufyrirkomulagKennslustundir á vikuLengd kennslustunda (í mín)Fjöldi nemenda í hópi
 Forskóli I og II:2 50 6 – 9
 Fiðluforskóli:230/45 2 – 6
Píanóforskóli:230/30-452 – 4
Sellóforskóli:230/30-452 – 4
 Hljóðfæratímar:2301
 eða 1 (eldri nemendur)60
    
1. – 6. bekkur, hóptímar:1 50  6 – 10
7. bekkur, hóptímar:175 6 – 10
    
 Blásarasveit I & II:2 90 – 120 breytilegur
 Strengjasveit TMS1 60  breytilegur
    
 Samspilshópar: Samsettir af ólíkum hljóðfærum og starfa óreglulega.

Nám í Tónmenntaskóla Reykjavíkur fer fram í 7 bekkjum og er deildaskipt sem hér segir:  Forskóli, almennar deildir (1. – 4. bekkur) og framhaldsdeild (5. – 7. bekkur).  

Fyrirkomulag þetta fellur að skipulagi aðalnámskrár um skiptingu tónlistarnáms í grunnnám að meðtöldu fornámi, miðnám og framhaldsnám samkvæmt eftifarandi lýsingu (sjá aðalnámskrá bls. 17 – 18):  Forskóli Tónmenntaskólans sinnir fornámi, grunnpróf er að jafnaði tekið í 4. bekk og nemendur sem útskrifast úr 7. bekk ljúka miðprófi. Vert er að taka fram að til að komast í 7. bekk skólans þarf að hafa lágmarkseinkunina 7 úr 6. bekk.  Forpróf er tekið að jafnaði eftir 2 – 3 ára hljóðfæranám (í 3. – 4. bekk skólans) og millipróf er tekið á milli grunnprófs og  miðprófs, hugsanlega í 4. – 5. bekk eða 5. – 6. bekk. 

Forskóli

Fornám er samþætt byrjendanám í tónfræðagreinum, sniðið að aldri og þroska barna (aðalnámskrá bls. 17).

Börn geta innritast í forskóla sex eða sjö ára að aldri.  Börn sem innritast sex ára eru tvö ár í forskóla en sjö ára börn einn vetur.  Kennt er í hópum og eru sex til níu nemendur í hverjum hópi.  Hver hópur fær tvær kennslustundir á viku.

Í forskólanum fá nemendur alhliða tónlistarþjálfun með því að taka þátt í söng, blokkflautuleik (forskóli II), hreyfi- og hrynþjálfun og markvissri hlustun.  Frumatriði í tónfræði eru kennd í forskóla II.  Ýmiss konar skapandi starf er snar þáttur í náminu.  Forskólanámið byggir að verulegu leyti á tónlistarupplifun nemenda, sérstaklega í forskóla I.

Hljóðfæranám

Á flest hljóðfæri er hægt að hefja nám við átta ára aldur en það er þó ekki algild regla.  

Börn sem eru bráðþroska á þeim sviðum sem tónlistarnám hvílir einkum á geta byrjað hljóðfæranám við sjö ára aldur eða fyrr.  Gagnvart börnum sem eru seinni til verður að gera kröfur samkvæmt þroska og getu.

Nemendur velja sér hljóðfæri til að læra á að forskóla loknum.  Hljóðfærin eru kynnt á sérstökum tónleikum í lok forskóla II til að vekja nemendur til umhugsunar um valkosti og auðvelda þeim val fyrir næsta vetur.

Sem stendur er ekki kennt á málmblásturshljóðfæri og ásláttarhljóðfæri.

Vinsamlega athugið að ef nemandi ætlar að læra á píanó þarf að vera til hljóðfæri á heimilinu.

Stundum er nauðsynlegt að hafa aðdraganda að námi á það hljóðfæri sem nemandi hefur valið sér.  Kjósi hann t.d. að læra á fagott er nauðsynlegt að byrja að læra á annað hljóðfæri fyrst.  Þegar nemandi er orðinn tíu eða ellefu ára gamall getur hann síðan hafið nám á óskahljóðfæri sitt.

Óski nemandi eftir að skipta um hljóðfæri metur skólinn í samráði við foreldra hvernig við því skal brugðist.

Námið í forskólanum, sérstaklega í forskóla II og í 1. bekk, þegar hljóðfæranám hefst, er eins konar reynslutími.  Fyrir kemur að nemendur gefast upp eftir nám í þessum bekkjum og liggja að sjálfsögðu til þess ýmsar ástæður.  Með samráði milli kennara, skólastjóra og forráðamanna barnsins er metið hvað muni henta því best;  að hætta, skipta um hljóðfæri, endurtaka bekk eða annað.

Kennt er á hljóðfæri í einkatímum;  yngri nemendur mæta tvisvar í viku, 30 mínútur í senn, en eldri nemendur geta fengið klukkutíma kennslu einu sinni í viku.  Námsefni og áfangapróf taka mið af þeim hljóðfæranámskrám sem til eru.  

Kennari metur hvenær nemandi er fær um að taka próf.

Allir hljóðfæranemendur koma fram á reglulegum tónleikum í skólanum a.m.k. tvisvar á ári.

Hljóðfæraforskólar (fiðla, píanó og selló)

Sérstakir hljóðfæraforskólar, fiðlu, píanó og selló, eru starfræktir fyrir 5 til 7 ára börn með það að markmiði að gefa börnum á þessum aldri, sem eru enn ekki læs á nótur, tækifæri til að kynnast hljóðfærinu, læra einföldustu lög eftir eyranu og grundvallartækni á hljóðfærið, sem og grundvallaratriði í tónfræði í gegnum leik og söng.

Kennt er tvisvar í viku;  einkatími í 30 mínútur og 30-45 mínútna hóptími.

Þeir nemendur sem eru að hefja þriðja árið í hljóðfæraforskóla (sjö ára) geta þar að auki stundað hóptíma í forskóla II (2 x 50 mín. á viku) og tekið þátt í hljómsveitastarfi án aukakostnaðar.

Þar sem nemendur í hljóðfæraforskóla eru mjög ungir að árum má segja að nám þeirra standi eða falli með stuðningi og þátttöku foreldra.  Því eru gerðar kröfur um að annað foreldrið mæti í einkatíma með barninu og að unnið sé með því heima.

Hóptímar

Eftir að forskóla lýkur sækja nemendur hóptíma samhliða hljóðfæranáminu.  Kennslan er fjölbreytt og í beinu framhaldi af náminu í forskólanum.  Leitast er við að samþætta tónfræði, tónheyrn, hlustun, greiningu og skapandi starf.

Eins og áður segir þarf nemandi að öðru jöfnu að hafa lokið Grunnprófi á hljóðfæri og í tónfræði, miðað við núverandi áfangaprófakerfi, til að komast í framhaldsdeildir skólans.  Í framhaldsdeildum er unnið áfram að tónfræði og farið í undirstöðuatriði hljómfræðinnar.  Einnig er töluvert hlustað á tónlist, hún formgreind og farið í tónlistarsöguleg atriði.

Miðstöðin

Miðstöðin er rytmísk/popp deild sem Tónmenntaskóli Reykjavíkur og Nýi tónlistarskólinn standa að í samstarfi við Stúdíó Miðstöðvarinnar.

Miðstöðin er ætluð nemendum 10 ára og eldri. Umsækjendur sem hafa tónlistarnám að baki, á hvaða hljóðfæri sem er, ganga fyrir.

Starfið í Miðstöðinni.

Starfið í Miðstöðinni gengur út á fjölbreytt nám á forsendum nemenda.
Í deildinni læra nemendur hljóðfæraleik á rytmísk hljóðfæri og flest allt sem þarf til að láta tónlistardrauma sína rætast. Þeir læra að spila í hljómsveitum, semja lög og útsetja, taka þau upp og hljóðvinna og koma tónlist sinni á framfæri. Þessu ferli stýra nemendur sjálfir og fá til þess bestu aðstoð sem hugsast getur og óheftan aðgang að fullkomnustu aðstæðum landsins til tónlistariðkunar; fyrsta flokks hljóðfærum, tækjum og búnaði í öruggu og fallegu húsnæði þar sem allt er til alls. Þau hljóðfæri sem kennt er á í rytmadeildinni eru píanó, rafgítar, trommur og rafbassi.

Kennt samkvæmt Rytmískri aðalnámskrá tónlistarskólanna.

Námið í Miðstöðinni skiptist í tvo hluta, grunnnám sem tekur 3 – 5 ár og síðan miðnám sem tekur 4 – 5 ár.

Allir nemendur Miðstöðvarinnar starfa í hljómsveitum og er pláss í hljómsveitum forsenda þess að nemendur eru teknir inn í deildina en samspil og samvera með öðrum nemendum er hryggjarstykkið í starfinu.

Allir nemendur í grunnnámi þurfa þó auk þess að stunda hljóðfæri sitt, að læra góðan grunn að hljómfræði sem er kennd á hjómborð. Í því námi eru nemendur leiddir í gegnum það hvernig hljómfræðin birtist okkur í gegnum dægurlög sem þau eru sjálf að hlusta á hverju sinni. Öll áhersla er lögð á að þau upplifi hljómfræðina sem tæki sem þau geti notað til að gera eigin tónlist en ekki sem fræðigrein. Í þessu námi læra nemendur alla 24 dúr og moll hljóma í öllum stöðum og alla helstu hljómaferla sem tíðkast í dægurtónlist. Nemendur læra einnig að nota 7undir, maj7undir, Sus4 og tvíundir.

Í grunnnámi er gerð krafa um að nemendur læri til grunnprófs á sitt hljóðfæri en þau ráða hvort tekið sé klassískt eða rytmískt próf. Mikil áhersla er lögð á að verkefni nemenda til prófa séu á þeirra áhugasviði og verkin séu hluti að því sem nemendur hafa leikið í hljómsveitum með félögum sínum.

Í miðnámi eru gerðar kröfur um að nemendur læri jafnt og þétt til miðprófs á sitt hljóðfæri á sama tíma og þau starfi með félögum sínum í hljómsveitum.

 

Námsfyrirkomulag.

Námið fer þannig fram að í stað þess að nemandi mæti einu sinni í viku til kennara síns þá vinnur nemandi námið með félögum sínum í hljómsveit með aðstoð kennara í jafn margar klukkustundir og nemendafjöldi hljómsveitarinnar segir til um. Þannig næst mun meiri viðvera hjá nemendum Miðstöðvarinnar með öðrum samnemendum og kennara en ef kennari kennir sama tímafjölda og nemendafjöldi hans segir til um. Reyndar hefur starfið þróast með þeim hætti undanfarin ár að yngri nemendur eru að jafnaði hálfa klukkustund í einkakennslu og þrjár klukkustundir í samspili eða verkefnum. Þessi einkakennsla fer fram í Tónmenntaskóla Reykjavíkur. Með hækkandi aldri þá minnkar gjarnan hlutfall einkakennslunnar og nemendur starfa meira saman í hópum með kennara að sköpun, upptökum, tónleikahaldi og útgáfu tónlistar og öllu því sem því fylgir.

Miðstöðin starfar í anda Menntastefnu Reykjavíkurborgar um markmið í tónlistarkennslu til 2030.

 

Meginmarkmið

 1. Valdeflandi og fjölbreyttur vettvangur

Reykjavík er vettvangur öflugs, fjölbreytts og sýnilegs tónlistarnáms og tónlistarstarfs fyrir börn og ungmenni. Tónlistarnám í Reykjavík er valdeflandi fyrir nemendur, fer fram á þeirra forsendum og tekur mið af hagsmunum þeirra. Aðgengi að tónlistarnámi í Reykjavík er jafnt, óháð búsetu innan borgarinnar og öll aðstaða er til fyrirmyndar.

 1. Góð nýting fjármagns

Reykjavíkurborg tryggir að það fjármagn sem varið er til tónlistarkennslu nýtist borgarbúum sem best og að nýtingin samræmist stefnu borgarinnar. Reykjavíkurborg vinnur markvisst að því að skapa aðstæður til að halda niðri þeim kostnaði sem leggst á foreldra vegna tónlistarnáms barna þeirra.

 1. Fagmennska

Tónlistarkennarar í Reykjavík eru framúrskarandi fagfólk sem nýtir tækifærin á hverjum tíma til efla tónlistarkennsluna og mæta nemendum sínum á þeirra forsendum. Þeir eru vel að sér í nýtingu tæknitengdra tækifæra og taka virkan þátt í öflugu lærdómssamfélagi á vettvangi.

 1. Samverkandi heild

Í Reykjavíkurborg verði öflugt samstarf tónlistarskóla og skólahljómsveita við leikskóla, grunnskóla, félagsmiðstöðvar og frístundaheimili. Samningar borgarinnar við menningarhús tryggja aðgang að viðeigandi húsnæði fyrir stærri nemendahópa til tónlistarflutnings.

 

Fagleg vinnubrögð og nýsköpun

Starfið í deildinni byggir á faglegum rannsóknum og rannsóknarverkefnum deildarstjóra Miðstöðvarinnar, Ólafs Elíassonar píanókennara og MBA, undanfarinn áratug. Hann hefur langa og mikla reynslu af hefðbundinni tónlistarkennslu, lauk einleikaraprófi frá Royal Academy of Music í London og síðar MBA-gráðu í viðskiptafræði frá HÍ. Ólafur gerði ítarlega rannsókn á starfsumhverfi tónlistarskólanna í meistaranámi sínu við Háskóla Íslands. Í henni mældi hann m.a. væntingar foreldra, nemenda og annarra hagaðila til tónlistarskólanna.

Greint var með viðtölum við um hundrað börn hvernig þau myndu vilja hafa tónlistarskólann sinn og rannsókn var gerð á væntingum foreldra til tónlistarnáms barna sinna með djúpviðtölum og skoðanakönnun. Í þessari rannsókn kom m.a. fram mikill vilji nemenda á efri stigum grunnskóla til þess að leika tónlist á sínum eigin forsendum og gera það í félagsskap jafnaldra sinna, þá sérstaklega nemenda á unglingastigi. Skólinn ætti að vera meira í ætt við félagsmiðstöð þar sem þeir gætu leikið saman tónlist í góðum félagsskap. Margir nemendur nefndu að hefðbundið tónlistarnám höfðaði ekki til þeirra og hluti nemenda voru orðnir nokkuð fráhverfir hefðbundnu klassísku tónlistarnámi.

Nokkrir skilmálar sem nemendur og foreldrar verða að samþykkja.

Í starfinu eru nemendur að læra að skapa tónlist og læra að koma henni á framfæri. Eðli máls vegna þarf deildin að hafa heimild nemenda og foreldra til þess að birta bæði hljóð og mynd af þeim verkefnum sem nemendur vinna í náminu á opinberum vettvangi svo sem Facebook, youTube og fleiru. Þannig þurfa nemendur og foreldrar að vera fyrirfram samþykk birtingu verka nemenda á opinberum vettvangi.

Ennfremur verða foreldrar og nemendur að samþykkja að hljómsveitir (hljómsveitarnöfn) og vörumerki sem verða til í deildinni eru ekki eign nemenda heldur Miðstöðvarinnar og eru alfarið á ábyrgð hennar. Reynsla okkar er sú að á þessum aldri eru áhugasvið nemenda á mjög víðu sviði og hljómsveitir skipta oft um meðlimi þannig að þegar hljómsveitir eru komnar á menntaskólaárin eru oft margir nýjir meðlimir komnir og miklar breytingar orðnar á öllu starfi hljómsveitanna.

 

Verkefni og viðurkenningar deildarinnar

Á þeim tíma sem Miðstöðin hefur verið í þróun hafa verið unnin fjölbreytt verkefni af nemendum og ýmsir sigrar unnist:

 • Hljómsveit fólksins á Músíktilraunum 2019. Karma Brigade.
 • Hljómsveit fólksins á Músíktilraunum 2018. Karma Brigade.
 • Hljómsveit fólksins á Músíktilraunum 2013. Yellow Void.
 • Hljómsveit fólksins á Músíktilraunum 2012. White Signal.
 • Sigur í Jólalagakeppni Rásar2 2016.
  Karma Brigade ásamt Skólakór Kársnesskóla.
 • Sigur í Jólalagakeppni Rásar2 2012.
  White Signal ásamt Unglingakór Langholtskrikju.
 • Sigur í Jólalagakeppni Rásar2 2011. White Signal.
 • Dans og tónlist: Myndband útgefið: Dans og tónlist á Hrekkjavöku. Nemendur Miðstöðvarinnar ásamt nemendum frá Listdansskóla Hafnarfjarðar.
 • Leiksýning í Gaflaraleikhúsinu 2012. Nemendur léku alla tónlist í frumsömdu leikriti ungmenna undir stjórn Bjarkar Gísladóttur.
 • Leikið í Beinni útsendingu í Söngvakeppni Sjónvarpsins 2013. Hljómsveitin White Signal lék All out of Luck í nýrri útsetningu.
 • Erasmus+ 2015. Styrkur til nemenda til þess að þróa möguleika á samspili á milli landa með aðstoð upplýsingatækni. Verkefnið var valið sem sýnidæmi um vel heppnað verkefni á heimasíðu Erasmus.
 • Útgefið jólalag: Jólagleðin.
  Dóra og döðlurnar ásamt Skólahljómsveit Grafarvogs 2020.
 • Útgefið efni: Geisladiskur White Signal 2015.
 • Útgefið efni: Geisladiskur Karma Brigade – States of Mind 2021.

 

 

 

Samspil

Ýmiss konar samspil er snar þáttur í námi við Tónmenntaskólann.  Strengjasveit Tónmenntaskólans er skipouð yngstu strengjanemendunum og svo er skólinn í samvinnu við Skólahljómsveit borgarinnar og Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar auk smærri samspilshópa sem starfa óreglulega:

Blásarasveit A  fyrir yngstu nemendurna

Blásarasveit B fyrir aðeins lengra komna

Blásarasveit C fyrir elstu og lengst komnu nemendurna

Strengjasveit Tónmenntaskólans fyrir nemendur í grunnnámi

Strengjasveit III fyrir nemendur sem lokið hafa grunnprófi eða eru við það

Strengjasveit TSDK fyrir nemendur sem lokið hafa miðprófi eða eru við  það

Nemendur fara í yngri blásara- og strengjasveitir í 2. bekk, þ.e.a.s., eftir að þeir hafa lært á hljóðfæri í 1 – 2 ár.  Þeir færast í eldri sveitirnar eftir að hafa verið 3 – 4 ár í yngri sveitunum eða u.þ.b. ári áður en þeir taka Grunnpróf á hljóðfærið.  Samt er þetta breytilegt milli nemenda og endanleg ákvörðun um tilfærslu frá yngri yfir í eldri sveitir háð mati hljóðfærakennarans.  

Þátttaka í hljómsveitum skólans er skylda fyrir alla strengja- og blásaranemendur og telst mikilvægur þáttur í náminu.

Markmiðin með hljómsveitarstarfi eru margþætt.  Þau helstu eru að nemandinn:

 • kynnist tónlist sem ekki er hægt að kynnast nema sem þátttakandi í hljómsveitarspili
 • öðlist reynslu af að vinna undir stjórn hljómsveitarastjóra og læri þær tilskipanir og leiðbeiningar sem hljómsveitarstjóri notar
 • læri að sýna tillitssemi við aðra og kynnist þeim samskiptareglum sem gilda í hljómsveitarspili
 • læri að þekkja hlutverk síns hljóðfæris í hljómsveit og fái þjálfun í að stilla sig inn á styrk og hraða annarra
 • öðlist reynslu af að koma fram í hljómsveit á tónleikum og meta þannig framlag sitt sem einstaklings til heildarinnar.

Fyrir utan hljómsveitasamspilið er leitast við að skipuleggja samspil af ýmsum toga.  Má þar t.d. nefna samspil gítarnemenda og ýmiss konar kammermúsík fyrir mismunandi hljóðfærasamsetningar.

Hljómsveitarspil hjá strengjaleikurum og blásurum byrjar á haustin um tveimur vikum eftir að kennsla hefst og stendur þar til um tveimur vikum fyrir páska eða lengur eftir því hve snemma á árinu páskar eru.  Hver samspilstími varir í um 60 – 120 mínútur með hléi.  Hljómsveitirnar koma reglulega fram á tónleikum.  Auk þess taka þær, eftir því sem hægt er, þátt í landsmótum skólalúðrasveita og strengjasveita, fara í tónleikaferðir og stöku sinnum í æfingabúðir.

Skapandi Starf

Í aðalnámskrá tónlistarskóla segir undir sköpun eigin tónlistar m.a. (bls. 15):
Nemendur:

 • læri og þjálfist í að setja fram eigin tónhugmyndir bæði skriflega og leiknar af fingrum fram
 • læri og þjálfist í að setja saman hefðbundnar eða óhefðbundnar tónsmíðar
 • læri og þjálfist í að spinna út frá gefni upphafi, hljómferli eða öðrum aðferðum

Auk þess er fjallað um skapandi starf í aðalnámskránni á bls. 27.

Tónmenntaskólinn reynir að sinna þessu skapandi starfi á eftirfarandi hátt:

 1. Í allri kennslu í Tónmenntaskólanum er skapandi starf hluti af náminu.  Það byrjar strax í forskóla.  Skapandi starf á sér oft stað í smáhópum innan bekkjarheildarinnar og í hljóðfæratímum.  Verkefnið getur t.d. verið að semja litla tónsmíð, hljóðsetja og “dramatisera“ sögu eða atburð, semja tónverk í tilteknu formi, með spuna á hljóðfæri eða með enn öðrum hætti.
 2. Skólinn hefur í gegnum árin fengið til liðs við sig íslensk tónskáld til að semja verk fyrir nemendur skólans (t.d. hljómsveitirnar) eða með því að vinna beint með nemendum að sameiginlegum verkefnum.  Reynslan af þessari samvinnu er mjög góð og skólinn hefur hug á að halda áfram þessu samstarfi við íslensk tónskáld svo sem frjármagn leyfir.
 3. Kennsla í spuna, þar sem farið er í grunnþekkingu í spuna með tónsköpun að leiðarljósi. Leitast er eftir að þjálfa með nemendum meðvitund og næmni, jafnt sem frumkvæði og dyrfsku í tónsköpun sinni, bæði sem hljóðfæraleikarar og í samspili. Farið er yfir mismunandi notkun tónbila, rythma, dínamík og áferðar í tónsköpun. Einnig er frumkvæði og hlustun í tónsköpun efld með kennslu á mismunandi hlutverkum hljóðfæra í samspili.  Byggt er jöfnum höndum á sköpun, hljóðfærakunnáttu og tónfræði kunnáttu nemenda og er ætlað að styrkja allar þessar grunn stoðir tónlistariðkunnar enn frekar með praktískum æfingum og hópvinnu. Mikið er spilað saman og spunnið í tímunum með gleði í tónsköpun að markmiði.
 4. Auk þess sinna kennarar ýmsu skapandi starfi í hljóðfæratímum (einkatímum).

Námskröfur - Heimavinna

Hljóðfæranám byggir á heimavinnu nemandans, þ.e. á reglubundnum daglegum æfingum á hljóðfærið.  Góðar æfingavenjur lærast smám saman eins og annað.  Í þessu sambandi er stuðningur foreldra mjög mikilvægur, sérstaklega meðan nemendur eru ungir og óreyndir og hafa enn ekki tamið sér góð vinnubrögð.  Stuðningur foreldra þarf alls ekki að vera fagmannlegur; aðalatriðið er að foreldrar sýni áhuga á heimavinnu barnsins, séu jákvæðir og hvetjandi og beiti svolitlu aðhaldi með því að minna á æfingarnar og halda barninu við efnið.  Þegar daglegar æfingar nemandans eru orðnar að vana, t.d. hjá eldri nemendum, þarf minna aðhald.  Jákvæður áhugi og forvitni foreldra er þó alltaf nauðsynlegur.  

Erfitt er að tiltaka ákveðinn tíma sem nemendur ættu að verja til heimaæfinga á hljóðfærið;  þjálfun og nám tekur nemendur misjafnlega langan tíma.  Þó má segja sem reglu, að daglegur æfingatími átta ára byrjanda ætti ekki að vera skemmri en 30 mínútur (e.t.v. tvískiptur, 2 x 15 mínútur).  Þetta getur þó verið misjafnt eftir hljóðfærum;  nemandi á málmblásturshljóðfæri þolir t.d. ekki langan samfelldan æfingatíma.

Eins og áður segir byggja framfarir í hljóðfæraleik á reglubundinni þjálfun heima fyrir.  Mikilvægt er að foreldrar skapi börnum sínum viðunandi aðstöðu til þess að heimanám þeirra geti gengið ótruflað fyrir sig.

Hvað varðar heimanám fyrir hóptímana þá er tæplega um það að ræða fyrr en eftir 1. bekk (eftir átta til níu ára aldur).  Fram að því er flest það er lýtur að tónfræði unnið í sjálfum kennslustundunum.  Undantekning er þó nám á blokkflautu í Forskóla II;  nemendur verða að æfa lögin sín heima af samviskusemi.  Frá og með 2. bekk (annað hljóðfæraár) er eilítil heimavinna í tónfræði en kröfurnar eru mjög hógværar.  Þegar ofar dregur í aldri aukast kröfurnar í heimanáminu, en samt má segja að þær séu aldrei mjög miklar heldur frekar hógværar.  Mikilvægt er þó að nemendur temji sér góð vinnubrögð í þessu efni eins og í hljóðfæranáminu, þ.e. að vinna heimaverkefni vel og samviskusamlega og draga ekki fram á síðustu stundu að gera þeim skil.

Hópkennarinn tekur tónfræðabækur nemenda sinna tvisvar til þrisvar sinnum yfir veturinn og leiðréttir það sem leiðrétta þarf.  Nemendur eru þá oft beðnir um að læra tiltekið námsefni betur og að ljúka við verkefni sem þeir hafa sleppt úr.  Hópkennurum er gert að ganga eftir því að nemendur vinni vel og samviskusamlega þau verkefni sem þeir eiga að vinna.

Hljóðfærakennarar nemenda í 1. – 4. bekk afhenda nemendum sínum vinnubækur í tónfræði.  Nemendur vinna þessar verkefnabækur undir handleiðslu hljóðfærakennarans.  Sum verkefnin eru unnin í heimavinnu en önnur í hljóðfæratímunum.  Markmiðið með þessari vinnu er að styrkja þekkingu og skilning nemandans í tónfræðilegu tilliti og vinna hljóðfæra- og hópkennarar sameiginlega að því markmiði.

Námsumhverfi

Húsnæði
Í aðalnámskrá tónlistarskóla er stuttur kafli um æskilegt námsumhverfi í tónlistarskólum (bls. 57) og í viðauka eru ábendingar um húsnæði, búnað og tæki (bls. 68 – 72).  Tónmenntaskólinn stendur nokkuð vel hvað þetta varðar og má segja að miðað við núverandi nemendafjölda sé húsnæði skólans mjög gott.

Í aðalbyggingunni, Lindargötu 51 eru ellefu kennslustofur, þar af meðalstór salur í risi.  Í aðalbyggingunni er einnig skrifstofa skólans, íbúð húsvarðar, bókasafn og nótna- og hljóðritasafn auk vinnuaðstöðu kennara.

Á baklóð aðalbyggingar eru fjórar kennslustofur í tveimur húsum.  

Biðaðstaða er fyrir nemendur í öllum húsum skólans;   með lestrarefni fyrir nemendur á öllum aldri.

Bílastæði eru næg á lóð skólans og séð er til þess að lóðin sé mokuð og sandborin þegar þess gerist þörf.

Tæki og búnaður
Þó alltaf megi bæta tæki og búnað má segja að einnig hér sé Tónmenntaskólinn nokkuð vel settur.  Skólinn hefur í gegnum árin komið sér upp nótna- og bókasafni til afnota fyrir kennara.  Keypt er reglulega í safnið eftir ábendingum kennara.

Öll hljóðfæri sem kennt er á í Tónmenntaskólanum, nema píanó og blokkflautur geta nemendur fengið leigð.  

Píanó eða flyglar eru í öllum kennslustofum skólans og allar hópkennslustofur eru með hljómflutningstækjum og skjávörpum.

Góð nettenging er í öllum byggingum skólans.

Vinnuaðstaða kennara er mjög góð.  Þeir hafa aðgang að herbergjum með tölvum,  prenturum, ljósritunarvélum, Internet-tengingu og öðru því sem gagnast má til námsefnisgerðar eða annarrar vinnu.

Nemendur – fjöldi, aldur og dreifing

Eins og áður segir er Tónmenntaskóli Reykjavíkur einkum ætlaður nemendum á grunnskólaaldri.  Nemendafjöldi var lengi vel frá 450 – 500 á ári.  Á árunum eftir hrun fór nemendafjöldi niður í um 130-140 nemendur en nú, eftir að yngri deildir Tónlistarskólans í Reykjavík sameinuðust Tónmenntaskólanum, er nemendafjöldi orðinn rúmlega 170. 

Alltaf hafa einhverjir eldri nemendur sem koma annars staðar frá verið teknir beint inn í skólann án þess að fara fyrst í forskólann.  Þeir fara þá beint inn í þá bekki sem henta þeim hvað aldur varðar og fá stundum aukakennslu í tónfræði til að standa jafnt að vígi og nemendur sem hafa farið í gegnum kerfi Tónmenntaskólans frá upphafi.

Til að útskrifast úr Tónmenntaskólanum þarf nemandi að hafa lokið a.m.k. Grunnprófi á sitt hljóðfæri og lokið einhverjum af þremur efstu bekkjum skólans.

Hlutfall nemenda sem útskrifast hafa yfir 10 ára tímabil (2003 – 2013):

úr 6. bekk (almennum deildum skólans):     15%
úr 7. bekk (fyrri bekk framhaldsdeildar):     20%
úr 8. bekk (síðari bekk framhaldsdeildar):  100%

Margir nemendur sem útskrifast úr 7. bekk halda áfram námi, flestir í MÍT en einnig í öðrum skólum.  Margir fyrrverandi nemendur skólans eru atvinnu hljóðfæraleikarar í Sinfóníuhljómsveit Íslands eða þekktir tónlistarmenn.

Óvæntar uppákomur

Fyrir utan hefðbundið skólahald eru alltaf einhverjar óvenjulegar uppákomur af ýmsum toga á hverju skólaári.  Hljómsveitir fara í ferðalög,  á landsmót skólalúðrasveita sem haldið er annað hvert ár og strengjasveitir á landsmót strengjasveita.  Stundum er farið í æfingabúðir fyrir tónleika.

Atvinnumenn í tónlist hafa haldið námskeið fyrir nemendur og unnið með þeim að ýmsum verkefnum.

Stundum koma þekktir tónlistarmenn í heimsókn og halda “master-class“ fyrir lengra komna nemendur í hljóðfæraleik.  Einnig hafa erlendir hópar hljóðfæraleikara heimsótt skólann og boðið upp á skemmtilegar uppákomur.

Nemendur skólans eru líka duglegir að fara í heimsókn og halda tónleika á ýmsum stofnunum, elliheimilum og leikskólum.

Próf og námsmat

Mat í námi og kennslu er margslungið fyrirbæri.  Það felst ekki aðeins í formlegum prófum heldur fer það ekkert síður fram með óformlegum hætti.  Mat er heldur ekki framkvæmt eingöngu af kennurum eða prófdómurum heldur í rauninni af öllum þeim sem með einum eða öðrum hætti koma að starfi skólans.  Kennarar meta nemendur, nemendur meta kennara og kennsluna, foreldrar leggja mat á kennarana, kennsluna og skólann o.s.frv.  Samkvæmt þessu er því mat grundvallaratriði og snar þáttur í öllu starfi skólans og í þeirri ímynd sem skólinn hefur, inn á við og út á við.

Erfitt er að skilja alveg milli formlegs og óformlegs mats því segja má að óformlegt mat fari alltaf fram, jafnvel í formlegustu prófum eins og t.d. áfangaprófum.  Mat sem fæst með áfangaprófum og öðrum prófum, mat sem felst í vetrareinkunn, mat á vinnubókum og í vissum skilningi mat á frammistöðu nemenda á tónleikum, er formlegra en t.d. mat nemenda á kennurum, eða forráðamanna nemenda á skólanum almennt.

Almennt má segja að mat, formlegt jafnt sem óformlegt, sé nauðsynlegt fyrir aðstandendur nemenda þar sem þannig fást upplýsingar um nám barna og starfið í skólanum.  Fyrir kennara og skólayfirvöld er mat einn af grundvallarþáttum skólastarfsins.  Um námsmat eins og það snýr að nemendum segir í aðalnámskrá tónlistarskóla:

Megintilgangur námsmats er að bæta nám og kennslu.  Í því felst ekki síst að afla upplýsinga sem hjálpa nemendum við námið, örva þá og hvetja (bls. 30).

Ennfremur segir í aðalnámskrá um tilgang námsmats:

Námsmat á meðal annars að veita nemendum, foreldrum / forráðamönnum þeirra og kennurum upplýsingar um námsgengi nemenda, einkum frammistöðu, framfarir, ástundun og sókn að settum markmiðum.  Þá þarf námsmat að gefa vísbendingar um það hvort námsmarkmið hafi verið raunhæf og kennsluaðferðir við hæfi.  Enn fremur er mikilvægt að af námsmati sé unnt að draga ályktanir um það hvort skólastarfið sé í samræmi við námskrár og yfirlýst markmið skólans (bls. 30).

Námsmat í Tónmenntaskólanum leitast við að fullnægja öllum þessum þáttum aðalnámskrár.  Formlegri þættir námsmatsins felast meðal annars í áfangaprófum og innanhússprófum, einnig Miðsvetrarmati og Vormati þar sem m.a. kemur fram umsögn kennara um ástundun og árangur.  Frammistaða nemenda á tónleikum er ekki metin formlega en er eigi að síður þáttur í almennu mati á námi þeirra.  Óformlegt mat fer stöðugt fram í samskiptum nemenda og kennara sem og í öðru starfi skólans.

Aðalnámskrá tónlistarskóla mælir fyrir um þrjá megin námsáfanga í tónlistarnámi:  Grunnpróf, miðpróf og framhaldspróf.  Próf úr 4. bekk Tónmenntaskólans mun þannig samsvara grunnprófi en útskrift úr 7. bekk skólans samsvarar miðprófi.  Að frátöldum þessum áfangaprófum gefur aðalnámskrá tónlistarskólum sjálfdæmi um það hvernig þeir haga prófum og námsmati.  Þar sem próf og undirbúningur fyrir þau hafa visst gildi í sjálfu sér heldur Tónmenntaskólinn sig við próf milli áfangaprófa.  Er þar um að ræða Forpróf 1 og 2 sem nemendur taka á undan Grunnprófi t.d. í lok 2. eða 3. námsárs, og Millipróf sem tekið er milli Grunn- og Miðprófs, t.d. í 5. eða 6. bekk.  

Greinanámskrár mæla fyrir um yfirferð og skilgreina aðrar þær kröfur sem gerðar eru til kunnáttu og færni fyrir hvert hljóðfærastig.

Hljóðfæranám

Auk þess að taka þátt í tónleikum og samspili, sem hvort tveggja er metið óformlega, gangast nemendur í hljóðfæraleik undir formlegt póf (eða áfangapróf) þegar þeir hafa að mati kennara tileinkað sér þá þekkingu og færni sem krafist er í hljóðfæranámskrá viðkomandi hljóðfæris.  Það er misjafnt hversu fljótt nemendur geta tekið áfangapróf.  Almennt séð má þó segja að á neðri stigum geti nemandi tekið Forpróf I og II annað hvert ár,  en á efri stigum tekur yfirleitt lengri tíma að ná tökum á hverjum hluta.  Þetta er þó mjög misjafnt eftir hljóðfærum og einstaklingum.

Formleg hljóðfæraáfangapróf fara fram á ýmsum tímum skólaársins:  Í nóvember,  mars, apríl og maí á sérstökum prófdögum og að auki á ýmsum tímum þegar þurfa þykir og nemendur eru tilbúnir.  Í hljóðfæraleik miðast einkunnir og kröfur við það stig sem nemandi er að vinna að.

Vitnisburður fyrir áfangapróf er gefinn í tölum.  Í samræmi við aðalnámskrá er notaður 100 punkta kvarði með lágmarkseinkunn 60 auk skriflegrar umsagnar prófdómara.

Utanaðkomandi prófdómari sem Prófanefnd útvegar er ávallt fenginn til að dæma áfangapróf í Tónmenntaskólanum þegar um er að ræða Grunnpróf eða Miðpróf.  Skólinn útvegar sjálfur utanaðkomandi prófdómara fyrir Forpróf og Millipróf.  Það skal tekið fram að kostnaður vegna prófdómara sem er töluverður greiðist af skólanum.

Hóptímar

Nám í hóptímum er einnig metið á kvarðanum 60 til 100 (eða 6 til 10).  Lágmarkseinnkunina 7 þarf úr 6. bekk til að fá að halda áfram í síðasta bekk skólans, 7. bekk  (miðprófið). Yfirleitt eru notuð orð til að skilgreina námsárangur, en orðin eru miðuð við fyrrnefndan kvarða.  Metin er ástundun og árangur.

Með ástundun er annars vegar átt við heimavinnu  og hins vegar þátttöku.  Í heimavinnu er metið hvernig nemandi stundar ýmis heimaverkefni (frá og með 2. bekk) og hvernig hann vinnur vinnubók sína í tónfræðum sem kennarinn fer yfir tvisvar til þrisvar sinnum yfir veturinn. Í þátttöku er metinn áhugi, einbeiting, frumkvæði, sjálfstæði og samvinna.

Árangur er einnig tvíþættur.  Annars vegar felst hann í næmi sem samanstendur af tónheyrn, hrynskyni, blæskyni, formskyni og minni; hins vegar er metin færni í hreyfinguhljóðfæraleik (á skólahljóðfæri, flautu og önnur hljóðfæri) og tjáningu (söng og orðræðu).  Fylgst er náið með skólasókn en ekki er gefin sérstök einkunn fyrir hana.

Nánari skilgreining er til á öllum þessum þáttum óski nemandi eða forráðamenn hans að kynna sér matið nánar.    

Tónleikar og samspil

Á hverjum vetri eru haldnir um 30 tónleikar á vegum Tónmenntaskólans.  Þó þessir viðburðir séu ekki metnir formlega má þarna heyra og sjá og þannig meta, vinnu og færni einstakra nemenda, sem og framfarir þeirra miðað við fyrri tónleika.  Stefnt er að því að hver nemandi komi fram á tónleikum minnst tvisvar á vetri.

Sama gildir um samspilstónleika;  þar má meta árangur í starfi hljómsveita og annarra samspilshópa.

Skipulagðir tónleikar á vegum skólans eru sem hér segir:

 • Hausttónleikar sem haldnir eru yfir tvær helgar í nóvember.  Þar koma fram allir nemendur skólans sem læra á hljóðfæri.
 • Jólatónleikar í desember.
 • Forskólatónleikar sem haldnir eru í mars fyrir nemendur Forskóla II.   Á þessum tónleikum flytja nemendur yfirleitt tónverk sem þeir hafa sjálfir samið.  Auk þess eru öll hljóðfæri sem kennt er á í skólanum kynnt af eldri nemendum.  Það er gert í þeim tilgangi að auðvelda nemendum val á hljóðfæri til að læra á að forskóla loknum.
 • Þematónleikar.  Fyrir þessa tónleika er valið ákveðið stef eða þema sem allir sameinast um.  (Dæmi:  Tónlist eftir Mozart, íslensk tónlist eða eigin verk.)
 • Blandaðir tónleikar dreifast á mánuðina mars og apríl.  Þar er ýmsum hljóðfærum blandað á efnisskrá til að tryggja fjölbreytni.  Allir nemendur skólans koma fram á þessum tónleikum.
 • Samspil nemenda fer fram um það bil einu sinni í mánuði á sal skólans. Þetta samspil er eingöngu ætlað nemendum og kennurum.
 • Hljómsveitartónleikar: Strengjasveitartónleikar eru haldnir í samvinnu við Tónskóla Sigursveins a.m.k. tvisvar á ári.    Blásarasveitirnar eru starfræktar í samvinnu við Skólahljómsveitir borgarinnar og nemendur Tónmenntaskólans taka þátt í öllum þeirra viðburðum.
 • Opinberir vortónleikar skólans eru haldnir í byrjun maí utan skólans. Þar koma fram yngri og eldri nemendur í einleik og samspili og er fjölbreytni höfð að leiðarljósi. 

Vormat

Vormat ásamt öðrum upplýsingum er sent forráðamönnum um mánaðamótin maí / júní.  Árangur á stigsprófi segir aðeins óbeint til um atriði eins og ástundun og árangur.   

Skólaslit eru í lok maí að lokinni kennslu, prófum og starfsdögum kennara.  Skólaslitin eru einungis ætluð nemendum sem útskrifast og aðstandendum þeirra.  Þetta á við nemendur sem útskrifast úr framhaldsdeildum, þ.e. 6. bekk og ofar og lokið hafa Grunnprófi á sitt hljóðfæri.

Samvinna við foreldra

Tónmenntaskólinn óskar samstarfs við foreldra nemenda, svo að skólanum takist sem best að ná þeim markmiðum sem hann keppir að í starfi sínu.  Til að samvinna við foreldra verði sem best gerir skólinn eftirfarandi ráðstafanir:

Foreldrafélag Tónmenntaskólans var stofnað árið 2018 en það er mikilvægur hluti af starfi skólans sem og nauðsynleg tenging milli skólans og heimila. Það er vettangur fyrir foreldra til að hittast, koma sínum skoðunum á framfæri og auðga skólastarfið á ýmsan máta fyrir nemendur. Aðalfundur félagsins er haldin að hausti. Stjórn félagsins er skipuð 5 foreldrum og er kjörin til eins árs í senn. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum að loknum aðalfundi og velur í embætti: Formanns, gjaldkera,  ritara og tveir meðstjórnendur.

Lög foreldrafélagsins
Netfang félagsins er:
foreldrafelag@tonmenntaskoli.is

Facebook síða foreldrafélagsins 
Þar má finna allar nýjustu upplýsingar og umræður.

Tvö til þrjú frétta- og upplýsingabréf á ári eru send í tölvupósti til foreldra.  Þar er að finna ýmsar upplýsingar og dagsetningar sem eru breytilegar frá ári til árs og eiga því ekki heima í skólanámskrá.  Hér er t.d. átt við dagsetningar varðandi skólaárið, frídaga, upplýsingar um tónleika, viðtalstíma kennara, bréf vegna heimavinnu nemenda og fleira.  Auk þess eru foreldrum sendur póstur um ýmis málefni sem varðar skólann svo og vegna tónleika, innritunar að vori og um upphaf skólaársins að hausti.

Foreldrar geta pantað viðtalstíma við hópkennara Tónmenntaskólans og eru foredlrar hvattir til að  notfæra sér það, sérstaklega ef þeim finnst einhver vandamál steðja að og námið ekki ganga nógu vel eða ef vart verður við námsleiða.  Ef brugðist er nógu hratt við, má oft leysa slík mál áður en þau verða að raunverulegum vandamálum; en að sjálfsögðu geta foreldrar haft samband við hópkennara til að fá fréttir af námi barnsins og hvernig því vegnar.  Ef foreldrar vilja hafa samband við hljóðfærakennara eru þeir beðnir um að senda þeim tölvupóst eða hafa samband í gegnum skrifstofu skólans.

Viðtalstími skólastjóra fer eftir samkomulagi.

Foreldrum er boðið að koma í kennslustundir hjá hóp- og hljóðfærakennurum.  Í forskóla er gert ráð fyrir að foreldrar komi í nóvember, og er foreldrum þriggja til fjögurra barna gjarnan boðið að koma í einu.  Þeir fylgjast með í tímunum, taka jafnvel sjálfir þátt og hafa tíma til að ræða við kennarann að kennslustund lokinni.  Foreldraheimsóknir í hóptíma 1. og 2. bekkjar eiga sér stað í janúar eða febrúar.

Foreldrum nemenda er einnig boðið að heimsækja hljóðfærakennslustundir barna sinna, a.m.k. tvisvar á ári.  Líkt og í hópkennslunni er það kennarinn sem hefur frumkvæðið og gefur hann foreldrum upp hvenær heimsóknartími getur orðið.

Burtséð frá þessum fáu skiptum sem skólinn óskar eftir heimsóknum frá foreldri er foreldrum að sjálfsögðu heimilt að sýna frumkvæði og heimsækja kennslustundir yfir veturinní samvinnu við viðkomandi kennara.

Foreldrum er gefinn kostur á að koma á tilteknar “opnar“ æfingar strengja- og blásarasveita.  Á þessum æfingum má kynnast því hvernig unnið er með stóra hljóðfærahópa.  Þetta er tilkynnt sérstaklega með tölvupósti.

Heimavinna er kynnt með sérstökum bréflegum upplýsingum frá hljóðfærakennurum til foreldra.  Þar er fjallað um það hvernig foreldrar geta stutt við heimaæfingar á hljóðfærið.  Mikilvægt er að foreldrar lesi þessi bréf vel og nýti sér þær upplýsingar sem þar er að finna.  Hljóðfærakennarar nota einnig æfingardagbækur sem eru afhentar nemendum.  Þar eru skráð verkefni sem verið er að vinna að í hverri viku, æfingatími o.fl.  Skilaboð til foreldra eru einnig skráð í þessa bók.

Að lokum skal ítrekað að beint samband kennara og foreldra er æskilegt og ekki bara þegar eitthvað fer úrskeiðis eða einhverju er ábótavant.

Sérstaða Tónmenntaskólans

 

Sérstaða Tónmenntaskólans er nokkur meðal tónlistarskóla á Íslandi.  Í því sambandi má nefna:

 • Nemandi sem hefur nám í Tónmenntaskóla Reykjavíkur þarf að eiga heima Reykjavík og hafa náð sex ára aldri það ár sem nám hefst. Undantekning eru hljóðfæraforskólar fyrir 4 – 5 ára börn.
 • Tónmenntaskólinn einskorðar sig við kennslu barna á grunnskólaaldri (um 6 til 16 ára).
 • Nemendum Tónmenntaskólans er skipt í bekki nokkurn veginn eftir aldri.
 • Tónfræðagreinar eru kenndar í bekkjum í fámennum hópum og er skylda fyrir alla nemendur í 1. – 7. bekk skólans að sækja þessa hóptíma.

 

 

Skipulagsskrá Tónmenntaskóla Reykjavíkur

1. gr.

Skólinn var stofnaður haustið 1952 af Dr. Heinz Edelstein og hlaut þá nafnið Barnamúsíkskólinn.  Hann naut styrkja frá Reykjavíkurborg frá upphafi.  Síðar hlaut hann styrki skv. lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla frá 23. maí 1975 með síðari breytingum á þeim lögum, m.a. frá 14. júlí 1985.
Breytt var um nafn á skólanum árið 1977 og heitir hann nú Tónmenntaskóli Reykjavíkur og er hann til heimilis að Lindargötu 51.

2. gr.

Tónmenntaskóli Reykjavíkur er sjálfseignarstofnun.  Heimili og varnarþing er í Reykjavík.

 3. gr.

Skólinn er fjármagnaður með styrkjum frá Reykjavíkurborg í samræmi við þjónustusamning sem skólinn gerir við Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar og nær sá styrkur yfir kennslukostnað skólans.  Annar rekstrarkostnaður skólans fjármagnast af skólagjöldum. Skólastjóri ber ábyrgð á fjármálum skólans.  Hann skal gera fjárhagsáætlun á hverju ári og vera tilbúinn að skila inn til Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar sé eftir því kallað.

Skólastjóri skal fyrir 1. júlí ár hvert gera kennsluáætlun næsta skólaárs (skóladagatal).  Skal áætlun þessi lögð fyrir skólanefnd til samþykkis.

 4.gr.

Markmið skólans er að veita almenna tónlistarfræðslu og stuðla þar með að eflingu tónlistarlífs í Reykjavík.
Þessum markmiðum hyggst skólinn ná með því:

 • að annast kennslu á sem flest hljóðfæri skv. námskrá útg. af Mennta– og menningarmálaráðuneytinu
 • að annast kennslu í tónfræðagreinum við hæfi, aldri og þroska nemenda og skv.  námskrá útg. af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu
 • að búa nemendum fjölbreytt skilyrði til að þroska tónlistarhæfileika sína og sköpunargáfu
 • að leggja áherslu á félagslegt gildi tónlistariðkunar með þátttöku sem flestra nemenda í samspili (kammermúsík) og ýmiss konar hljómsveitarstarfi
 • að búa nemendur undir áframhaldandi nám í tónlist

5. gr.

Nemendur í skólanum skulu að meirihluta til vera á grunnskólaaldri.  Þó verði hægt að starfrækja tónlistarnámskeið fyrir börn á aldrinum 3 – 5 ára og einnig tónlistarkennslu eldri nemenda í einstaka tilfellum.

6. gr.

Skólinn semur skólanámskrá þar sem fjallað er um skilgreind hlutverk og markmið skólans, námskipan, námsefni og kennsluáætlanir, námskröfur og heimavinnu, próf og námsmat, samvinnu við foreldra, ýmsar hagnýtar upplýsingar og skólareglur.
Skólanámskrá er endurskoðuð á 3 – 4 ára fresti til að endurspegla og uppfæra breytingar í skipulagi, kennslutilhögun og fleiri þáttum.

7. gr.

Starfstími skólans er frá ágústlokum til lok maímánaðar, í samræmi við kjarasamninga.  Leyfi á starfstímanum falla að mestu saman við leyfi í grunnskólum borgarinnar.

8. gr.

Ekki er krafist inntökuprófs í skólann að öðru jöfnu en skólinn áskilur sér rétt til að setja á inntökupróf ef ytri skilyrði kalla á það.
Skólinn áskilur sér rétt til að víkja nemanda úr skólanum ef kennari og / eða skólastjóri telja hann ekki sýna þá hæfni eða ástundun sem þeir telja nauðsynlega til árangurs eða ef skólareglur hafa verið ítrekað brotnar.

9. gr.

Nemendur skulu taka þátt í tónleikum og á músíkfundum skólans eftir tilmælum skólastjóra og / eða kennara.  Nemendur skulu ekki koma fram opinberlega utan skólans nema með samþykki kennara / skólastjóra.

10. gr.

Skólanefnd skipa þrír menn og einn til vara.  Hún skiptir með sér verkum.  Skólastjóri skal sitja fundi skólanefndar.  Heimilt er að kennarar skólans tilnefni einn fulltrúa úr hópi fastráðinna kennara til að sitja skólanefndarfundi með málfrelsi og tillögurétt og skal hann bundinn sömu trúnaðarskyldum og stjórnarmenn.  Sama gildir um fulltrúa foreldra og fulltrúa frá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar.

11.gr.

Skólanefnd fer með yfirstjórn skólans.  Skólanefnd ræður skólastjóra að undangenginni auglýsingu um starfið.
Skólastjóri ræður kennara og aðra starfsmenn í samráði við skólanefnd.

12. gr.

Skólastjóri fer með daglega stjórnun í umboði skólanefndar.  Hann ber ábyrgð á að skólastarfið sé í samræmi við skipulagsskrá þessa svo og í samræmi við skólanámskrá skólans.
Skólastjóri kemur fram fyrir hönd skólans gagnvart starfsmönnum, nemendum og foreldrum þeirra svo og aðilum utan skólans.

Skólareglur

 1. Nemendum ber að mæta stundvíslega í kennslustundir sínar, hóptíma, hljóðfæratíma sem og hljómsveitartíma.  Fjarvistir og ástæður fyrir þeim skulu tilkynntar á skrifstofu skólans.
  Röksemdir fyrir stundvísi og góðri tímasókn eru þær, að nemandi sem mætir illa getur misst samhengið í náminu, á erfiðara með að fylgjast með og gæti að síðustu gefist upp í náminu.  Einnig kemur stopul tímasókn í veg fyrir eðlilegar framfarir í hljóðfæraleik og um leið dvínar áhuginn.  Þetta er margreyndur sannleikur.
  Skólinn gefur ekki leyfi úr kennslustundum ef ástæður sem gefnar eru upp þykja veigalitlar.  Ef óskað er leyfis úr kennslustundum skal biðja um það með góðum fyrirvara  og eru þá ástæður metnar af kennara hverju sinni.
  Ef tímasókn er mjög slæm og fjarvistir samtals orðnar um eða yfir 30% miðað við tiltekið tímabil (t.d. önn) áskilur skólinn sér rétt til að láta nemandann hætta námi að undangenginni viðvörun.
 2. Ef kennari veikist og tími fellur niður er alltaf reynt að ná sambandi við  heimili nemenda (eða vinnustað foreldra) til að koma í veg fyrir óþarfa ferð nemandans.  Í flestum tilfellum tekst þetta en þó getur orðið misbrestur á því að það náist í foreldra (eða börn) í síma.
  Ef kennari er veikur í tvo tíma eða lengur er reynt að útvega forfallakennara.  Á það skal hins vegar bent að kennarar eins og aðrir launþegar hafa sinn veikindarétt.
  Það skal skýrt tekið fram að skólinn endurgreiðir ekki hlutfallslega af skólagjaldi vegna kennslustunda sem falla niður vegna veikinda kennara.  Skólanum er heldur ekki skylt að bæta upp tímatap vegna veikinda nemanda.
 3. Foreldrar sem hafa á leigu hljóðfæri hjá Tónmenntaskólanum vegna barna sinna gera leigusamning við skólann.  Athygli er vakin á því að hljóðfærin eru ekki tryggð af skólans hálfu. (Sjá nánar í hljóðfæraleigusamningi.)  Aðstandendum ber að sjá til þess að nemendur fari vel með hljóðfærið heima og láti það alltaf í kassann þegar æfingum er lokið.  Geymið hljóðfærið þar sem aðrir hafa ekki aðgang að því.
  Þegar nemandi hefur lært í nokkur ár á hljóðfæri (t.d. 3 – 4 ár) og sýnt er að hann sé líklegur til að halda sínu striki er eðlilegt að hann eignist eigið hljóðfæri.  Aðrir nemendur geta þá notið leiguhljóðfærisins.  Þetta er þó samkomulagsatriði.
 4. Brýnið fyrir börnum ykkar að sýna fyllstu aðgát vegna bílaumferðar.
  Í Tónmenntaskólanum er kennt í þremur aðskildum húsum:  Lindargötu 51 (aðalhúsinu) og í tveimur bakhúsum á lóð skólans.  Oft þurfa nemendur að skreppa milli húsa, t.d. til að fara úr hóptíma í hljóðfæratíma.  
 5. Sú venja ríkir að nemendur fara úr skóm við inngang kennsluhúsa.  (Niðri í kjallara í aðalhúsinu.)
  Yfirhafnir skulu hengdar á snaga.  Gott er að merkja yfirhafnir og skófatnað.  Það skal tekið fram að skólinn er ekki tryggður fyrir því ef fatnaði eða skóm er stolið.
  Brýnið fyrir börnum að geyma aldrei verðmæti s.s. peninga eða síma í vösum yfirhafna.  Skólinn heldur til haga óskilamunum (húfum, vettlingum og fleiru) svo og bókum og nótum sem nemendur hafa gleymt.  Skrifstofan gefur upplýsingar um óskilamuni.
 6. Í öllum kennsluhúsum Tónmenntaskólans er biðaðstaða fyrir nemendur; í aðalhúsinu er sérstök biðstofa.
  Á biðstofum er lestrarefni til að skoða og lesa fyrir nemendur á öllum aldri.  Ætlast er til að nemendur gangi vel um biðaðstöðuna og skili bókum aftur í hillu að lokinni notkun.
 7. Ætli nemandi að koma fram utan skólans (t.d. á skólaskemmtunum) ætti hann að láta kennara sinn vita með góðum fyrirvara.
  Þessi regla skal í heiðri höfð, ekki vegna þess að Tónmenntaskólinn vilji koma í veg fyrir spilamennsku nemandans, þvert á móti, heldur eingöngu til þess að kennarinn geti fylgst með ferli nemanda síns og tryggt að það sem hann spilar annars staðar sé vel æft og frambærilegt.
 8. Komið hafa upp hegðunarvandkvæði með einstaka nemendur, aðallega í hóptímum og hljómsveitartímum.
  Skólinn áskilur sér rétt til að taka á slíkum málum í góðri samvinnu við foreldra.
 9. Þegar óveður geisar í borginni (stórhríð, mikið hvassviðri) er oft hringt og spurt hvort kennsla falli niður. Tónmenntaskólinn heldur sig við sömu reglur og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hefur sett sér;  að skólahald falli ekki niður, en foreldrum sé í sjálfsvald sett hvort þeir sendi börn sín í skólann eða ekki.
 10. Foreldrar sem aka börnum sínum í skólann eru beðnir að aka varlega um lóð skólans.
  Ábendingar um akstur eru gefnar með umferðarmerkjum (örvum á malbiki og skiltum).  Akið hægt og varlega.
  Það eru eindregin tilmæli að bílar sem bíða séu ekki í lausagangi svo að mengun berist ekki inn í kennslustofur.  Einnig er mælst til þess að bílflautan sé ekki notuð.
 11. Tónmenntaskóli Reykjavíkur er reyklaus vinnustaður. 
  Algert reykingabann ríkir í öllum húsakynnum skólans að meðtöldum vistarverum kennara og húsvarðar svo og á skólalóð.
 12. Notkun GSM síma í skólastofum er óheimiln nema hún tengist kennslunni beint.

Viðauki

Á þessari síðu má sjá dæmi um umsókn fyrir skólapróf, prófskírteini frá Tónmenntaskólanum og vitnisburðarblað fyrir miðsvetrarmat (sem sent er út í janúar).  Til glöggvunar er miðsvetrarmatið fyllt út með tilbúnum upplýsingum.  Vormat er á sama formi og er sent út á vorin eftir að skóla lýkur.  Þessu til viðbótar eru sýnd dæmi um þau eyðublöð sem notuð eru á vegum Prófanefndar menntamálaráðuneytisins, fyrir Grunnpróf í hljóðfæraleik og Miðpróf  í hljóðfæraleik.  Ef nemendur sem taka Grunnpróf í hljóðfæraleik hafa einnig lokið Grunnprófi í tónfræði fá þeir Áfangaprófsskírteini fyrir Grunnpróf.  Ef nemendur sem taka Miðpróf í hljóðfæraleik hafa einnig lokið Miðprófi í tónfræði þá fá þeir Áfangaprófskírteini fyrir Miðpróf.

Umsókn fyrir skólapróf  í hljóðfæraleik er fyllt út af kennara áður en að prófi kemur.  Á umsókninni er tilgreind tegund prófs (Forpróf  I eða Forpróf II eða Millipróf).  

Prófdómari skrifar á umsóknarblaðið umsögn í orðum um hvern prófþátt telji hann þörf á því.  Einkunn er skráð bæði í tölum og bókstöfum:  ÁG = ágætt, MG = mjög gott, GO = gott, AL = allgott, VI = viðunandi.  (Sjá nánar í skýringum á eyðublaðinu neðst).  Á prófskírteininu, sem afhent er í fyrsta hljóðfæratíma eftir próf eða fljótlega eftir það, kemur vitnisburður hins vegar aðeins fram í orðum auk upplýsinga um hvaða stig eða próf var tekið og hvaða verk voru leikin (sjá dæmi).

Nemandi fær umsóknarblaðið afhent  með umsögnum prófdómara að prófi loknu eða fljótlega eftir það, í síðasta lagi þegar hann fær prófskírteinið afhent.  Kennari fer yfir umsagnir prófdómara með nemandanum.

Um matsaðferðir í skólaprófum
Skólapróf í tónfræðum
eru yfirleitt tekin í mars eða í síðasta lagi apríl.  Forpróf 1 og Forpróf 2 eru í einum hluta.   Grunnpróf og Millipróf 1 og Millipróf 2 eru tekin í tveimur hlutum, annars vegar skriflegum og hins vegar hluta byggðum á hlustun.  Grunnpróf (4. bekkur) og Miðpróf (7. bekkur) í tónfræði eru tekin skv. fyrirmælum og stöðlun Prófanefndar tónlistaraskóla sem gilda fyrir alla tónlistarskóla í landinu.  Skólapróf Tónmenntaskólans í tónfræðum eru stöðluð.  Einkunnakvarðinn er hinn sami og fyrir hljóðfærastigspróf, 60 – 100 einingar (6 – 10).  Þegar kennari hefur farið yfir prófin fá nemendur að vita einkunnir í tölum en á prófskírteininu kemur einkunnin aðeins fram í orðum.  Einkunnin í tölustöfum kemur hinsvegar fram í Miðsvetrarmatinu og / eða í Vormatinu.  Nemendur fá prófskírteini afhent í næsta eða þarnæsta tíma eftir að próf er tekið.

Hafi nemandi verið veikur þegar próf í tónfræði fór fram getur hann tekið sjúkrapróf viku eða tveimur vikum síðar.  Nái nemandi ekki prófi getur hann endurtekið prófið næsta haust og kemur þetta fram á vitnisburðarblaði nemandans.  Þetta á við um 1., 2. og  4. stig í tónfræði.  Ef nemandi nær ekki forstigsprófinu í tónfræði í 2. bekk endurtekur hann prófið í næsta eða þarnæsta tíma.  Tæplega kemur til þess að nemandi nái ekki skólaprófi í hljóðfæraleik vegna þess að hljóðfærakennari sendir ekki nemanda í skólapróf nema nemandinn sé nokkuð öruggur um að ná því þokkalega vel.

Hvað varðar áfangapróf í hljóðfæraleik og tónfræði (þ.e. Grunnpróf og Miðpróf) sem haldin eru og dæmd á vegum Prófanefndar tónlistarskólanna þá eru tónfræðaprófin endurtekin við hentugt tækifæri hafi nemandi ekki náð prófinu, t.d. hálfu ári síðar eða í síðasta lagi ári síðar, en af sömu ástæðum og áður eru nefndar kemur það tæplega fyrir að nemendur nái ekki þokkalegu prófi í hljóðfæraleik, hljóðfærakennari lætur nemanda sem stendur tæpt einfaldlega ekki taka próf heldur bíður með það þangað til nemandinn er tilbúinn að mati kennara.

Eins og sést á miðsvetrarmatsblaðinu og vormatsblaðinu er gefið fyrir ástundun ogárangur bæði í hljóðfæraleik og hóptímum. Ástundun segir til um heimavinnu og þátttöku en árangur metur næmi og hljóðfæraleik (eða það sem flokkast undir ýmiss konar næmi í hóptímum).  Skulu þessi atriði nú skýrð nánar eins og þau snúa að hljóðfæranáminu og námi í hóptímum.  

Einkunn fyrir ástundun byggir annars vegar á heimavinnu nemanda, þ.e. hvernig hann stundar heimaæfingar á hljóðfærið og vinnur tónfræðaverkefnin fyrir hóptímana.  Á hinn bóginn byggir einkunnin á þátttöku, þ.e., mati kennara á eftirfarandi þáttum:

 • áhuga – hve áhugasamur og vakandi nemandinn er í tímum
 • einbeitingu – hve einbeittur nemandinn er og hversu mikið úthald hann hefur við lausn verkefna
 • frumkvæði – hversu framtakssamur og virkur nemandinn er, einnig við það að koma á framfæri eigin hugmyndum
 • sjálfstæði – hve sjálfstæður nemandinn er í vinnubrögðum
 • samvinnu – hvernig nemandi vinnur með kennara og með öðrum í hópi.

Mat kennara á þátttöku er fyrst og fremst huglægt en heimavinnu og árangur má meta með hlutlægari hætti, t.d. má meta árangur (næmi og hljóðfæraleik) á formlegan hátt, svo sem með prófum.

Einkunn fyrir árangur er tvíþætt:  Gefið er fyrir næmi og hljóðfæraleik hvað viðkemur hljóðfæranáminu og fyrir næmi í sambandi við ýmis tónlistaratriði hvað viðvíkur náminu í hóptímunum.  Næmi felur því í sér mat á eftirfarandi þáttum:

Í hóptímum eru eftirfarandi þættir nefndir:

 • tónheyrn – hversu greinilega nemandi skynjar tónhæðir, tónbil og hljóma
 • hrynskyn – hversu greinilega nemandi skynjar hrynmynstur og mismunandi lengdargildi nótna og þagna
 • blæskyn – hversu vel nemandi getur aðgreint mismunandi blæ radda og hljóðfæra í einleik og samleik og eins hvernig honum tekst að laða fram mismunandi blæbrigði hljóðfæraleik
 • formskyn – hversu skýrt nemandi skynjar það sem er eins, líkt og ólíkt í formgerð tónlistar
 • minni – hversu nákvæmlega nemandi getur endurtekið laglínu- eða hrynmynstur sem leikin eru fyrir hann og hvernig honum gengur að leika verkefni eftir minni.

Í hljóðfæraleik eru eftirfarandi þættir metnir:

 • Sömu þættir og í hóptímum, þ.e. tónheyrn  / hlustun, hrynskyn, formskyn og minni
 • líkamsstaða / handstaða

Auk þess:

 • tónmyndun / ásláttur
 • nótnalestur
 • leikni
 • hlustun
 • annað, t.d. öndun við leik á blásturshljóðfæri eða bogatækni við leik á strengjahljóðfæri.

Í hóptímum er auk næmis í ýmsum tónlistarlegum þáttum lagt mat á eftirfarandi:

 • hreyfingu – t.d. í látbragðs- eða hrynleikjum í forskóla og eins hreyfingu eftir tónlist í  frjálsu eða bundnu formi
 • hljóðfæraleik – t.d. blokkflautuleik í forskóla, leik á skólahljóðfæri og á eigið hljóðfæri í hóptímum
 • tjáningu – t.d. söng og munnlega tjáningu (orðræðu).

Fyrir utan mat á ástundun og árangri er tekið mið af skólasókn nemanda.  Skólasókn er byggð á mætingaskrá kennara.  Ekki er gefin einkunn fyrir skólasókn, en ef fjarvistir fara yfir  vissan fjölda kennslustunda kemur athugasemd á vitnisburðarblaðið.  Einnig er getið um stundvísi.  Léleg skólasókn hefur að sjálfsögðu óhjákvæmilega áhrif á einkunnir í ástundun og árangri alveg eins og góð skólasókn mundi gera. 

Add Your Heading Text Here