Fiðlan er minnsta hljóðfæri strengjafjölskyldunnar. Fyrstu fiðlurnar voru smíðaðar snemma á 16. öld svo í dag hefur verið spilað á fiðlur í 500 ár. Fiðlan er gerð úr viði og hefur fjóra strengi. Spilað er á fiðluna með boga úr viði og hrosshárum en einnig er hægt að plokka í strengina með fingrunum. Hefðbundið fiðlunám hefst oft um sjö ára aldur en hægt er að hefja nám í fiðluforskóla frá fimm ára aldri. Fiðlur eru til í ýmsum stærðum en hægt er að leigja fiðlu hjá skólanum sem hentar stærð nemandans. Fiðlunemendur taka þátt í hljómsveitastarfi og ýmiss konar samleik.