Svo virðist sem aðrar reglur gildi um tónlistarnám en aðrar tómstundir barna þar sem samkvæmt nýrri reglugerð heilbrigðismálaráðherra, sem tekur gildi á morgun, mega hópar barna blandast saman alls staðar nema í tónlistarskólum! Þetta þýðir að börn mega vera saman í hópum í ballett og á íþróttaæfingum, úti sem inni, en ekki í tónfræði hjá okkur, þrátt fyrir að hér í tónlistarskólanum getum við tryggt tvo metra á milli nemenda, kennum í mjög fámennum hópum og gætum viðhaft grímuskyldu án mikilla vandkvæða. Rökin sem færð eru fyrir þessu misræmi eru þau að hér sitja nemendur inni í minni rýmum en t.d. í fimleikasal!
Tónmenntaskólinn má því aðeins, enn sem komið er, sinna einstaklingskennslu, tónfræði verður því enn í gegnum netið og engin samspil á dagskrá. Grímuskylda er einnig sú sama og áður – þ.e. hér eiga allir að vera með grímur áfram bæði nemendur (fæddir fyrir 2011) og kennarar, samkvæmt reglugerðinni. Við vonum að ráðherra sjái að sér og endurskoði málið á næstu dögum. Þangað til hlýðum við þeim reglum sem okkur eru settar.