Stefna og viðbragðsáætlun Tónmenntaskóla Reykjavíkur gegn einelti, ofbeldi, kynferðislegri og kynbundinni áreitni.

STEFNA

Það er stefna Tónmenntaskóla Reykjavíkur að einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og annað ofbeldi verður ekki liðið í skólanum. Öll hegðun af þessu tagi er alvarleg og getur haft margvíslegar og afdrifaríkar afleiðingar fyrir þá sem verða fyrir því.

Starfsmenn og nemendur skulu ávallt sýna hver öðrum kurteisi og virðingu í öllum samskiptum.

Komi upp eineltismál skal brugðist strax við.

Í HVERJU FELST EINELTI, KYNBUNDIN ÁREITNI, KYNFERÐISLEG ÁREITNI OG OFBELDI?

Samkvæmt 3. grein reglugerðar 1009/2015 um einelti, ofbeldi, kynferðislega og kynbundna áreitni. 

Einelti er síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.  Til að hægt sé að tala um einelti þarf það að vera endurtekið og sá sem fyrir eineltinu verður á erfitt með að verja sig.

Ofbeldi er hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamslegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis. 

Kynferðisleg áreitni er hvers kyns hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg. 

Kynbundin áreitni er hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi. 

FORVARNIR

Hlutverk skólastjórnenda

Til að fyrirbyggja einelti, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni og ofbeldi eiga skólastjórnendur Tónmenntaskólans að ganga á undan með góðu fordæmi. Í því felst meðal annars að: 

 • stuðla að góðum starfsanda 
 • kynna sér og miðla stefnu og viðbragðsáætlun þessari 
 • gefa skýrt til kynna að þeir muni ekki líða þess konar háttsemi 
 • fylgjast með samskiptum starfsmanna 
 • sjá til þess að starfsskyldur og markmið í starfi séu skýrar 
 • tryggja gott upplýsingaflæði 
 • sjá til þess að starfsfólk fái hvatningu 
 • Kanna reglulega viðhorf starfsmanna til stjórnunar, líðunar í starfi og jafnréttis- og eineltismála. Einnig hvort þeir hafi orðið fyrir einelti.
 • taka á ágreiningsmálum og togstreitu, sem oft er undanfari eineltis 


Hlutverk starfsmanna 

 • stuðla að góðum starfsanda sem byggir á trausti og samvinnu 
 • þekkja og virða stefnu og viðbragðsáætlun þessa 
 • vera meðvituð um hegðun sína 
 • benda á það sem betur má fara á vinnustaðnum 
 • stuðla að því að tekið sé á ágreiningsmálum 
 • standa með öðrum sem verða fyrir aðkasti

VIÐBRAGSÁÆTLUN

Tilkynning

Telji starfsmaður /nemandi sig verða fyrir ótilhlýðilegri háttsemi af hendi samstarfsmanns/-a er mikilvægt að hann láti meintan geranda eða gerendur vita að honum mislíki framkoma hans/þeirra í sinn garð og óski eftir að slík hegðun endurtaki sig ekki.

Ef sá sem telur sig hafa orðið fyrir einelti, ofbeldi, kynferðislegri eða kynbundinni áreitni í skólanum eða hafa rökstuddan grun eða vitneskju um slíka hegðun treystir sér ekki til að koma slíkri ósk á framfæri við meintan geranda /-ur skal hann snúa sér til skólastjóra eða aðstoðarskólastjóra og uppýsa þá um stöðu mála. Að því loknu hefst málsmeðferð og er þar lagt mat á stöðu málsins. Til þess að auðvelda vinnslu máls er starfsfólk/nemendur hvatt/ir til þess að skrá hjá sér atvik og hegðun sem um ræðir. Skrá ætti tíma og dagsetningar, nöfn þeirra sem voru viðstaddir ef við á og aðstæður þegar atvik átti eða áttu sér stað. Tilkynning 

um einelti, ofbeldi, kynferðislega eða kynbundna áreitni getur verið munnleg eða skrifleg. Við meðferð tilkynninga sem berast er fyllsta trúnaðar gætt. 

Hvernig á skólastjóri að bregðast við tilkynningu um áreitni og einelti? 

Skólastjóra sem fær tilkynningu um einelti, ofbeldi, kynferðislega eða kynbunda áreitni, ber að kanna málið og bregðast við. Ef skólastjóri getur af einhverjum ástæðum ekki tekið á málinu skal hann vísa því til aðstoðarskólastjóra. Starfsmaður/ nemandi sem verður fyrir óviðeigandi hegðun af þessu tagi getur einnig kosið að snúa sér beint til aðstoðarskólastjóra eða trúnaðarmanns kennara. Fyrstu viðbrögð þess aðila eiga að felast í því að meta þörf starfsmanns fyrir stuðning og í framhaldi af því er tekin ákvörðun um næstu skref. Starfsfólk er beðið að virða trúnað og persónuvernd og ræða málið eingöngu við þá sem hafa með það að gera meðan á vinnslu þess stendur. 

MÁLSMEÐFERÐ

Þegar tilkynnt er um einelti, ofbeldi, kynferðislega eða kynbundna áreitni eru tvær leiðir færar. Sá aðili sem fer með úrlausn málsins ákveður í samráði við þolandann hvert framhaldið verður. Annars vegar er hægt að grípa til óformlegra aðgerða, hins vegar er hægt að grípa til formlegra aðgerða. 

I. Óformlegar aðgerðir 

Mál er rannsakað með óformlegum hætti ef sá aðili sem verður fyrir einelti, ofbeldi eða áreitni kýs svo. Ef mögulegt er skal byrja á því að reyna að leysa málið með óformlegum hætti. 

 • Gerð er athugun á málsatvikum sem felur m.a. í sér að leitað er upplýsinga hjá meintum þolanda og meintum geranda. Rætt er við báða aðila hvorn í sínu lagi. 
 • Viðtakandi tilkynningar metur þörf málsaðila fyrir bráðan stuðning. Slíkur stuðningur getur verið í formi stuðningsviðtala á vinnustaðnum, breytinga á vinnuaðstæðum eða sálfræðilegrar ráðgjafar. 
 • Aðrir innan vinnustaðarins eru ekki upplýstir um málið. 
 • Báðir aðilar máls geta óskað eftir að trúnaðarmaður sé viðstaddur viðtöl. 
 • Lagðar eru fram tillögur til lausnar á vandanum. 
 • Skólastjóri, aðstoðarskólastjóri eða trúnaðarmaður sér til þess að styðja við bakið á starfsmanninum/nemandanum og efla öryggi hans og fylgir því eftir að aðstæður breytist til batnaðar. 

II. Mál rannsakað með formlegum hætti 

Mál er rannsakað með formlegum hætti ef þolandi kýs svo og einnig ef tilraunir til að leysa það með óformlegum aðgerðum hafa reynst árangurslausar. Þá skal starfsmaður leggja fram skriflega kvörtun við skólastjóra eða aðstoðarskólastjóra, ásamt gögnum sem starfsmaður telur styðja trúverðugleika hennar. Þar skulu koma fram málsatvik og lýsing á meintri hegðun. Einnig er mikilvægt að í kvörtuninni séu tilgreindir aðrir starfsmenn sem mögulega hafa orðið vitni að hinni meintu hegðun og gætu varpað frekara ljósi á málið.  Æskilegt er að kvörtun sé lögð fram innan þriggja mánaða frá því að viðkomandi telur að óæskileg framkoma samstarfsmanns/-a hafi átt sér stað. Kvörtunin mun svo fara í eftirfarandi formlegt ferli:

 • Fara þarf yfir málið í ró og næði með starfsmanninum sem tilkynnir það. 
 • Skólastjóri aflar upplýsinga um málið með því að ræða við báða aðila máls hvorn í sínu lagi. 
 • Báðir aðilar máls eiga rétt á að trúnaðarmaður sé viðstaddur, sé þess óskað. 
 • Rætt er við aðra sem geta veitt upplýsingar um málið t.d. aðrir kennarar.
 • Forðast þarf að draga fleiri inn í málið en nauðsynlegt er. Rætt er við einn í einu. 
 • Ef ástæða þykir til er hægt að óska eftir aðstoð utanaðkomandi sérfræðinga, t.d. sálfræðings. Þörf fyrir stuðning er metin og báðum aðilum boðin aðstoð. 
 • Upplýsingar úr viðtölum og aðrar munnlegar upplýsingar eru skráðar. 
 • Báðum aðilum er haldið upplýstum um framvindu málsins eins og kostur er á meðan unnið er að lausn þess. 
 • Skólastjóri metur málsatvik, leggur fram tillögur um viðbrögð og tekur ákvörðun um næstu skref. 
 • Sé niðurstaðan sú að um einelti eða áreitni sé að ræða skal huga að rétti þess sem varð fyrir því, og skal tryggt að vinnuumhverfi viðkomandi sé öruggt. Gripið verður til aðgerða gagnvart þeim sem beita aðra einelti, áreitni eða ofbeldi, t.d. með áminningu eða uppsögn í samræmi við lög um réttindi viðkomandi starfsmanns. Gerandi verður ávallt látinn axla ábyrgð. 
 • Kjósi sá sem varð fyrir einelti, ofbeldi eða áreitni að leggja fram formlega kvörtun verður metið hverju sinni hvort þörf er á að leita til viðurkenndra þjónustuaðila á sviði vinnuverndar. 
 • Sé mál talið alvarlegt skal benda þolanda á að leita til lögreglu.


Ef aðilar málsins eru ekki sáttir við úrlausn sinna mála innan stofnunarinnar geta þeir leitað aðstoðar stéttarfélags síns og/eða Vinnueftirlits ríkisins. 

Ef þörf þykir á er samstarfsfélögum veittur viðeigandi stuðningur eða önnur aðstoð sem á við hverju sinni. 

Skólastjóri sér um að halda utan um allar upplýsingar sem koma fram, hvort sem um óformlega eða formlega leið er að ræða.

Upplýsingar sem verða til og varða aðila þess skulu vera aðgengilegar viðkomandi aðilum. Tekið verður á fölskum ásökunum um einelti, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni og ofbeldi af sömu festu og þessari hegðun almennt.

EFTIRFYLGNI

Skólastjóri, aðstoðarskólastjóri eða trúnaðarmaður fylgjast áfram með líðan málsaðila og aðstæðum.

Viðbragðsáætlun er endurskoðuðu reglulega og í samræmi við reynslu af vinnslu mála sem tilkynnt er um í skólanum.

TENGILIÐIR vegna ábendinga um einelti og áreitni 

Anna Rún Atladóttir, skólastjóri. Sími: 5628477, 898 3932,  ara@tonmenntaskoli.is

Ólöf Jónsdóttir, aðstoðarskólastjóri.  Sími:  8930840, olof@tonmenntaskoli.is

Jónas Sen, trúnaðarmaður kennara. Sími  6963993, senjonas@gmail.com

FREKARI UPPLÝSINGAR

I. Fyrirbyggjandi ráðstafanir 

Skólastjóra ber að sjá til þess að einelti, ofbeldi, kynferðisleg eða kynbundin áreitni líðist ekki í skólanum. Hann gegnir lykilhlutverki við að skapa góðan starfsanda og á að bregðast strax við ef tilkynnt er um einelti, ofbeldi eða áreitni. Stuðningur skólastjóra skiptir miklu máli og að starfsmenn upplifi sig ekki sem einangraða í vinnu. 

Orsakir eineltis, ofbeldis, kynferðislegrar eða kynbundinnar áreitni geta verið margvíslegar en mikilvægt er að horfa til vinnuumhverfis, vinnuskipulags og framkvæmdar vinnunnar. 

Upplýsingaflæði  

Jafnt upplýsingaflæði frá skólastjóra til starfsmanna er mikilvægt í því skyni að tryggja gagnsæi og aðgang meðal starfsmanna. Einnig skiptir miklu máli að starfslýsingar séu réttar til þess að starfsmaðurinn þekki sitt starfssvið og geti mótað sig eftir vinnu sinni. Þetta er gert til þess að koma í veg fyrir að hagsmunaárekstrar verði eða óskýrt upplýsingaflæði sem leitt getur til misskilnings milli starfsmanna í starfi. 

Einangrun 

Mikilvægt er að starfsmenn upplifi sig sem hluta af hóp og eigi góðan vin eða kunningja í vinnunni. 

Samskiptastefna 

Samskipti á vinnustað skulu ávallt einkennast af gagnkvæmri virðingu og vinsemd. Samskipti eiga að vera á faglegum nótum þar sem málefnaleg umræða á sér stað og uppbyggileg gagnrýni. Starfsmenn bera ábyrgð á eigin líðan og framkomu á vinnustað sem stuðlar að betri menningu innan skólans í heild. Starfsmenn eiga að vera meðvitaðir um birtingarmynd óviðeigandi hegðunar á vinnustað. Það felur meðal annars í sér neikvætt tal við og um aðra starfsmenn, mismunun, ljótt orðalag, hækkun á rómi og fleira sem getur valdið neikvæðri upplifun hjá samstarfsfólki. 

Mikilvægt er að allir starfsmenn séu meðvitaðir um að einelti, ofbeldi, kynferðisleg og kynbundin áreitni getur einnig komið fram í samskiptum, orðalagi og svipbrigðum. 

Umburðarlyndi 

Samstarfsfólki er ávallt sýnt umburðarlyndi í verki, orðum og starfi. Það á einnig við gagnvart aldri, þjóðerni, fötlun, kynhegðun, kynferði eða öðru. Lögð er áhersla á samábyrgð starfsmanna og þá skyldu að aðstoða starfsfélaga í erfiðleikum og efla skólann með þeim hætti. 

NEMENDUR OG EINELTI

Einelti getur tekið á sig ýmsar myndir og til að uppræta það er nauðsynlegt að hafa skilning á flóknum samskiptum milli einstaklinga og ólíkum hlutverkum sem hver og einn gegnir. Til að einelti geti átt sér stað þarf þolanda og geranda, helst aðstoðarmann og meðhjálpara. Helstu hlutverk sem geta komið fram í eineltismálum eru eftirfarandi.

Gerandi: Beitir líkamlegu og/eða andlegu ofbeldi gagnvart öðrum og oft og ítrekað gagnvart sama aðilanum. Getur falist í skemmdum eða þjófnaði á eigum viðkomandi (skólataska, föt, nesti, námsgögn og svo framvegis), uppnefnum, líkamsmeiðingum af einhverju tagi, félagslegri útilokun og fleiru. 

Aðstoðarmaður: Aðstoðar geranda í eineltinu og tekur beinan þátt í því, fylgir honum í einu og öllu. Leiðist út í ákveðna hegðun, ef til vill fyrir forvitni sakir eða vegna múgæsingar. Getur líka tekið þátt vegna ótta við geranda og/eða ósk um meiri vinsældir og styrk innan hópsins. Aðstoðarmaður er oft á móti því sem er í gangi en tekur engu að síður þátt. 

Meðhjálpari: Fylgist með úr fjarlægð, tekur ekki beinan þátt í athöfnum geranda og aðstoðarmanns en hvetur til athafna með látbragði, hlátri, aðdáun, líkamstjáningu og orðum. Telur sig ekki bera ábyrgð á því sem er í gangi.

Áhorfandi: Fylgist með, kannar hvað er að gerast en vill sem minnst af því vita. Skiptir sér ekki af. Kemur þolanda ekki til hjálpar. 

Varnarmaður: Er sá sem kemur þolanda til hjálpar, ver hann og mótmælir eineltinu. Getur þannig lagt sjálfan sig í hættu gagnvart hópnum sem tekur þátt í eineltinu. Oft er enginn varnarmaður en ef hann er til staðar er það mikil aðstoð fyrir þolanda. 

Þolandi: Er sá sem stríðni og einelti beinist að. Líður oftast illa og kvíðir því að fara skólann. 

Foreldrar/kennarar hafið hugfast! 

 • einelti viðgengst allt of oft vegna þess að nemendur vilja ekki vera stimplaðir sem klöguskjóður
 • ræðið við börnin/nemendur ykkar um muninn á því að klaga og segja frá 
 • með því að segja frá er hugsanlega verið að koma öðrum, sem líður illa, til aðstoðar


Mikilvægt er að:

 • börn læri að setja sig í spor annarra, sýni umburðarlyndi og beri virðingu fyrir öðrum
 • skólinn eigi gott samstarf við forráðamenn
 • unnið sé að fræðslu og góðum samskiptum nemenda, foreldra og starfsfólks skólans
 • skólasamfélagið sé upplýst 
 • unnið sé eftir áætlun um ferli eineltismála 
 • skrá eineltistilfelli 
 • fylgja málinu eftir þar til ásættanleg lausn finnst 


Foreldrar – er barnið þitt lagt í einelti? 

Hugsanlegar vísbendingar:

 • barnið virðist einangrað eða einmana 
 • einbeitingarörðugleikar, barnið hættir að sinna námi og einkunnir lækka 
 • barnið neitar að fara í skólann eða hræðist að fara eitt í og úr skóla, biður um fylgd og/eða fer aðra leið 
 • barnið skrópar og/eða kemur of seint 
 • breytingar á skapi, tíður grátur, viðkvæmni, árásargirni og erfið hegðun 
 • lítið sjálfstraust, hræðsla, kvíði, svefntruflanir
 • breyttar matarvenjur, lystarleysi eða ofát
 • líkamlegar kvartanir
 • áverkar, rifin föt og/eða skemmdar eigur 
 • barnið týnir peningum og/eða öðrum eigum
 • barnið forðast ákveðnar aðstæður í skólanum 
 • barnið neitar að segja frá hvað amar að


Það skal tekið fram að ofangreind upptalning á einkennum er ekki tæmandi og óvíst er að hve miklu leyti einkenni koma fram og/eða eiga við hjá hverju barni fyrir sig. 

Hvað geta forráðamenn þolanda gert? 

 • ef grunur er um að einelti eigi sér stað er mikilvægt að hafa stax samband við skólastjóra eða aðstoðarskólastjóra 
 • ræða við og hlusta á barnið segja frá skólanum og ferðum til og frá skóla 
 • bregðast við vanda barnsins með þolinmæði og umhyggju
 • láta barnið finna að það á ekki sök á eineltinu 


Foreldrar – er barnið þitt gerandi?
 

Börn sem leggja önnur börn í einelti hafa gjarnan litla tilfinningu fyrir líðan annarra og geta átt erfitt með að hlíta reglum. Þau eru oft árásarhneigð og hafa jákvætt viðhorf til ofbeldis. 

Þau eru skapbráð og hafa sterka þörf til að ráða yfir öðrum. Þau eru oft örugg með sig og eiga auðvelt með að tala sig út úr aðstæðum. 

Hugsanlegar vísbendingar: 

 • barnið er árásargjarnt og sýnir yfirgang
 • barnið uppnefnir, stríðir og hótar
 • barnið stjórnar vinum og útilokar úr vinahópnum
 • barnið er ógnandi í samskiptum
 • barnið talar niðrandi um aðra

Það skal tekið fram að ofangreind upptalning á einkennum er ekki tæmandi og óvíst er að hve miklu leyti einkenni koma fram og/eða eiga við hjá hverju barni fyrir sig. 

Hvað geta forráðamenn geranda gert? 

 • haft strax samband við skólann og fengið aðstoð við að bæta og breyta hegðun barnsins 
 • rætt við og hlustað á barnið segja frá skólanum og ferðum til og frá skóla
 • gefið barninu skýr skilaboð um að einelti er alvarlegt mál og slíka hegðun sé ekki hægt að líða
 • fylgst vel með barninu og lagt sig fram um að kynnast vinum þess og hvernig það ver frítíma sínum

Add Your Heading Text Here