Tónskáld janúar er Wolfgang Amadeus Mozart.
„Að öðlast sælu himins er helgara öllu, og æðra, en þessa blessuðu jörð vora er einnig unaðslegt að gista! Verum því mennsk og mannleg.“
(Orð Mozarts letruð á gafl Villa Bertramka, sveitaseturs Duschek-hjónanna þar sem tónskáldið lauk við að semja óperuna „Don Giovanni“). * heimild: Bréf Mozarts úrval í þýðingu Árna Kristjánssonar.
Wolfgang Amadeus Mozart var fæddur 27. janúar 1756 í Salzburg, Austurríki. Hann lést 5. desember 1791 í Vínarborg, aðeins 35 ára. Hann var eitt áhrifamesta tónskáld klassíska tímabilsins. Leopold Mozart, faðir W. A. Mozarts var fiðluleikari og síðar ráðinn tónlistarmaður við hirð Sigismunds von Schrattenbach, erkibiskups í Salzburg. Anna María, móðir W. A. Mozarts var fædd í Pertl í Austurríki og eignuðust þau Leopold sjö börn en aðeins tvö þeirra komust á legg. María Anna systir Wolfgangs var fimm árum eldri en hann en bæði systkinin þóttu bráðþroska og með yfirburða greind. Faðir þeirra ferðaðist með þau vítt og breitt um Evrópu og lét þau koma fram sem hljóðfæraleikara í fjölda borga og við hirðir fursta og konunga, öllum til mikillar furðu og hrifningar sem á hlýddu. Á einu ferðalaganna kynntist Mozart frægustu tónlistarmönnum aldarinnar: í London kynntist hann tónskáldinu Jóhanni Christian Bach og á Ítalíu kynntist hann Giovanni Batista, presti og tónskáldi. Þetta var mikil gæfa fyrir unga tónskáldið Mozart en hann lærði margt af báðum þessum tónskáldum og öðrum meisturum tónlistarinnar sem hann hitti í ferðinni.
París, 1. febrúar 1764, skrifaði Leopold faðir Mozarts í bréfi til Maríu Theresíu Hagenauer í Salzburg: „…Guð gerir með hverjum degi ný kraftaverk á þessum dreng… Hann kemur oft fram á opinberum tónleikum og flytur við fyrstu sýn undirleik að aríum milli tóntegunda. Yfirleitt leikur hann allt af blaði sem fyrir hann er sett…“ * heimild: Bréf Mozarts úrval í þýðingu Árna Kristjánssonar.
Þrátt fyrir stutta ævi liggja um sex hundruð tónverk af ýmsum toga eftir Mozart. Hann skrifaði fjölda ópera, sinfóníur, konserta fyrir ýmis hljóðfæri, sónötur fyrir fjölda hljóðfæra, kammermúsíkverk af öllu tagi, kirkjutónverk auk fjölda söngverka. Fjöldi bréfa frá W. A. Mozart hefur varðveist sem hann skrifaði til fjölskyldu sinnar, vina, fursta og annarra. Þau lýsa vel þeim tíðaranda sem hann lifði, tónskáldinu sjálfu og störfum þess. Danska tónskáldið Carl Nielsen skrifaði: „ Af bréfum Mozarts og þeim mörgu sögum sem af honum fóru má marka hve mikið ljúfmenni hann var. Einlægur og hispurslaus í framkomu, fullur trúnaðartrausts til allra manna, lagði hann jafnvel óvinum sínum gott til. Hver er sá er fundið gæti honum það til foráttu að hann átti það til að vera helzt til hirðulaus á stundum og léttúðugur í líferni sínu? Andstæðingar hans áttu einnig á því sök, þar sem Mozart þurfti, -ofsóttur sem hann var – að vinna baki brotnu til þess að hafa ofan í sig og á. Er þá kyn, þótt út af brygði stöku sinnum? Það var eðlileg afþreying fyrir sál hans og líkama og skal honum svo sannarlega fyrirgefið að hann var enginn engill heldur mennskur maður er bar heitar mannlegar tilfinningar í brjósti, mannlegar vonir og þrár, ástríður, hvatir, dyggðir og breyskleika og hvað það nú kallast allt þetta sem lyftir mönnum annaðhvort langt í hæð ellegar steypir þeim í glötun. Þegar á allt er litið er persóna Mozarts ein sú allra geðþekkasta í sögu tónlistarinnar, -já, í sögu listanna yfirleitt. Hann hlaut að deyja ungur svo að mynd hans og list yrði fullkomnuð. Tónlist og æska eiga saman – sú list sem kvikust er allra lista, samrýmist illa hærum og hrukkum, og því skyldi enginn aumka Mozart fyrir það að hann varð skammlífur, heldur fremur fyrir hitt að hann varð að þola angur og skapraunir á síðustu árum ævi sinnar, einmitt þegar hann jós hvað mest af nægtarbrunni listar sinnar og gaf okkur fegurstu og veigamestu verk sín. * heimild: Bréf Mozarts úrval í þýðingu Árna Kristjánssonar.