Tónskáld september mánaðar er Hildur Guðnadóttir.
Hildur Ingveldardóttir Guðnadóttir (f. 4. september 1982) er íslenskt tónskáld og tónlistarmaður. Hildur ólst upp í Hafnarfirði og er menntaður sellóleikari. Hún hefur spilað með hljómsveitunum Pan Sonic, Throbbing Gristle, Woofer, Rúnk, Múm og Stórsveit Nix Noltes. Hún hefur jafnframt leikið á tónleikum með Animal Collective og Sunn O))).
Árið 1997 stofnaði Hildur ásamt vinum sínum úr Hafnarfirði sveitina Woofer sem tók þátt í Músíktilraunum það sama ár. Woofer komust í úrslit en náðu ekki verðlaunasæti þrátt fyrir að vekja athygli. Í kjölfarið kom út þriggja laga smáskífan Táfýla. Haustið 1997 kom svo út eina stóra plata sveitarinnar sem bar sama nafn og hljómsveitin, Woofer.
Hildur stofnaði árið 2001 hljómsveitina Rúnk ásamt Svavari Pétri Eysteinssyni (Prins Póló), Benedikt Hermanni Hermannssyni (Benni Hemm Hemm), Birni Kristjánssyni (Borko) og Ólafi Birni Ólafssyni. Þá um jólin gaf sveitin út jólaplötuna Jólin eru og ári síðar plötuna Gengi Dahls sem naut talsverðra vinsælda. Sveitin kom að stofnun tónlistarhátíðarinnar Innipúkinn.
Árið 2006 gaf Hildur út sólóplötu undir titlinum Lost in Hildurness, sem var síðar endurútgefin með titlinum Mount A. Á plötunni spilaði Hildur sjálf á öll hljóðfærin og stjórnaði hljóðupptökunum. Platan var tekin upp í New York-borg og á Hólum í Hjaltadal. Árið 2009 gaf hún út aðra sólóplötu sína, Without Sinking, hjá bresku tónlistarútgáfunni Touch Music.
Auk þess að spila á selló er Hildur einnig söngvari og kórstjóri. Hún hefur meðal annars stýrt kór á tónleikum Throbbing Gristle í Austurríki og London. Árið 2006 samdi Hildur undirleik fyrir leikritið Sumardag sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu. Hún hefur einnig samið tónlist fyrir dönsku kvikmyndina Kapringen (2012), kvikmyndina Mary Magdalene (2018) (í samstarfi við Jóhann Jóhannsson), Sicario: Day of the Soldado (2018) og sjónvarpsþáttaröðina Chernobyl (2019). Hún samdi einnig tónlistina fyrir kvikmyndina Joker árið 2019 og vann fyrir hana Premio Soundtrack Stars-verðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum sama ár.
Í nóvember 2019 var Hildur tilnefnd til Grammy-verðlauna fyrir tónlist sína í Chernobyl. Hún vann verðlaunin á Grammy-verðlaunahátíðinni þann 26. janúar 2020.
Árið 2020 vann hún Golden Globe-verðlaun fyrir tónlist við kvikmyndina Joker og var fyrsta konan til að hljóta þessi verðlaun í 19 ár. Þann 13. janúar sama ár var hún jafnframt tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir tónlistina úr myndinni. Hildur er sjöundi Íslendingurinn sem hefur hlotið tilnefningu til Óskarsverðlaunanna. Hildur vann Óskarsverðlaunin fyrir bestu frumsömdu tónlistina og varð fyrsti Íslendingurinn til að vinna Óskarsverðlaun. Hildur er jafnframt fjórða konan frá upphafi sem hefur unnið Óskarsverðlaun fyrir frumsamda kvikmyndatónlist en er fyrsta konan sem hlýtur þau ein.
Hildur var sæmd riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag til íslenskrar og alþjóðlegrar tónlistar þann 17. júní 2020.
(Heimild: Tekið af vefnum: http://is.wikipedia.org/wiki/Hildur_Guðnadóttir, þann 17. ágúst 2021)