Heitor Villa-Lobos

Tónskáld Mánaðarins

Heitor Villa-Lobos (5. mars 1887 – 17. nóvember 1959) var brasilískt tónskáld, hljómsveitarstjóri, sellóleikari og gítarleikari. Honum var oft lýst sem „áhrifamesta tónskáldi Brasilíu á 20. öld“. Villa-Lobos er þekktasta Suður-Ameríska tónskáld allra tíma. Hann var afkastamikið tónskáld og samdi mörg hljómsveitar-, kammer-, hljóðfæra- og söngverk, en samtals voru verk hans um 2000 talsins. Tónlist hans var undir áhrifum frá bæði brasilískri þjóðlagatónlist og evrópskri klassískri hefð, eins og verk hans Bachianas. Æfingar hans fyrir gítar (1929) voru tileinkaðar Andrés Segovia en 5 Prelúdíur (1940) voru tileinkaðir maka hans Arminda Neves d’Almeida, einnig kallað Mindinha. Bæði verkin eru talin til tímamótaverka í heimi gítartónlistar.

Villa-Lobos fæddist í Rio de Janeiro. Faðir hans, Raúl, var embættismaður, tónlistarmaður og bókavörður auk þess sem hann var áhugamaður um stjörnufræði. Á uppvaxtarárum Villa-Lobos fór Brasilía í gegnum tímabil samfélagsbyltingar og nútímavæðingar, afnám þrælahalds árið 1888 og ári síðar var heimsveldi Brasilíu steypt af stóli. Breytingarnar í Brasilíu komu fram í tónlistinni: áður hafði evrópsk tónlist haft ráðandi áhrif, og námið í Conservatório de Música var byggt á þekktum aðferðum kontrapunkts og hljómfræði. Villa-Lobos fór þó ekki í gegnum hefðbundið tónlistarnám. Hann lærði tónlist með því að fylgjast með tónlistarkvöldum heima hjá sér sem faðir hans sá um. Hann lærði að spila á selló, klarinett og gítar. Þegar faðir hans dó árið 1899 vann hann sér farborða fyrir fjölskyldu sína með því að leika í kvikmyndahúsum og leikhúshljómsveitum í Ríó.

Um 1905 hóf Villa-Lobos rannsóknir á „frumbyggjatónlist“ Brasilíu og gleypti við innfæddri brasilískri tónlistarmenningu. Hann fór að semja tónlist eftir áhrifum tónlistar frumbyggja Brasilíu, byggða á portúgölskum og afrískum áhrifum, auk amerísk- indverskra þátta. Elstu tónverk hans voru afrakstur spuna á gítarinn frá þessu tímabili.

Villa-Lobos lék með mörgum brasilískum götuhljómsveitum; hann varð einnig fyrir áhrifum frá kvikmyndatónlist og spuna í tangó og polkum frá Ernesto Nazareth. Arthur Napoleão, píanóleikari og tónlistarútgefandi, hvatti Villa-Lobos áfram til að semja tónlist og ákvað Villa-Lobos í kjölfarið að semja af alvöru.

Add Your Heading Text Here