Tónskáld mars mánaðar 2025 er Jón Nordal

Tónskáld Mánaðarins

Jón Nordal fæddist 6. mars 1926. Hann var sonur hjónanna Ólafar og Sigurðar Nordal. Jón var píanóleikari og eitt ástsælasta tónskáld þjóðarinnar. Hann var auk þess skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík til margra ára.

 
Jón Nordal stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík undir handleiðslu Árna Kristjánssonar píanóleikara og Jóns Þórarinssonar tónskálds. Hann hélt síðan erlendis til Zürich í frekara nám í píanóleik og tónsmíðum og dvaldi erlendis til ársins 1957 í Kaupmannahöfn, París og Róm.

Jón Nordal hefur samið ótal einsöngs- og hljómsveitarverk, kammertónlist, konserta, kórverk svo fátt eitt sé nefnt. Mörg verka hans eru orðin hluti af þjóðarvitund landsmanna, þar á meðal lagið Smávinir fagrir sem Jón samdi við Hulduljóð Jónasar Hallgrímssonar auk lagsins Hvert örstutt spor úr Silfurtungli Halldórs Laxness. Meðal stærri hljómsveitarverka hans eru Bjarkamál (1956), Brotaspil (1962), Leiðsla (1973), Langnætti (1975) Tvísöngur (1979) og Choralis, sem var samið að beiðni Mstislav Rostropovich og frumflutt undir hans stjórn í Washington, DC, árið 1982. Sem tónskáldi er Jóni lýst sem sjálfstæðum og sérkennilegum en að hann væri í snertingu við þær hræringar sem væru í nútímanum og að hann hefði fullkomið vald á tónsmíðatækni. Jón Nordal var magnað tónskáld og átti svo sannarlega sinn eigin tón og hljóm.

Auk þess að vera afkastamikið tónskáld gegndi Jón veigamiklu hlutverki á öðrum sviðum íslenskrar tónlistarmenningar. Hann var skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík á árunum 1959 til 1992, sat í stjórn Tónskáldasjóðs RÚV í nær hálfa öld og var einn af stofnendum og fyrsti formaður Musicaa Nova, félags um flutning samtímatónlistar á Íslandi.

Jón var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1993 og hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2010.

Til að minnast Jóns Nordal tók Tónverkamiðstöð saman nótnablöð nokkurra vinsælustu verka Jóns í nótnasafninu auk þess sem hægt er að hlusta á upptökur af þeim á heimasíðu Tónverkamiðstöðvar.


Jón Nordal lést þann 5. desember 2024, 98 ára að aldri.

Heimildir:
1.) https://www.icelandmusic.is/en/news/minnumst-jons-nordals

2. https://is.wikipedia.org/wiki/J%C3%B3n_Nordal

Add Your Heading Text Here