Richard Wagner fæddist 22. maí 1813 í Leipzig á Saxlandi. Móðir hans hét Johanna Rosine Pätz og var dóttir bakarameistara í bænum Weißenfels sem er í grennd við Leipzig. Faðir hans hét Friedrich Wagner og var ritari hjá lögreglunni í Leipzig. Richard var níunda og síðasta barn þeirra hjóna. Faðir hans dó 43 ára úr taugaveiki sem kom upp eftir orrustuna miklu (Völkerschlacht) við her Napóleons skammt frá Leipzig, 16.–19. október 1813, þegar Richard var tæplega hálfs árs.
Wagner gekk í barnaskóla í Dresden og fermdist þar, en árið 1828 fluttist fjölskyldan aftur til Leipzig þar sem hann gekk í menntaskóla. Bókmenntahugur og afburða næmi gerðu miklu fyrr vart við sig hjá honum en tónlistargáfur. Hér bjó Adolf Wagner föðurbróðir hans sem taldist til klassískra lærdómsmanna og átti mjög gott bókasafn sem hinn ungi, hraðlæsi og næmi frændi hans gleypti óspart í sig. Á fermingarárinu hafði Richard þegar byrjað að skrifa leikritið Leubald og Adelaide, sem er einskonar strákaútgáfa af blóðugustu leikritum Shakespeares, og hélt hann öðru hverju áfram við það. Sextán ára gamall sá hann óperuna Fidelio eftir Beethoven og segist þá hafa ákveðið að gerast tónlistarmaður.
Næstu árin stundaði Wagner tónlistarnám, samdi sinfóníu í C-dúr og drög að óperu sem átti að heita Brúðkaupið og fjallaði um ástir ungmenna úr fjölskyldum fjandmanna. Ekki er meira eftir af þessari óperu en fyrsta söngatriðið. Um þetta leyti kynntist hann tónskáldinu Robert Schumann sem stýrði tónlistartímariti í Leipzig.
Árið 1833, þegar Wagner stóð á tvítugu, heimsótti hann Albert bróður sinn í Würzburg. Hann starfaði þar sem leikari, söngvari og leikstjóri, og Richard fékk tímabundið starf sem kórstjóri. Hér samdi hann fyrstu óperu sína, Die Feen (Álfarnir), sem er reist á sögu eftir ítalska ævintýraskáldið Carlo Gozzi og fjallar um erfiðar ástir huldukonu og manns. Músíkin þykir einkum eiga skylt við Weber og Beethoven en samt má þegar skynja forboða þess sem síðar átti eftir að koma fram. Óperan fékkst þó ekki flutt fyrr en árið 1888, fimm árum eftir dauða Wagners. Þá stjórnaði Hermann Levi henni í München.
Í fyrstu óperum Wagners kom það sérkenni þegar í ljós að Wagner samdi óperutexta sína sjálfur, enda leit hann ekki síður á sig sem ljóðskáld en tónskáld. Í hans augum var textinn ekkert aukaatriði heldur áttu tónar og ljóð að vera samofin heild. Snemma árs 1851 barst Wagner í hendur hin tímamótandi þýðing Karls Simrocks á eddukvæðum og megninu af lausamáli Snorra Eddu. Mörgu af því hafði hann vissulega kynnst áður í misstórum brotum en hér var allt saman komið á einn stað, ekki síst goðsagnir og vésagnir. Í árslok 1852 lauk Wagner við allan texta Niflungahringsins og gaf hann út í 50 eintökum handa vinum og vandamönnum í febrúar 1853 þegar hann var tæplega fertugur. Æfingar á Hringnum öllum (sem telur 4 óperur) stóðu yfir allt árið 1875 og var hann frumfluttur í nýja hátíðaleikhúsinu í Bayreuth í Þýskalandi í ágúst 1876. Wagner dvaldist talsvert á Ítalíu sér til heilsubótar en andaðist í Feneyjum 13. febrúar 1883. Hann var jarðsettur í garðinum við húsið Wahnfried í Bayreuth.
(Heimild: wagnerfelagid.is/wagner-og-volsungar/wv-aeviagrip)