George Michael (skírnarnafn: Georgios Kyriacos Panayiotou) fæddist 25. júní 1963 í Englandi. Hann var einn söluhæsti poptónlistarmaður allra tíma, en sala hans er áætluð á milli 100 til 125 milljónir platna um allan heim. Hann var söngvari og plötusnúður áður en hann varð heimsfrægur. George Michael var mjög skapandi lagasmiður, elskaður söngvari og lagði mikið upp úr ímynd sinni í myndböndum jafnt sem á tónleikum og í daglegu lífi. Hann var töffari af líf og sál með flotta danstakta sem höfðu áhrif á aðdáendur hans.
13 laga hans náðu fyrsta sæti á breska smáskífulistanum, fimm þeirra með dúettinum Wham og átta laga hans náðu fyrsta sæti á bandaríska Billboard Hot 100 listanum. George Michael vann til fjölda tónlistarverðlauna, þar á meðal tvenn Grammy verðlaun, þrenn Brit verðlaun, 12 Billboard tónlistarverðlaun og fern MTV Video Music Awards verðlaun. George var á lista Billboard yfir 100 stærstu listamenn allra tíma og tímaritið Rolling Stone valdi hann einn af 200 bestu söngvurum allra tíma. Breska útvarpsakademían tilnefndi hann mest spilaða listamanninn í bresku útvarpi á tímabilinu 1984 til 2004. George var auk þess tekinn inn í The Rock and Roll Hall of Fame og The UK Music Hall of Fame.
George Michael fæddist í East Finchley, Middlesex á Englandi og varð fyrst frægur sem annar hluti dúettsins Wham með Andrew Ridgeley árið 1981 en hélt síðar áfram frægðarsólinni á sólóferli sínum. Fyrstu plötur Wham náðu fyrsta sæti vinsældarlista bæði á Bretlandi sem og í Bandaríkjunum með lögunum „Wake me up before you go go“ og „Last Christmas“. Wham dúettinn hélt í heimsreisu og árið 1985 voru þeir fyrsta heimsfræga vestræna bandið sem heimsótti Kína. Lang vinsælasta lag Wham „Careless Whisper“ lenti í fyrsta sæti í yfir 20 löndum þar á meðal í Bretlandi og Bandaríkjunum.
Auk sólóferils með aragrúa frægra laga gerði George Michael einnig garðinn frægan í ýmsum dúettum t.d. með söngkonunum Aretha Franklin, Whithney Houston sem og söngvörunum Elton John og söngvara hljómsveitarinnar Queen, Freddy Mercury.
Sólóferill George Micael er óumdeildur og glæsilegur í alla staði. Lög hans urðu þekkt um alla veröld og leikin á helstu útvarpsstöðvum, diskótekum og klúbbum hvar sem var í henni veröld. Plötur hans voru líka til á flestum heimilum!
Þrátt fyrir heimsfrægð var George Michael duglegur að sinna þeim sem minna mega sín í samfélaginu. Hann var reglulegur gestur hjá ýmsum góðgerðastofnunum, útdeildi mat og gjöfum til fólks og lét til sín taka í málum fátækra sem og samkynhneigðra.
Tiltölulega seint á ferlinum steig hann fram og viðurkenndi samkynhneigð sína. Það hafði hreint ekki áhrif á sölu tónlistar hans.
George Michael lést á heimili sínu á Englandi á Jóladag 2016 þar sem hann lést í svefni 53 ára að aldri. Hann er grafinn í Norður London við hlið móður sinnar.