Tónskáld júní mánaðar 2022 er norska tónskáldið Edvard Hagerup Grieg.
Norska tónskáldið og píanóleikarinn, Edvard Grieg, fæddist í Bergen í Noregi þann 15. júní 1843. Faðir hans, Alexander Grieg var ræðismaður Breta í Bergen. Grieg fjölskyldan var skosk að uppruna (eftirnafnið var áður Greig), en afi tónskáldsins hafði flutt úr landi eftir orrustuna við Culloden. Móðir Griegs, Gesine Hagerup, var af rótgróinni norskri fjölskyldu og hafði stundað tónlistarnám í Hamburg. Frá sex ára aldri fékk Edvard Grieg því píanókennslu hjá móður sinni og árið 1858 fyrir tilstilli fiðluvirtúósans Ole Bull, komst Grieg inn í Konservatoríið í Leipzig, þar sem tónlistarhefðir Mendelssohns og Schumanns veittu honum innblástur. Á þessum tíma lenti Grieg í alvarlegum veikindum sem hann náði sér aldrei af.
Grieg fór til Kaupmannahafnar árið 1863 til að semja tónlist og leika á píanó. Hann varð fyrir áhrifum frá samlanda sínum og þjóðernissinnaða tónskáldinu Rikard Nordraak, sem samdi m.a. norska þjóðsönginn. „Af honum lærði ég norrænu þjóðlagahefðina og um náttúruna“, sagði Grieg. Hann samdi jarðarfararmars til heiðurs vini sínum Rikard þegar hann lést.
Veturinn 1864 til 1865 stofnaði Grieg ásamt fleirum tónlistarfélagið Euterpe í Kaupmannahöfn, sem hélt utan um tónlist ungra norrænna tónskálda. Hann giftist frænku sinni, Ninu Hagerup árið 1867, en hún var þekkt fyrir túlkun á verkum Griegs. Þau eignuðust dótturina Alexöndru Grieg.
Grieg dvaldi í Rómarborg veturna 1865-1866 og 1869-1870 en þar hitti hann í fyrsta sinn skáldið Henrik Ibsen sem hann átti eftir að vinna með þegar hann samdi tónlist við leikrit hans Pétur Gaut. Hann hitti líka Liszt í Róm sem var yfir sig hrifinn af píanókonserti Griegs. Eftir tímabil í Oslo flutti Grieg til „Troldhaugen“ í Bergen þar sem hann hafði byggt sér hús í skóginum við fallegt stöðuvatn. Þrátt fyrir heilsuleysi fór Grieg í tónleikaferðir um norðurlöndin og meginland Evrópu auk þess sem hann lék sjálfur píanókonsert sinn í Englandi árið 1888.
Tónlist Griegs var alla tíð mjög innblásin af norskum þjóðlögum og var í anda rómantíkur og ákaflega þjóðleg. Hann samdi fjölda verka fyrir píanó, bæði einleiksverk sem og píanókonserta, sá í a moll er einn af frægustu verkum tónskáldsins. Grieg samdi auk þess tónlist fyrir fiðlu, cello, flautu, söngraddir, kórverk, leikhústónlist Peter Gynt ofl.
Edvard Grieg lést í Bergen, Noregi, 4. september 1907.