Tónskáld júlí mánaðar 2023 er þýska tónskáldið Carl Orff

Tónskáld Mánaðarins

Tónskáld júlí mánaðar 2023 er þýska tónskáldið Carl Orff. Carl Orff eða Karl Heinrich Maria Orff eins og hann var skírður, fæddist í München í Þýskalandi, 10. júlí 1895. Foreldrar hans voru Paula Orff píanóleikari (1872 – 1960) og Heinrich Orff  herforingi og tónlistarunnandi (1869 – 1949).
Fimm ára gamall byrjaði Carl að spila á píanó og síðar á selló og orgel. Hann samdi ungur tónlist fyrir brúðuleikrit og var sjálfur farinn að sækja tónleika mjög ungur. Á árunum 1910 til 1912 samdi Orff nokkra tugi ljóðalaga við texta þýskra rithöfunda m.a. Frühlingslieder eftir Ludwig Uhland og Eliland: Ein Sang von Chiemsee við texta Karls Stieler. Oftast notaði hann texta Heinrichs Heine og Mathilde prinsessu af Bæjaralandi þó fleiri skáld hafi fylgt með. Fyrstu lög Orffs má segja að hafi verið undir áhrifum frá Richard Strauss og annarra þýskra tónskálda þess tíma en þó mátti greina í verkunum einkenni sem seinna urðu helstu sérkenni verka Carls Orff.

Orff  stundaði nám við tónlistarakademíuna í München frá 1912 til 1914 en fannst hún um tíma bæði íhaldssöm og gamaldags. Á námsárunum rannsakaði hann verk eftir Arnold Schoenberg og Debussy en sá síðarnefndi var einn af mikilvægustu áhrifavöldum hans. Orff hreifst af fleiri listgreinum t.d. leiklist og heillaðist af verkum eftir August Strindberg og Frank Wedekind.

Carl Orff kvæntist fjórum sinnum. Fyrsta kona hans var Alice Solscher og eignuðust þau dótturina Godela árið 1921 sem var eina barn Orffs. Þau skildu þegar Godela var um 7 mánaða gömul en Godela ólst upp hjá föður sínum þegar móðirin fluttist til Ástralíu. Önnur kona hans var Gertrud Willert sem hafði verið nemandi hans og stofnaði með honum Orff Schulwerk. Þriðja eiginkonan var rithöfundurinn Luise Rinser sem hann giftist árið 1954 en þau skildu fimm árum síðar. Fjórða eiginkonan var Liselotte Schmitz sem hafði verið ritari hans en eftir andlát Orffs hélt hún áfram starfi sínu við Carl Orff Stiftung.

Carl Orff hafði enga löngun til að fylgja hefð fjölskyldunnar en bæði faðir hans og afar höfðu starfað í hernum allt sitt líf. Hann var sendur í herinn þegar styrjöldin braust út en hugur hans var alla tíð í tónlistinni.
Orff verður sennilega helst minnst fyrir Schulwerk-ið sitt. Verkin eru kölluð „Musik für Kinder“ (Tónlist fyrir börn) og voru skrifuð í samvinnu við fyrrverandi nemanda hans, Gunild Keetman. Nálgun þeirra á tónlistarkennslu fyrir börn fólst í frumlegri tónlist samofinni hreyfingu, söng, leik og spuna. Notuð voru svokölluð Orff hljóðfæri ásláttarhljóðfæri t.d. xýlófónar, klukkuspil, stafir ofl.

Carmina Burana er frægasta tónsmíð Carl Orffs og var frumflutt í Frankfurt 08. júní 1937. Tónverkið er samið fyrir blandaðan kór, tvö píanó, slagverk og einsöngvara. Verkið náði miklum vinsældum í Þýskalandi nasista en er enn þann dag í dag flutt reglulega um allan heim.

Orff lést úr krabbameini þann 29.mars 1982 þá 86 ára að aldri.

Add Your Heading Text Here