Tónskáld janúar mánaðar 2025 er Gunnar Þórðarson.

Tónskáld Mánaðarins

Tónskáld janúar mánaðar 2025 er Gunnar Þórðarson.

Gunnar Þórðarson hefur verið í eldlínu íslenskrar dægurtónlistar svo áratugum skiptir. Gunnar fæddist á Hólmavík 4. janúar árið 1945 – og varð því 80 ára í byrjun ársins, en fluttist átta ára gamall til Keflavíkur þar sem ferill hans sem tónlistarmaður hófst. Hann lék með hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar frá 1963 og þar með var tónninn sleginn fyrir komandi ár. Gunnar varð landsþekktur þegar hann lék, söng og samdi tónlist með hljómsveitinni Hljómum. Hver þekkir ekki lögin „Fyrsti kossinn“  og  „Bláu augun þín“!? Þau ásamt mörgum öðrum lögum Gunnars hafa hljómað á öldum ljósvakans, dansleikjum og skemmtunum í áratugi.

Gunnar var meðlimur og aðallagahöfundur nokkurra vinsælla hljómsveita m.a.Trúbrots  og Ðe Lónlí Blú Bojs og hann samdi hverja perluna á fætur annarri. Hann koma að fjölda stórra viðburða, samdi t.d. tónlist fyrir 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar árið 1986, hann útsetti tónlist fyrir dansleiki og skemmtanir á Broadway og á Hótel Íslandi og fékk með sér einvalalið tónlistarmanna til að spila og syngja. Gunnar var höfuðpaurinn á bak við vísnaplötuna Einu sinni var frá 8. áratugnum. Platan sú naut mikilla vinsælda hjá landsmönnum og seldist upp hjá útgefanda.

Seinna reyndi Gunnar sig við óperuformið. Óperan Ragnheiður eftir þá Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson textahöfund var frumsýnd hjá Íslensku óperunni í Eldborgarsal Hörpu og er óhætt að segja að hún hafi slegið gjörsamlega í gegn, því uppselt var á allar sýningar og komust færri að en vildu. Bæði gagnrýnendur og gestir spöruðu ekki hrósyrðin og hlaut sýningin fimm stjörnur margra gagnrýnenda. Þá sópaði hún að sér tilnefningum og verðlaununum á Grímunni 2014, þar sem hún var meðal annars valin Sýning ársins 2014.

„Óperan fjallar um Ragnheiði Brynjólfsdóttur, biskupsdóttur í Skálholti á 17. öld, ástarsamband hennar við lærimeistara sinn Daða Halldórsson og fordæmingu föður hennar, Brynjólfs biskups Sveinssonar, á því sambandi. Eins og frægt er, var Ragnheiður neydd til þess að sverja eið þess efnis að hún hefði ekki átt í holdlegu sambandi við Daða né nokkurn annan mann. Níu mánuðum eftir eiðtökuna ól hún svo sveinbarn þeirra Daða. Efni þetta hefur áður orðið ýmsum listamönnum viðfangsefni. Einna frægust er skáldsaga Guðmundar Kamban, Skálholt, og samnefnt leikrit hans (úr sýningaskrá)“.

Gunnar hefur sýnt og sannað hvaða vald hann hefur á ólíkum tónlistarformum. Hann er óneitanlega einn okkar besti lagahöfundur innan dægurtónlistar!

Add Your Heading Text Here