Giovanni Battista Pergolesi, var fæddur 4. Janúar 1710. Hann var ítalskt tónskáld, fiðluleikari og organisti og þekktastur fyrir barrokk verk sín, óperur og trúarlega tónlist. Hann samdi m.a. fjölda hljómsveitarverka, einleiksverk fyrir ýmist orgel eða harpsicord, konserta, óperur og sinfóníur.
Hann fæddist í Jesi þar sem nú er Ancona en „Pergolesi“ nafnið festist við hann þar sem forfeður hans komu frá staðnum Pergola í Marche. Pergolesi lærði tónlist í Jesi hjá tónlistarmanninum Francesco Santi áður en hann hélt til Napólí í tónlistarnám hjá Gaetano Greco og Francesco Feo árið 1725. Þegar hann lauk námi árið 1731 vann hann sér það til frægðar að flytja óratoríu eftir sjálfan sig: La fenice sul rogo, o vero la morte di San Giuseppe sem og Li prodigi della divina grazia nella converte e morte di san Guglielmo duca d´Aquitania.
Pergolesi eyddi mestum hluta ævi sinnar í að vinna fyrir aðalsmennina Ferdinando Colonna, prins af Stigliano og Domenico Marzio Carafa, hertoga af Maddaloni.
Pergolesi var áhrifamikið tónskáld á sínum tíma sér í lagi fyrir gamanóperur sínar (it: opera buffa). Þær urðu um tíma miklu vinsælli en frönsku óperur tónskáldanna Jean-Baptiste Lully og Jean-Philippe Rameau þannig að áheyrendur skiptust upp í tvo andstæða hópa.
Allar óperur Pergolesis voru frumfluttar í Napólí á sínum tíma nema ein sem var frumflutt í Róm. Verk hans urðu feyki vinsæl og mörg tónskálda umrituðu verk hans, m.a. J. S. Bach (í kantötunni Tilge, Höchster, meine Sünden BWV 1083.
Mörg verka Pergolesis hafa verið notuð í kvikmyndum nútímans eins og í kvikmyndinni Amadeus frá 1984, Farinelli frá 1994, Smilla´s Sence of Snow frá 1997 o.fl.