Tónskáld janúar mánaðar 2022 er Franz Schubert.

Tónskáld Mánaðarins

Franz Peter Schubert var austurrískt tónskáld, f. 31. janúar 1797, d. 19. nóvember 1828. Hann var uppi frá lokum klassíska tímabilsins til fyrri hluta rómantíska tímans og má vel greina einkenni tímabilsins í tónlist hans. Þrátt fyrir stutta ævi skildi Schubert eftir sig gríðarlegan fjölda tónverka, þar á meðal meira en 600 veraldleg söngverk (aðallega lieder), sjö sinfóníur, helgileik, óperur, auk þess skrifaði hann fjölda verka fyrir píanó- sem og fjölda  kammerverka. Meðal þekktustu verka hans eru ljóðalagið „Erlkönig“ (D. 328); píanókvintettinn í A-dúr, D. 667 (Silungakvintettinn); sinfónía nr. 8 í h-moll, D. 759 (Ókláruð sinfónía); „Stóra“ sinfónían. Nr. 9 í C-dúr, D. 944; Strengjakvintettinn (D. 956), síðustu þrjár píanósónöturnar (D. 958–960); óperan Fierrabras (D. 796); tónlist við leikritið Rosamunde ( D. 797), og söngflokkarnir um malarastúlkuna fögru, Die schöne Müllerin (D. 795) og Vetrarferðin, Winterreise (D. 911).

Schubert fæddist í Himmelpfortgrund, úthverfi Vínarborgar og sýndi miklar tónlistargáfur frá unga aldri. Faðir hans kenndi honum í upphafi á fiðlu og eldri bróðir hans kenndi honum á píanó, en Schubert fór fljótlega fram úr hæfileikum þeirra. Árið 1808, ellefu ára gamall, varð hann nemandi í Stadtkonvikt-skólanum, þar sem hann kynntist hljómsveitarverkum Haydns, Mozarts og Beethovens. Hann fór frá Stadtkonvikt í árslok 1813 og sneri heim til föður síns og hóf kennaranám. Þrátt fyrir það hélt hann áfram námi í tónsmíðum hjá Antonio Salieri og samdi á þeim tíma fjölda verka. Árið 1821 var Schubert tekinn inn í Gesellschaft der Musikfreunde og fékk þar aðstoð við að koma nafni hans á kortið innan Vínarborgar. Hann hélt eina tónleika á ferlinum með eigin tónlist við lof gagnrýnenda í mars árið 1828. Hann lést átta mánuðum síðar, 31 árs að aldri, en talið var að hann hefði látist úr taugaveiki eða sárasótt.

Vinsældir á tónlist Schuberts takmörkuðust við tiltölulega fámennan hóp aðdáenda í Vínarborg, en áhugi á verkum hans jókst mjög á áratugunum eftir dauða hans. Felix Mendelssohn, Robert Schumann, Franz Liszt, Johannes Brahms og fleiri 19. aldar tónskáld uppgötvuðu og studdu verk hans. Í dag er Schubert í hópi merkustu tónskálda í sögu vestrænnar tónlistar og verk hans eru enn dáð.

Add Your Heading Text Here