Tónskáld desember mánaðar er Giacomo Puccini

Tónskáld Mánaðarins

Tónskáld desember mánaðar er Giacomo Puccini.
Puccini sem hét fullu nafni Giacomo Antonio Domenico Michele Secondo Maria Puccini, fæddist í borginni Lucca á Ítalíu árið 1858. Hann var sjötti af níu börnum Michele Puccini (1813–1864) og Albinu Magi (1830–1884). Puccini fjölskyldan var af þekktri tónlistarfjölskyldu í Lucca en langalangafi Puccini og nafni, Giacomo Puccini (1712–1781) var tónlistarstjóri í dómkirkju heilags Martino í Lucca. Meðlimir Puccini fjölskyldunnar lærðu tónlist í Bologna og sumir sóttu framhaldsnám til Mílanó og víðsvegar um heiminn.

Þar sem Puccini fjölskyldan hafði mann fram af manni gegnt stöðu tónlistarstjóra dómkirkjunnar í 124 ár (1740–1864) var búist við að Giacomo myndi einnig gegna þeirri stöðu þegar hann yrði nógu gamall. G. Puccini var aðeins sex ára þegar faðir hans dó árið 1864 og því ekki með aldur til að taka við starfi föður síns. Sem barn tók hann engu að síður þátt í tónlistarlífi í dómkirkjunni, sem meðlimur í drengjakórnum og síðar sem organisti í afleysingum.

Puccini fékk almenna menntun við prestaskólann í San Michele í Lucca og síðan við prestaskóla dómkirkjunnar. Hann lærði einnig tónlist hjá föðurbróður sínum en sótti síðar nám við tónlistarháskólann í Mílanó um þriggja ára skeið þar sem hann lærði tónsmíðar hjá Stefano Ronchetti-Monteviti, Amilcare Ponchielli og Antonio Bazzini.


Puccini er þekktastur fyrir óperurnar sem hann samdi. Óperan Manon Lescaut var frumsýnd í Torino á Ítalíu, 2. febrúar 1893;  með óperunni Manon Lescaut skapaði Puccini sér orðspor sem eitt efnilegasta rísandi tónskáld sinnar kynslóðar, og líklegasti arftaki Giuseppe Verdis sem leiðandi tónskálds ítalskrar óperuhefðar.  

La bohéme er ein þekktasta ópera Puccinis, fjögurra þátta ópera byggð á bók Henri Murger frá 1851, La Vie de Bohème. La bohème var frumsýnd í Torino árið 1896, undir stjórn Arturo Toscanini. Á örfáum árum hafði hún verið sýnd í mörgum af fremstu óperuhúsum Evrópu, þar á meðal í Bretlandi, sem og í Bandaríkjunum. Hún var vinsæl og er enn ein af mest fluttu óperum sem skrifaðar hafa verið. Samsetning Puccinis á La bohème var tilefni opinberrar deilna milli Puccini og tónskáldsins Ruggiero Leoncavallo. Snemma árs 1893 uppgötvuðu tónskáldin tvö að þau unnu bæði við að skrifa óperur eftir verkum Murgers. Leoncavallo hafði fyrst hafið verk sitt og hann og tónlistarútgefandi hans sagðist hafa „forgang“ varðandi efnið (þótt verk Murgers hafi verið í almenningseigu). Puccini svaraði því til að hann hafi hafið sitt eigið verk án þess að hafa nokkra þekkingu á verkefni Leoncavallo og skrifaði: „Leyfðu honum að semja. Ég mun semja. Áhorfendur munu dæma.“ Ópera Puccini var frumsýnd ári fyrr en ópera Leoncavallo, og hefur verið ævarandi uppáhald áheyrenda, en útgáfa Leoncavallo náði aldrei sömu vinsældum.

Toscu samdi Puccini árið 1900 en í óperunni má finna raunsæjar lýsingar á mörgum hliðum raunveruleikans. Puccini hafði verið að íhuga óperu um þetta stef frá því hann sá leikritið Toscu eftir Victorien Sardou árið 1889. Í Toscu má finna leiðandi tónlistarstef fyrir persónur og tilfinningar, og vildu margir meina að Puccini hefði þar með tileinkað sér nýjan tónlistarstíl undir áhrifum frá Richard Wagner.


Upprunalega útgáfan af óperunni Madam Butterfly var frumsýnd í La Scala óperunni 17. febrúar 1904 með Rosina Storchio í titilhlutverki. Árið 1907 gerði Puccini síðustu breytingar sínar á óperunni sem hefur orðið þekkt sem „staðlaða útgáfan“. Í dag er það sú útgáfa sem oftast er flutt um allan heim. Hins vegar er upprunalega útgáfan frá 1904 líka flutt af og til.

Puccini samdi La fanciulla del West árið 1910 en óperan var pöntuð og frumflutt í Metropolitan óperunni í New York 10. desember 1910 með MET stjörnunum Enrico Caruso og Emmy Destinn, en Puccini hafði raddir þeirra í huga þegar hann samdi óperuna.
Óperan La rondine var frumflutt í Grand Théâtre de Monte Carlo 27. mars 1917.

Árið 1918 var óperan Il trittico frumsýnd í New York. Þetta verk er samsett úr þremur einþátta óperum sem hver um sig fjallar um að leyna dauðanum.

Turandot, lokaópera Puccinis, var ókláruð við andlát tónskáldsins í nóvember 1924 og síðustu tvær senurnar skrifaði Franco Alfano eftir skissum tónskáldsins. Textinn fyrir Turandot var byggður á samnefndu leikriti eftir Carlo Gozzi. Tónlist óperunnar er með fimmtóna mótífum sem ætlað er að gefa tónlistinni asískan keim. Turandot inniheldur fjölda eftirminnilegra sjálfstæðra aría, þar á meðal heimsfrægu aríuna Nessun dorma.

Add Your Heading Text Here