Tónskáld desember mánaðar 2023 er Jórunn Viðar.

Tónskáld Mánaðarins

Jórunn Viðar fæddist í Reykjavík 7. desember 1918. Hún var eitt af merkustu tónskáldum Íslands á 20. öld.


Jórunn stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk þaðan námi 18 ára gömul árið 1936. Ári síðar eftir að hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík hélt hún til Þýskalands til Berlínar í framhaldsnám þar sem hún stundaði nám við Hochschule für Musik í tvö ár. Jórunn hélt heim og giftist Lárusi Fjeldsted. Síðar stundaði Jórunn nám í tónsmíðum við Juilliard tónlistarháskólann í New York eftir að þau hjónin fluttust til Bandaríkjanna og var hún samhliða í einkatímum í píanóleik.

Fljótlega eftir að Jórunn flutti heim frá Bandaríkjunum var hún fengin til að semja tónlist við kvikmynd Óskars Gíslasonar Síðasti bærinn í dalnum. Jórunn varð þar með fyrst íslenskra tónskálda til þess að semja tónlist við kvikmynd í fullri lengd en myndin var frumsýnd árið 1950. Kvikmyndin er ævintýri þar sem koma fram tröll, dvergar og álfar og átti það vel við þjóðlegan tónlistarstíl Jórunnar. Sama ár samdi Jórunn tónlist við ballettinn Eldur en hann var frumfluttur í Þjóðleikhúsinu 5. maí 1950. Þetta var fyrsti íslenski ballettinn. Síðar dvaldi Jórunn tvo vetur í Vínarborg við frekara píanónám.

Jórunn Viðar samdi fjölda verka t.d. sönglög, einleiksverk, kórverk, hljómsveitarverk, svítu og píanókonsertinn Sláttu sem hún samdi árið 1977. Tónsmíðar Jórunnar einkennast af þjóðlegum blæ, minna stundum á þjóðlög en sjálf útsetti hún mörg þeirra. Tónverk hennar eru sneisafull af myndmáli og Jórunn átti auðvelt með að flétta myndmálið í tónlistinni.

Jórunn Viðar var mikil fyrirmynd á margan hátt. Hún var lengi vel eina konan í Tónskáldafélagi Íslands. Hún lék píanókonserta með Sinfóníuhljómsveit Íslands og spilaði fjölda einleiks- og söngtónleika. Hún komst í heiðurslaunaflokk listamanna árið 1989 og árið 2004 hlaut hún heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna.

Jórunn Viðar lést árið 2017.

Heimild: www.ruv.is/frettir/menning-og-daegurmal auk greina á veraldarvefnum

Add Your Heading Text Here