Tónskáld apríl mánaðar 2023 er rússneska tónskáldið Sergei Prokofiev.

Tónskáld Mánaðarins

Sergei Prokofiev, var fæddur 15. apríl (sumar heimildir segja 27. apríl) árið 1891. Hann fæddist í Rússlandi og varð heimsfrægt tónskáld og hljómsveitarstjóri. Hann samdi fjölbreytta tónlist, bæði einleiksverk aðallega fyrir píanó, hljómsveitarverk, balletta og var talinn eitt merkasta tónskáld 20. aldarinnar. Tónverk hans eru m.a. hljómsveitarsvítan „Ást á þremur appelsínum“ (e. The love for three oranges), The Lieutenant Kijé, ballettinn Rómeo og Júlía og verkið Pétur og úlfurinn þar sem Prokofiev notar persónur og dýr til að túlka hvert sitt hljómsveitar hljóðfærið. 

Prokofiev samdi sjö fullgerðar óperur, sjö sinfóníur, átta balletta, fimm píanókonserta, tvo fiðlukonserta, sellókonsert og níu píanósónötur. 

Sergei Prokofiev útskrifaðist frá tónlistarháskólanum í Skt.Pétursborg. 
Árið 1915 hafði Sergei Diaghilev hjá rússneska ballettinum beðið Prokofiev um að semja ballet tónlist. Á þessum tíma hafði Prokofiev aðallega verið að semja píanótónlist en ákvað að slá til. Það var mikið heillaspor og í kjölfarið var hann beðinn um að semja tónlist við þrjá nýja balletta. Tónlistin vakti mikla hrifningu bæði hjá tónlistargagnrýnendum sem og kollegum úr tónlistarlífinu.  Prokofiev hafði líka mikinn áhuga á óperu forminu og samdi óperuna Ást fyrir þrjár appelsínur fyrir óperuna í Chicago. Hún varð ansi vinsæl og flutt bæði í Bandaríkjunum, Evrópu og þar af í heimalandi tónskáldsins, Rússlandi. 


Eftir byltinguna 1917 fékk Prokofiev leyfi sovéska alþýðuforingjans Anatoly Luncharsky til að yfirgefa Rússland og fluttist hann til Bandaríkjanna en var líka um skeið í Þýskalandi og síðar í París í Frakklandi. Hann starfaði allt sitt líf við tónlist sem tónskáld, píanóleikari og hljómsveitarstjóri. Hann eignaðist tvo syni með spænsku eiginkonu sinni Carolinu Codina. Á tímum kreppunnar var erfitt fyrir Prokofiev að lifa og starfa sem tónlistarmaður á erlendri grund svo hann sótti í auknum mæli aftur til heimalandsins þar sem hann átti eftir að semja sín þekktustu verk t.d. ævintýrið um Pétur og úlfinn ásamt fleiri stórum verkum. Innrás nasista í Rússland í seinni heimsstyrjöldinni varð hvati til þess að hann samdi sitt metnaðarfyllsta óperuverk Stríð og friður eftir samnefndri sögu Leos Tolstojs. 

Prokofiev lést 61 árs þann 5. mars 1953, sama dag og Jósef Stalín. Hann hafði búið nálægt Rauða torginu en fólksfjöldi safnaðist saman á torginu í þrjá daga til að minnast Stalín. Vegna mannmergðar varð erfitt að flytja lík Prokofievs til kirkju því bílar fengu ekki að aka nálægt torginu.

Add Your Heading Text Here