Tónskáld apríl mánaðar 2022 er Ferruccio Busoni

Tónskáld Mánaðarins

Ferruccio Busoni (01. apríl 1866 – 27. júlí 1924) var ítalskt tónskáld, píanóleikari, hljómsveitarstjóri, ritstjóri, rithöfundur og kennari. Alþjóðlegur ferill hans og orðspor leiddi til þess að hann vann náið með mörgum af fremstu tónlistarmönnum, bókmenntafræðingum og listamönnum samtímans auk þess sem Busoni var eftirsóttur píanókennari sem og kennari í tónsmíðum.

Busoni var frá unga aldri framúrskarandi píanóleikari en jafnframt umdeildur. Hann stundaði nám við tónlistarháskólann í Vínarborg og síðan hjá Wilhelm Mayer og Carl Reinecke. Hann kenndi um tíma í Helsinki í Finlandi, Boston í N.-Ameríku og Moskvu í Rússlandi en eftir það helgaði hann sig tónsmíðum og kom fram víða um heim sem heimsklassa píanóleikari auk þess sem hann sinnti áfram kennslu. Hann var áhrifamikill tónlistarskríbent og skrif hans fjölluðu ekki eingöngu um fagurfræði heldur líka um míkrótóna og annað nýstárlegt efni. Frá árinu 1894 hafði Busoni aðsetur í Berlín en dvaldi stóran hluta fyrri heimsstyrjaldarinnar í Sviss.

Til að byrja með samdi Busoni tónlist í síðrómantískum stíl, en eftir árið 1907, þegar hann gaf út „Sketch of a New Esthetic of Music“ þróaði hann með sér einstaklingsbundnari stíl. Ferðir hans til Ameríku leiddu til áhuga á norður-amerískum frumbyggjalaglínum sem endurspegluðust í sumum verka hans. Tónverk hans innihalda verk fyrir píanó, þar á meðal píanókonsert og umritanir á verkum annarra, einkum J. S. Bach – gefin út sem Bach-Busoni útgáfur. Busoni samdi einnig kammertónlist, söng- og hljómsveitarverk auk ópera.


Heimsfrægi píanóleikarinn Alfred Brendel sagði eitt sinn um leik Busonis að hann væri táknrænn fyrir djúpa íhugun hjá heimsklassa spilara eftir skrautflúrað tímabil tónskáldsins og píanóleikarans Franz Liszts. Ferruccio Busoni lést í Berlín 58 ára að aldri.

Add Your Heading Text Here