Tónskáld desember mánaðar er Ludvig van Beethoven.
Í ár er þess minnst að 250 ár eru liðin frá fæðingu tónskáldsins L. v Beethoven. Hann fæddist í Bonn í Þýskalandi, en nákvæm dagsetning er ekki vituð með vissu. Þó er talið að hann hafi verið skírður 17. desember 1770 og margir telja það einnig fæðingardag hans.
„Það var um skeið að ég vissi ekki hvað ég var gamall“ sagði Beethoven við Hr. Wegeler í maí árið 1810.
Faðir Beethovens var söngvari og byrjaði að kenna honum tónlist þegar hann var lítill. Hann lærði á píanó, fiðlu og franskt horn, og spilaði á orgel þegar hann var 12 ára. Á sama tíma komu út fyrstu tónverk hans. Christian Gottlob Neefe var einn af fyrstu kennurum Beethoven en hann lærði einnig hjá Mozart áður en hann flutti til Vínarborgar 1792. Þar lærði hann hjá Joseph Haydn og seinna hjá Antonio Salieri. Beethoven kom fyrst fram opinberlega sem píanóleikari í Vínarborg 25 ára gamall, árið 1795, við frumflutning eigin píanókonserts. Hann þótti snjall og innblásinn einleikari.
Beethoven átti marga vini en giftist aldrei. Ástarmál hans eru þó fræg og aðalefni kvikmyndarinnar Immortal Beloved frá árinu 1994. Heyrnin fór að gefa sig hjá honum árið 1802 þegar hann var 32 ára og hvarf alveg 1819. Beethoven hætti þó ekki strax að koma fram opinberlega en eyddi sífellt meiri tíma í tónsmíðar sínar. Hann bjó í þorpum nálægt Vínarborg og fór oft í langa göngutúra með vinnubók með sér til að skrifa niður tónlistarhugmyndir sínar. Fræðimenn sem rannsakað hafa vinnubækur Beethovens þykja þær bera þess merki að hann hafi lagt hart að sér við að fullkomna tónlist sína.
Ásamt því að missa heyrnina, þjáðist Beethoven af magaverkjum seinni hluta ævi sinnar. Beethoven skrifaði sjálfur bréf þar sem hann bað um að læknir, Dr. Schmidt, reyndi að finna út hvað væri að sér eftir dauða sinn, svo að heimurinn gæti sætt sig við óstýrilegt skap hans og þunglyndi. Segja má að þeirri bón hafi verið framfylgt nú nýlega, nærri tveimur öldum eftir dauða Beethovens, þegar rannsóknir á hári hans þóttu benda til að hann hafi þjáðst af blýeitrun. Það gæti skýrt sjúkleika hans þó ekki sé beint orsakasamband milli heyrnarmissis og eitrunarinnar, og gæti hafa átt þátt í dauða hans. Sagt er að 10.000 manns hafi mætt í jarðarförina hans í Vínarborg.
Eftir Beethoven liggja 138 verk, þar af eru 9 sinfóníur, óperurnar Fidelio og Leonora, sjö píanókonsertar, fiðlukonsert, píanósónötur, sjö píanótríó, fiðlusónötur, sellósónötur, hornsónata, strengjakvartettar, variationir og fjöldi annarra tónverka. Of langt mál væri að telja upp hans frægustu verk, svo mörg eru þau. Beethoven var mjög áhrifamikið tónskáld og mögulega fyrsti viðurkenndi „tónsnillingurinn“ af samtíma sínum í sögunni. Hann eignaði ekki tónlist sína aðlinum, sem þó styrkti hann, heldur öllum almenningi sem dáði hann, þótt hann teldist frumlegur og framsækinn miðað við það sem vinsælt var í hans tíð.