Listmálarinn og dægurlagahöfundurinn Tólfti september er tónlistarmaður september mánaðar 2024.

Tónskáld Mánaðarins

Hann heitir réttu nafni Freymóður Jóhannsson (12.09.1895 – 03.03.1973) en varð þekktur undir listamannsnafninu Tólfti september. Sagt var að hann hefði notað listamannsnafnið fyrst þegar hann tók þátt í Danslagakeppni SKT sem haldin var um árabil á vegum Góðtemplara.

Freymóður fæddist á bænum Stærri-Árskógi á Árskógsströnd. Hann lauk gagnfræðaprófi á Akureyri og stundaði málaraiðn og síðar listmálun sem leiddi hann til Danmerkur í framhaldsnám. Hann lærði leiktjaldagerð við Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn og átti síðar eftir að verða fyrsti sérmenntaði leiktjaldamálari Leikfélags Reykjavíkur. Freymóður lærði líka listmálun á Ítalíu og starfaði sem listmálari um árabil í Danmörku. Eftir að hann fluttist heim starfaði hann á Hagstofunni í Reykjavík en stundaði alltaf listmálun samhliða skrifstofustörfunum.

Freymóður samdi fjölda laga og texta sem nutu gífurlegra vinsælda. Laglínurnar voru margar hverjar mjög grípandi og lifa góðu lífi enn í dag. Meðal þekktustu laga hans má nefna: Litli tónlistarmaðurinn, Frostrósir og Draumur fangans. Vinsælustu dægurlagasöngvarar landsins voru oftar en ekki fengnir til að flytja lögin hans og má finna þau meðal annars á plötum systkinanna Ellýjar og Vilhjálms Vilhjálmsbarna.

Danslagakeppni SKT varð mjög vinsæl og var í raun undanfari íslenskra lagakeppna og sambærileg í vinsældum eins og Júróvision keppnir í dag, en íslenskir tónlistarmenn sendu inn lög í keppnina og var keppt í tveimur flokkum. Textahöfundar sendu auk þess ljóð sín í sér keppni. Keppnunum var oftast útvarpað og þannig heyrði fólk lögin sem kepptu um hylli dómara auk þess sem Góðtemplarar héldu reglulega vinsæla dansleiki þar sem helstu tónlistarmenn landsins fluttu nýju lögin. Freymóður hafði starfað við keppnina frá upphafi og verið einn af þeim aðilum sem stofnuðu hana. Eftir stríð fór áhugi á keppninni að dala og færri sendu inn lög heldur en fyrri ár. Sagan segir að Freymóður hafi þá sjálfur sent inn lög í keppnina og notað listamannsnafnið Tólfti september. Lög þessa frábæra dægurlagahöfundar komust oft í úrslit en þátttaka hans í keppninni átti eftir að valda deilum sem og skipulag Góðtemplara á keppninni. Deilurnar rötuðu í fjölmiðla og keppnin var ekki haldin í amk. tvö ár.  

Þekkir þú lögin eftir Tólfta september? 😉

Add Your Heading Text Here