Friðrik Dór Jónsson söngvari og lagahöfundur fæddist 7. október 1988. Hann er Hafnfirðingur í húð og hár! Friðrik Dór eins og hann er alltaf kallaður kemur úr stórum systkinahóp og er m.a. bróðir Jóns Jónssonar tónlistarmanns. Hann á mörg þekkt dægurlög sem hafa hljómað á öldum ljósvakans síðustu ár.
Friðrik Dór stundaði nám við Verslunarskóla Íslands að loknum grunnskóla og var áberandi í félagslífi skólans. Strax á fyrsta ári í Versló söng hann Welcome to the Jungle eftir meðlimi hljómsveitarinnar Gun´s and Roses í uppfærslu nemendafélagsins. Í kjölfarið tók hann þátt í fleiri uppfærslum Versló m.a. í söngleiknum Á tjá og tundri. Friðrik Dór var einnig liðtækur í Morfískeppni framhaldsskólanna og keppti þar fyrir hönd Versló auk þess sem hann kom að fjölda verkefna á vegum nemendafélagsins.
Í grunnskóla stofnaði Friðrik Dór hljómsveitina Fendrix ásamt félögum sínum úr Hafnarfirði og var trommuleikari sveitarinnar. Hljómsveitin tók þátt í Músíktilraunum og komst í úrslit en náði ekki sigri. Það var svo eftir menntaskóla sem hann hóf sólóferil og hefur verið einn vinsælasti popsöngvari landsins.
Friðrik Dór sló fyrst í gegn árið 2009 með laginu Hlið við hlið en lagið naut mikilla vinsælda og náði öðru sæti á Íslenska listanum á útvarpsstöðinni FM957 og var m.a. notað í kvikmyndinni Bjarnfreðarson. Friðrik hefur verið í samstarfi við Steinda Jr. og Erp Eyvindarson sem og Ásgeir Orra í mörgum verkefnum og átt með þeim vinsæl lög. Friðrik Dór átti þrjú lög á topp 20 lista síðunnar tonlist.is árið 2010 auk þess sem Allt sem þú átt var í þriðja sæti yfir mest seldu plötur síðunnar.
Friðrik Dór hefur sungið inn á fjölda platna og árið 2015 tók hann á eftirminnanlegan hátt þátt í Söngvakeppni sjónvarpsins með laginu Í síðasta skipti sem endaði í öðru sæti keppninnar. Lagið hefur alla tíð síðan átt mikilli velgengni að fagna. Hann flutti auk annarra lokalagið í Áramótaskaupinu árið 2020. Frá árinu 2023 hefur hann verið meðlimur strákahljómsveitarinnar IceGuys og njóta þeir mikilla vinsælda.
(Heimildir: https://is.wikipedia.org/wiki/Friðrik_Dór; Bókasafn Verslunarskóla Íslands).