„Hafliði er meðal fremstu tónskálda Íslands og er tónverkaskrá hans ein sú viðamesta og glæsilegasta sem íslenskt tónskáld getur státað af. Hann hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín, m.a. Tónskáldaverðlaun Norðurlandaráðs sem hann hlaut fyrir fiðlukonsertinn Poemi árið 1986. Hafliði hefur samið tónlist fyrir hljómsveitir og einleikara í fremstu röð, og má nefna norska sellóleikarann Truls Mörk og skoska slagverkssnillinginn Evelyn Glennie. Stærstu verk Hafliða, óratórían Passía og óperan Die Wält der Zwischenfälle hafa hlotið einróma lof gagnrýnenda helstu tónlistartímarita og dagblaða.“ (tekið af vef Sinfóníuhljómsveitar Íslands: https://www.sinfonia.is/frettir/nr/606)
Hafliði hefur átt óvenjulega fjölbreyttan og viðburðaríkan feril bæði sem sellóleikari og tónskáld. Hann lauk burtfararprófi í sellóleik frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1962 og fimm árum síðar lokaprófi frá Royal Academy of Music í London þar sem hann debúteraði í Wigmore Hall með einleikstónleikum árið 1971.
Árið 1967 bauðst honum staða í Haydn strengjatríóinu og varð hann fljótlega upp frá því eftirsóttur sem þátttakandi í vel þekktum kammerhópum og kammerhljómsveitum Lundúna, m.a. English Chamber Orchestra, Menuhin Festival Orchestra og Monteverdi Orchestra.
Hafliði hefur allan sinn feril tekið þátt í flutningi á nýrri tónlist og var um árabil meðlimur í New Music Group of Scotland og Icelandic Canadian Ensemble. Frá árinu 1982 hefur Hafliði helgað sig svo til eingöngu tónsmíðum sem hann hafði stundað meðfram sellóleiknum allt frá unglingsárum. Hafliði stundaði nám í tónsmíðum hjá Elizabeth Luthyens, Dr. Alan Bush og Sir Peter Maxwell Davies. Tónsmíðar hans hafa verið leiknar víða um heim og eru þær nú ríflega hundrað talsins.
Hafliði hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir tónverk sín, m.a. fyrstu verðlaun í alþjóðlegu Viotti-tónlistarkeppninni á Ítalíu og önnur verðlaun í Wieniawsky-keppninni í Póllandi. Þá hlaut hann Tónskáldaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1986 fyrir fiðlukonsertinn Poemi.
Hafliði hefur í tvígang verið staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Til gamans má geta þess að árið 1970 lék Hafliði selló sólóið í “Atom Heart Mother“ eftir hljómsveitarmeðlimi Pink Floyd.