Ennio Morricone var ítalskt tónskáld, hljómsveitarstjóri og trompetleikari fæddist 10. nóvember 1928 og lést í sumar 6. júlí 2020. Ennio Morricone er talinn eitt fjölhæfasta, fjölbreyttasta og ekki síst tilraunagjarnasta tónskáld allra tíma. Hann samdi yfir 500 tónverk fyrir kvikmyndir og sjónvarp sem urðu heimsfræg auk þess samdi hann yfir 100 klassísk tónverk. Um 70 kvikmyndanna sem Morricone samdi tónlist fyrir unnu til verðlauna. Hann samdi tónlist við allar kvikmyndir ítalska leikstjórans Sergio Leone (frá myndinni Per un pugno di dollari) og allar kvikmyndir ítalska leikstjórans Giuseppe Tornatore frá og með Óskarsverðlaunamyndinni Nuovo Cinema Paradiso. Morricone vann í fyrsta skipti til Óskarsverðlauna árið 2015 fyrir bestu tónlist í kvikmynd fyrir tónlist sína í myndinni The Hateful Eight eftir leikstjórann Quentin Tarantino. Hann varð þar með elsti maðurinn sem hefur nokkurn tímann unnið til Óskarsverðlauna.
Ennio Morricone lék á trompet í djasshljómsveitum á fimmta áratugnum en gerðist umsjónarmaður hljóðvers í eigu fyrirtækisins RCA Records og byrjaði að semja tónlist fyrir kvikmyndir og leikhús. Frá 1960 til 1975 varð Morricone heimsfrægur fyrir tónlist sína í spaghettivestrum. Þeirra frægust var tónlistin í kvikmyndinni The Good, The Bad and The Ugly (Il buono, il brutto, il cattivo) frá 1966 en hún hefur verið talin með frægustu kvikmyndatónlist allra tíma. Plötur Morricones með kvikmyndatónlist hafa selst í bílförmum og notið ótvíræðrar heimsfrægðar. Platan með tónlist úr myndinni Once Upon a Time in the West (C´era una volta il West) frá árinu 1968 seldist til að mynda í yfir 10 milljónum eintaka og er með söluhæstu kvikmyndatónlist á heimsvísu.
Morricone starfaði með helstu kvikmyndaleikstjórum í heiminum. Tónlist hans fyrir myndina The Mission (1986) hlaut gullverðlaun bandarísku hljóðritunarsamtakanna Recording Industry Association of America og hljómplatan Yo-Yo-Ma plays Ennio Morricone var 105 vikur á topplista Billboard fyrir klassíska tónlist. Ennio Morricone samdi opnunartónlist fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu árið 1978 og áfram samdi hann tónlist við stórmyndir næstu áratugina auk tónlist fyrir sjónvarpsþætti, en hann kom á fót upptökuverinu Forum Music Village ásamt fleirum. Árið 1971 hlaut Morricone kvikmyndaverðlaunin Targa d’Oro fyrir að hafa selt um 22 milljónir platna á heimsvísu. Morricone hlaut heiðursverðlaun Óskarsverðlaunanefndarinnar árið 2007 fyrir „stórkostleg og fjölbreytt framlög til kvikmyndatónlistar“. Hann hafði sex sinnum verið tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir kvikmyndatónlist áður en honum hlotnuðust verðlaunin. Hann vann einnig þrenn Grammy verðlaun, þrenn Golden Globe verðlaun, sex BAFTA verðlaun, 10 David di Donatello verðlaun, 11 Nastro d´Argento verðlaun, tvenn evrópsk kvikmyndaverðlaun, heiðursverðlaun á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum auk sænsku Polarpris verðlaunanna.