NÓTAN – uppskeruhátíð tónlistarskóla fer fram næstu helgi á fimm svæðistónleikum. Tónlistarskólar landsins eru um 80 talsins og um 14.000 nemendur stunda nám innan tónlistarskólakerfisins. Tilgangur uppskeruhátíðarinnar er að beina kastljósinu að samfélagi tónlistarskóla og tónlistarnemenda.
NÓTAN – uppskeruhátíð tónlistarskóla var fyrst haldin skólaárið 2009-2010 og er árlegur viðburður í kerfi tónlistarskóla á Íslandi. Að Nótunni standa Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum og Samtök tónlistarskólastjóra. Hátíðin er í senn faglega hvetjandi og skemmtilegt innlegg í skólastarfið fyrir alla aðstandendur skólanna jafnt innan veggja þeirra sem utan. Síðustu tvö ár hefur ekki verið unnt að halda þessar uppskeruhátíðir með hefðbundnu sniði og er afar ánægjulegt að geta komið saman á ný og notið afraksturs skólastarfsins, á sama tíma og við vonandi kveðjum Covid-19 fyrir fullt og allt. Árið 2020 þurfti að fresta 10 ára afmælishátíð Nótunnar vegna Covid-19 og í fyrra fór fram Net-Nótan þar sem tónlistarskólar sendu inn myndbönd sem saman mynduðu sjónvarpsþætti á N4.
Við hvetjum sem flesta til að koma í Salinn á sunnudaginn, taka þátt í þessari miklu hátíð og hlusta á okkar mann, Ingabjörn Natan Guðmundsson (sem leikur á tónleikunum kl.13) ásamt fleirum frábærum tónlistarnemum.