Skólareglur

 1. Nemendum ber að mæta stundvíslega í kennslustundir sínar, hóptíma, hljóðfæratíma sem og hljómsveitartíma.  Fjarvistir og ástæður fyrir þeim skulu tilkynntar á skrifstofutíma samdægurs.
  Röksemdir fyrir stundvísi og góðri tímasókn eru þær, að nemandi sem mætir illa getur misst samhengið í náminu, á erfiðara með að fylgjast með og gæti að síðustu gefist upp í náminu.  Einnig kemur stopul tímasókn í veg fyrir eðlilegar framfarir í hljóðfæraleik og um leið dvínar áhuginn.  Þetta er margreyndur sannleikur.
  Skólinn gefur ekki leyfi úr kennslustundum ef ástæður sem gefnar eru upp þykja veigalitlar.  Ef óskað er leyfis úr kennslustundum skal biðja um það með góðum fyrirvara  og eru þá ástæður metnar af kennara hverju sinni.
  Ef tímasókn er mjög slæm og fjarvistir samtals orðnar um eða yfir 30% miðað við tiltekið tímabil (t.d. önn) áskilur skólinn sér rétt til að láta nemandann hætta námi að undangenginni viðvörun.
 2. Ef kennari veikist og tími fellur niður er alltaf reynt að ná sambandi við  heimili nemenda (eða vinnustað foreldra) til að koma í veg fyrir óþarfa ferð nemandans.  Í flestum tilfellum tekst þetta en þó getur orðið misbrestur á því að það náist í foreldra (eða börn) í síma.
  Ef kennari er veikur í tvo tíma eða lengur er reynt að útvega forfallakennara.  Á það skal hins vegar bent að kennarar eins og aðrir launþegar hafa sinn veikindarétt.
  Það skal skýrt tekið fram að skólinn endurgreiðir ekki hlutfallslega af skólagjaldi vegna kennslustunda sem falla niður vegna veikinda kennara.  Skólanum er heldur ekki skylt að bæta upp tímatap vegna veikinda nemanda.
 3. Foreldrar sem hafa á leigu hljóðfæri hjá Tónmenntaskólanum vegna barna sinna gera leigusamning við skólann.  Athygli er vakin á því að hljóðfærin eru ekki tryggð af skólans hálfu. (Sjá nánar í hljóðfæraleigusamningi.)  Aðstandendum ber að sjá til þess að nemendur fari vel með hljóðfærið heima og láti það alltaf í kassann þegar æfingum er lokið.  Geymið hljóðfærið þar sem aðrir hafa ekki aðgang að því.
  Þegar nemandi hefur lært í nokkur ár á hljóðfæri (t.d. 3 – 4 ár) og sýnt er að hann sé líklegur til að halda sínu striki er eðlilegt að hann eignist eigið hljóðfæri.  Aðrir nemendur geta þá notið leiguhljóðfærisins.  Þetta er þó samkomulagsatriði.
 4. Brýnið fyrir börnum ykkar að sýna fyllstu aðgát vegna bílaumferðar.
  Í Tónmenntaskólanum er kennt í þremur aðskildum húsum:  Lindargötu 51 (aðalhúsinu) og í tveimur bakhúsum á lóð skólans.  Oft þurfa nemendur að skreppa milli húsa, t.d. til að fara úr hóptíma í hljóðfæratíma.  
 5. Sú venja ríkir að nemendur fara úr skóm við inngang kennsluhúsa.  (Niðri í kjallara í aðalhúsinu.)
  Yfirhafnir skulu hengdar á snaga.  Gott er að merkja yfirhafnir og skófatnað.  Það skal tekið fram að skólinn er ekki tryggður fyrir því ef fatnaði eða skóm er stolið.
  Brýnið fyrir börnum að geyma aldrei verðmæti s.s. peninga eða strætómiða í vösum yfirhafna.  Skólinn heldur til haga óskilamunum (húfum, vettlingum og fleiru) svo og bókum og nótum sem nemendur hafa gleymt.  Skrifstofan gefur upplýsingar um óskilamuni.
 6. Í öllum kennsluhúsum Tónmenntaskólans er biðaðstaða fyrir nemendur; í aðalhúsinu er sérstök biðstofa.
  Á biðstofum er lestrarefni til að skoða og lesa fyrir nemendur á öllum aldri.  Ætlast er til að nemendur gangi vel um biðaðstöðuna og skili bókum aftur í hillu að lokinni notkun.
 7. Ætli nemandi að koma fram utan skólans (t.d. á skólaskemmtunum) ætti hann að láta kennara sinn vita með góðum fyrirvara.
  Þessi regla skal í heiðri höfð, ekki vegna þess að Tónmenntaskólinn vilji koma í veg fyrir spilamennsku nemandans, þvert á móti, heldur eingöngu til þess að kennarinn geti fylgst með ferli nemanda síns og tryggt að það sem hann spilar annars staðar sé vel æft og frambærilegt.
 8. Komið hafa upp hegðunarvandkvæði með einstaka nemendur, aðallega í hóptímum og hljómsveitartímum.
  Skólinn áskilur sér rétt til að taka á slíkum málum í góðri samvinnu við foreldra.
 9. Þegar óveður geisar í borginni (stórhríð, mikið hvassviðri) er oft hringt og spurt hvort kennsla falli niður. Tónmenntaskólinn heldur sig við sömu reglur og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hefur sett sér;  að skólahald falli ekki niður, en foreldrum sé í sjálfsvald sett hvort þeir sendi börn sín í skólann eða ekki.
 10. Foreldrar sem aka börnum sínum í skólann eru beðnir að aka varlega um lóð skólans.
  Ábendingar um akstur eru gefnar með umferðarmerkjum (örvum á malbiki og skiltum).  Akið hægt og varlega.
  Það eru eindregin tilmæli að bílar sem bíða séu ekki í lausagangi svo að mengun berist ekki inn í kennslustofur.  Einnig er mælst til þess að bílflautan sé ekki notuð.
 11. Tónmenntaskóli Reykjavíkur er reyklaus vinnustaður. 
  Algert reykingabann ríkir í öllum húsakynnum skólans að meðtöldum vistarverum kennara og húsvarðar svo og á skólalóð.
 12. Notkun GSM síma í skólastofum er óheimil.