Skipulagsskrá Tónmenntaskóla Reykjavíkur

1. gr.

Skólinn var stofnaður haustið 1952 af Dr. Heinz Edelstein og hlaut þá nafnið Barnamúsíkskólinn.  Hann naut styrkja frá Reykjavíkurborg frá upphafi.  Síðar hlaut hann styrki skv. lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla frá 23. maí 1975 með síðari breytingum á þeim lögum, m.a. frá 14. júlí 1985.
Breytt var um nafn á skólanum árið 1977 og heitir hann nú Tónmenntaskóli Reykjavíkur og er hann til heimilis að Lindargötu 51.

2. gr.

Tónmenntaskóli Reykjavíkur er sjálfseignarstofnun.  Heimili og varnarþing er í Reykjavík.

 3. gr.

Skólinn er fjármagnaður með styrkjum frá Reykjavíkurborg í samræmi við þjónustusamning sem skólinn gerir við Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar og nær sá styrkur yfir kennslukostnað skólans.  Annar rekstrarkostnaður skólans fjármagnast af skólagjöldum. Skólastjóri ber ábyrgð á fjármálum skólans.  Hann skal gera fjárhagsáætlun á hverju ári og vera tilbúinn að skila inn til Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar sé eftir því kallað.

Skólastjóri skal fyrir 1. júlí ár hvert gera kennsluáætlun næsta skólaárs (skóladagatal).  Skal áætlun þessi lögð fyrir skólanefnd til samþykkis.

 4.gr.

Markmið skólans er að veita almenna tónlistarfræðslu og stuðla þar með að eflingu tónlistarlífs í Reykjavík.
Þessum markmiðum hyggst skólinn ná með því:

  • að annast kennslu á sem flest hljóðfæri skv. námskrá útg. af Mennta – og menntamálaráðuneytinu
  • að annast kennslu í tónfræðagreinum við hæfi, aldri og þroska nemenda og skv.  námskrá útg. af menntamálaráðuneytinu
  • að búa nemendum fjölbreytt skilyrði til að þroska tónlistarhæfileika sína og sköpunargáfu
  • að leggja áherslu á félagslegt gildi tónlistariðkunar með þátttöku sem flestra nemenda í samspili (kammermúsík) og ýmiss konar hljómsveitarstarfi
  • að búa nemendur undir áframhaldandi nám í tónlist

5. gr.

Nemendur í skólanum skulu að meirihluta til vera á grunnskólaaldri.  Þó verði hægt að starfrækja tónlistarnámskeið fyrir börn á aldrinum 3 – 5 ára og einnig tónlistarkennslu eldri nemenda í einstaka tilfellum.

6. gr.

Skólinn semur skólanámskrá þar sem fjallað er um skilgreind hlutverk og markmið skólans, námskipan, námsefni og kennsluáætlanir, námskröfur og heimavinnu, próf og námsmat, samvinnu við foreldra, ýmsar hagnýtar upplýsingar og skólareglur.
Skólanámskrá er endurskoðuð á 3 – 4 ára fresti til að endurspegla og uppfæra breytingar í skipulagi, kennslutilhögun og fleiri þáttum.

7. gr.

Starfstími skólans er frá ágústlokum til lok maímánaðar, í samræmi við kjarasamninga.  Leyfi á starfstímanum falla að mestu saman við leyfi í grunnskólum borgarinnar.

8. gr.

Ekki er krafist inntökuprófs í skólann að öðru jöfnu en skólinn áskilur sér rétt til að setja á inntökupróf ef ytri skilyrði kalla á það.
Skólinn áskilur sér rétt til að víkja nemanda úr skólanum ef kennari og / eða skólastjóri telja hann ekki sýna þá hæfni eða ástundun sem þeir telja nauðsynlega til árangurs eða ef skólareglur hafa verið ítrekað brotnar.

9. gr.

Nemendur skulu taka þátt í tónleikum og á músíkfundum skólans eftir tilmælum skólastjóra og / eða kennara.  Nemendur skulu ekki koma fram opinberlega utan skólans nema með samþykki kennara / skólastjóra.

10. gr.

Skólanefnd skipa þrír menn og einn til vara.  Hún skiptir með sér verkum.  Skólastjóri skal sitja fundi skólanefndar.  Heimilt er að kennarar skólans tilnefni einn fulltrúa úr hópi fastráðinna kennara til að sitja skólanefndarfundi með málfrelsi og tillögurétt og skal hann bundinn sömu trúnaðarskyldum og stjórnarmenn.  Sama gildir um fulltrúa foreldra og fulltrúa frá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar.

11.gr.

Skólanefnd fer með yfirstjórn skólans.  Skólanefnd ræður skólastjóra að undangenginni auglýsingu um starfið.
Skólastjóri ræður kennara og aðra starfsmenn í samráði við skólanefnd.

12. gr.

Skólastjóri fer með daglega stjórnun í umboði skólanefndar.  Hann ber ábyrgð á að skólastarfið sé í samræmi við skipulagsskrá þessa svo og í samræmi við skólanámskrá skólans.
Skólastjóri kemur fram fyrir hönd skólans gagnvart starfsmönnum, nemendum og foreldrum þeirra svo og aðilum utan skólans.