Samvinna við foreldra

Tónmenntaskólinn óskar samstarfs við foreldra nemenda, svo að skólanum takist sem best að ná þeim markmiðum sem hann keppir að í starfi sínu.  Til að samvinna við foreldra verði sem best gerir skólinn eftirfarandi ráðstafanir:

Foreldrafélag Tónmenntaskólans var stofnað árið 2018 en það er mikilvægur hluti af starfi skólans sem og nauðsynleg tenging milli skólans og heimila. Það er vettangur fyrir foreldra til að hittast, koma sínum skoðunum á framfæri og auðga skólastarfið á ýmsan máta fyrir nemendur. Aðalfundur félagsins er haldin að hausti. Stjórn félagsins er skipuð 5 foreldrum og er kjörin til eins árs í senn. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum að loknum aðalfundi og velur í embætti: Formanns, gjaldkera,  ritara og tveir meðstjórnendur.

Lög foreldrafélagsins
Netfang félagsins er:
foreldrafelag@tonmenntaskoli.is

Tvö til þrjú frétta- og upplýsingabréf á ári eru send í tölvupósti til foreldra.  Þar er að finna ýmsar upplýsingar og dagsetningar sem eru breytilegar frá ári til árs og eiga því ekki heima í skólanámskrá.  Hér er t.d. átt við dagsetningar varðandi skólárið, frídaga, upplýsingar um tónleika, viðtalstíma kennara, bréf vegna heimavinnu nemenda og fleira.  Auk þess eru foreldrum sendur póstur um ýmis málefni sem varðar skólann svo og  vegna tónleika, innritunar að vori og um upphaf skólaársins að hausti.

Hópkennarar Tónmenntaskólans hafa viðtalstíma sem foreldrar eru beðnir um að notfæra sér, sérstaklega ef þeim finnst einhver vandamál steðja að og námið ekki ganga nógu vel eða ef vart verður við námsleiða.  Ef brugðist er nógu hratt við, má oft leysa slík mál áður en þau verða að raunverulegum vandamálum; en að sjálfsögðu geta foreldrar haft samband við hópkennara til að fá fréttir af námi barnsins og hvernig því vegnar.  Ef foreldrar vilja hafa samband við hljóðfærakennara eru þeir beðnir um að hringja á skrifstofutíma.  Ritari tekur þá að sér að koma skilaboðum til viðkomandi hljóðfærakennara og mun hljóðfærakennarinn þá hringja við fyrsta tækifæri.  Foreldrar eru beðnir um að hringja ekki í heimasíma kennara.  Viðtalstími skólastjóra fer eftir samkomulagi.

Foreldrum er boðið að koma í kennslustundir hjá hóp- og hljóðfærakennurum.  Þetta á við um yngri nemendur, í forskóla og upp í annan bekk.  Í forskóla er gert ráð fyrir að foreldrar komi í nóvember, og er foreldrum þriggja til fjögurra barna gjarnan boðið að koma í einu.  Þeir fylgjast með í tímunum, taka jafnvel sjálfir þátt og hafa tíma til að ræða við kennarann að kennslustund lokinni.  Foreldraheimsóknir í hóptíma 1. og 2. bekkjar eiga sér stað í janúar eða febrúar.

Foreldrum nemenda er einnig boðið að heimsækja hljóðfærakennslustundir barna sinna, a.m.k. tvisvar á ári.  Líkt og í hópkennslunni er það kennarinn sem hefur frumkvæðið og gefur hann foreldrum upp hvenær heimsóknartími getur orðið.

Burtséð frá þessum fáu skiptum sem skólinn óskar eftir heimsóknum frá foreldri er foreldrum að sjálfsögðu heimilt að sýna frumkvæði og heimsækja aftur eina til tvær kennslustundir yfir veturinn eða eftir nánara samkomulagi.

Foreldrum er gefinn kostur á að koma á tilteknar “opnar“ æfingar strengja- og blásarasveita.  Á þessum æfingum má kynnast því hvernig unnið er með stóra hljóðfærahópa.  Þetta er tilkynnt sérstaklega með bréfi sem sent er heim með nemendum.

Heimavinna er kynnt með sérstökum bréflegum upplýsingum frá hljóðfærakennurum til foreldra.  Þar er fjallað um það hvernig foreldrar geta stutt við heimaæfingar á hljóðfærið.  Mikilvægt er að foreldrar lesi þessi bréf vel og nýti sér þær upplýsingar sem þar er að finna.  Hljóðfærakennarar nota einnig æfingardagbækur sem eru afhentar nemendum.  Þar eru skráð verkefni sem verið er að vinna að í hverri viku, æfingatími o.fl.  Skilaboð til foreldra eru einnig skráð í þessa bók.

Að lokum skal ítrekað að beint samband kennara og foreldra er æskilegt og ekki bara þegar eitthvað fer úrskeiðis eða einhverju er ábótavant.