Tónleikar og samspil

Á hverjum vetri eru haldnir um 30 tónleikar á vegum Tónmenntaskólans.  Þó þessir viðburðir séu ekki metnir formlega má þarna heyra og sjá og þannig meta, vinnu og færni einstakra nemenda, sem og framfarir þeirra miðað við fyrri tónleika.  Stefnt er að því að hver nemandi komi fram á tónleikum minnst tvisvar á vetri.

Sama gildir um samspilstónleika;  þar má meta árangur í starfi hljómsveita og annarra samspilshópa.

Skipulagðir tónleikar á vegum skólans eru sem hér segir:

  • Hausttónleikar sem haldnir eru yfir tvær helgar í nóvember.  Þar koma fram allir nemendur skólans sem læra á hljóðfæri.
  • Jólatónleikar í desember sem eru venjulega haldnir í kirkju.
  • Forskólatónleikar sem haldnir eru í febrúar fyrir hvern nemendahóp í Forskóla II.   Á þessum tónleikum flytja nemendur yfirleitt tónverk sem þeir hafa sjálfir samið.  Auk þess eru öll hljóðfæri sem kennt er á í skólanum kynnt af eldri nemendum.  Það er gert í þeim tilgangi að auðvelda nemendum val á hljóðfæri til að læra á að forskóla loknum.
  • Tematónleikar á seinna misseri.  Fyrir þessa tónleika er valið ákveðið stef eða tema sem allir sameinast um.  (Dæmi:  Tónlist eftir Mozart, íslensk tónlist eða danstónlist.)
  • Blandaðir tónleikar dreifast á mánuðina mars og apríl.  Þar er ýmsum hljóðfærum blandað á efnisskrá til að tryggja fjölbreytni.  Allir nemendur skólans koma fram á þessum tónleikum.
  • Samspil nemenda fer fram um það bil einu sinni í mánuði á sal skólans. Þetta samspil er eingöngu ætlað nemendum og kennurum.
  • Hljómsveitartónleikar: Strengjasveitartónleikar eru haldnir í samvinnu við Tónskóla Sigursveins a.m.k. tvisvar á ári.    Blásarasveitirnar eru starfræktar í samvinnu við Skólahljómsveit Austurbæjar og nemendur Tónmenntaskólans taka þátt í öllum þeirra viðburðum.
  • Opinberir vortónleikar skólans eru haldnir í byrjun maí utan skólans t.d. í Iðnó. Þar koma fram yngri og eldri nemendur í einleik og samspili og er fjölbreytni höfð að leiðarljósi.