Hljóðfæranám

Auk þess að taka þátt í tónleikum og samspili, sem hvort tveggja er metið óformlega, gangast nemendur í hljóðfæraleik undir formlegt póf (eða áfangapróf) þegar þeir hafa að mati kennara tileinkað sér þá þekkingu og færni sem krafist er í hljóðfæranámskrá viðkomandi hljóðfæris.  Það er misjafnt hversu fljótt nemendur geta tekið áfangapróf.  Almennt séð má þó segja að á neðri stigum geti nemandi tekið Forpróf I og II annað hvert ár,  en á efri stigum tekur yfirleitt lengri tíma að ná tökum á hverjum hluta.  Þetta er þó mjög misjafnt eftir hljóðfærum og einstaklingum.

Formleg hljóðfæraáfangapróf fara fram á ýmsum tímum skólaársins:  Í nóvember og febrúar á sérstökum prófdögum, á vorin í apríl og maí og að auki á ýmsum tímum þegar þurfa þykir og nemendur eru tilbúnir.  Í hljóðfæraleik miðast einkunnir og kröfur við það stig sem nemandi er að vinna að.

Vitnisburður fyrir áfangapróf er gefinn í tölum.  Í samræmi við aðalnámskrá er notaður 100 punkta kvarði með lágmarkseinkunn 60 auk skriflegrar umsagnar prófdómara.

Utanaðkomandi prófdómari sem Prófanefnd útvegar er ávallt fenginn til að dæma áfangapróf í Tónmenntaskólanum þegar um er að ræða Grunnpróf eða Miðpróf.  Skólinn útvegar sjálfur prófdómara fyrir Forpróf og Millipróf.  Það skal tekið fram að kostnaður vegna prófdómara sem er töluverður greiðist af skólanum.