Próf og námsmat

Mat í námi og kennslu er margslungið fyrirbæri.  Það felst ekki aðeins í formlegum prófum heldur fer það ekkert síður fram með óformlegum hætti.  Mat er heldur ekki framkvæmt eingöngu af kennurum eða prófdómurum heldur í rauninni af öllum þeim sem með einum eða öðrum hætti koma að starfi skólans.  Kennarar meta nemendur, nemendur meta kennara og kennsluna, foreldrar leggja mat á kennarana, kennsluna og skólann o.s.frv.  Samkvæmt þessu er því mat grundvallaratriði og snar þáttur í öllu starfi skólans og í þeirri ímynd sem skólinn hefur, inn á við og út á við.

Erfitt er að skilja alveg milli formlegs og óformlegs mats því segja má að óformlegt mat fari alltaf fram, jafnvel í formlegustu prófum eins og t.d. áfangaprófum.  Mat sem fæst með áfangaprófum og öðrum prófum, mat sem felst í vetrareinkunn, mat á vinnubókum og í vissum skilningi mat á frammistöðu nemenda á tónleikum, er formlegra en t.d. mat nemenda á kennurum, eða forráðamanna nemenda á skólanum almennt.

Almennt má segja að mat, formlegt jafnt sem óformlegt, sé nauðsynlegt fyrir aðstandendur nemenda þar sem þannig fást upplýsingar um nám barna og starfið í skólanum.  Fyrir kennara og skólayfirvöld er mat einn af grundvallarþáttum skólastarfsins.  Um námsmat eins og það snýr að nemendum segir í aðalnámskrá tónlistarskóla:

Megintilgangur námsmats er að bæta nám og kennslu.  Í því felst ekki síst að afla upplýsinga sem hjálpa nemendum við námið, örva þá og hvetja (bls. 30).

Ennfremur segir í aðalnámskrá um tilgang námsmats:

Námsmat á meðal annars að veita nemendum, foreldrum / forráðamönnum þeirra og kennurum upplýsingar um námsgengi nemenda, einkum frammistöðu, framfarir, ástundun og sókn að settum markmiðum.  Þá þarf námsmat að gefa vísbendingar um það hvort námsmarkmið hafi verið raunhæf og kennsluaðferðir við hæfi.  Enn fremur er mikilvægt að af námsmati sé unnt að draga ályktanir um það hvort skólastarfið sé í samræmi við námskrár og yfirlýst markmið skólans (bls. 30).

Námsmat í Tónmenntaskólanum leitast við að fullnægja öllum þessum þáttum aðalnámskrár.  Formlegri þættir námsmatsins felast meðal annars í áfangaprófum og vorprófum, einnig Miðsvetrarmati og Vormati þar sem m.a. kemur fram umsögn kennara um ástundun og árangur.  Frammistaða nemenda á tónleikum er ekki metin formlega en er eigi að síður þáttur í almennu mati á námi þeirra.  Óformlegt mat fer stöðugt fram í samskiptum nemenda og kennara sem og í öðru starfi skólans.

Aðalnámskrá tónlistarskóla mælir fyrir um þrjá megin námsáfanga í tónlistarnámi:  Grunnpróf, miðpróf og framhaldspróf.  Próf úr 4. eða 5. bekk Tónmenntaskólans mun þannig samsvara grunnprófi en útskrift úr 7. bekk skólans samsvarar miðprófi.  Að frátöldum þessum áfangaprófum gefur aðalnámskrá tónlistarskólum sjálfdæmi um það hvernig þeir haga prófum og námsmati.  Þar sem próf og undirbúningur fyrir þau hafa visst gildi í sjálfu sér mun Tónmenntaskólinn áfram halda sig við próf milli áfangaprófa með svipuðum hætti og verið hefur.  Er þar um að ræða Forpróf sem nemendur taka á undan Grunnprófi t.d. í lok 2. eða 3. námsárs, og Millipróf sem tekið er milli Grunn- og Miðprófs, t.d. í 5. eða 6. bekk. 

Þeir nemendur sem ekki fara í áfangapróf fara allir í vorpróf. 

Greinanámskrár mæla fyrir um yfirferð og skilgreina aðrar þær kröfur sem gerðar eru til kunnáttu og færni fyrir hvert hljóðfærastig.