Námskröfur – heimavinna

Hljóðfæranám byggir á heimavinnu nemandans, þ.e. á reglubundnum daglegum æfingum á hljóðfærið.  Góðar æfingavenjur lærast smám saman eins og annað.  Í þessu sambandi er stuðningur foreldra mjög mikilvægur, sérstaklega meðan nemendur eru ungir og óreyndir og hafa enn ekki tamið sér góð vinnubrögð.  Stuðningur foreldra þarf alls ekki að vera fagmannlegur; aðalatriðið er að foreldrar sýni áhuga á heimavinnu barnsins, séu jákvæðir og hvetjandi og beiti svolitlu aðhaldi með því að minna á æfingarnar og halda barninu við efnið.  Þegar daglegar æfingar nemandans eru orðnar að vana, t.d. hjá eldri nemendum, þarf minna aðhald.  Jákvæður áhugi og forvitni foreldra er þó alltaf nauðsynlegur.  

Erfitt er að tiltaka ákveðinn tíma sem nemendur ættu að verja til heimaæfinga á hljóðfærið;  þjálfun og nám tekur nemendur misjafnlega langan tíma.  Þó má segja sem reglu, að daglegur æfingatími átta ára byrjanda ætti ekki að vera skemmri en 30 mínútur (e.t.v. tvískiptur, 2 x 15 mínútur).  Þetta getur þó verið misjafnt eftir hljóðfærum;  nemandi á málmblásturshljóðfæri þolir t.d. ekki langan samfelldan æfingatíma.

Eins og áður segir byggja framfarir í hljóðfæraleik á reglubundinni þjálfun heima fyrir.  Mikilvægt er að foreldrar skapi börnum sínum viðunandi aðstöðu til þess að heimanám þeirra geti gengið ótruflað fyrir sig.

Hvað varðar heimanám fyrir hóptímana þá er tæplega um það að ræða fyrr en eftir 1. bekk (eftir átta til níu ára aldur).  Fram að því er flest það er lýtur að tónfræði unnið í sjálfum kennslustundunum.  Undantekning er þó nám á blokkflautu í Forskóla II;  nemendur verða að æfa lögin sín heima af samviskusemi.  Frá og með 2. bekk (annað hljóðfæraár) er eilítil heimavinna í tónfræði en kröfurnar eru mjög hógværar.  Þegar ofar dregur í aldri aukast kröfurnar í heimanáminu, en samt má segja að þær séu aldrei mjög miklar heldur frekar hógværar.  Mikilvægt er þó að nemendur temji sér góð vinnubrögð í þessu efni eins og í hljóðfæranáminu, þ.e. að vinna heimaverkefni vel og samviskusamlega og draga ekki fram á síðustu stundu að gera þeim skil.

Hópkennarinn tekur tónfræðabækur nemenda sinna tvisvar til þrisvar sinnum yfir veturinn og leiðréttir það sem leiðrétta þarf.  Nemendur eru þá oft beðnir um að læra tiltekið námsefni betur og að ljúka við verkefni sem þeir hafa sleppt úr.  Hópkennurum er gert að ganga eftir því að nemendur vinni vel og samviskusamlega þau verkefni sem þeir eiga að vinna.

Hljóðfærakennarar nemenda í 1. – 3. bekk afhenda nemendum sínum vinnubækur í tónfræði.  Nemendur vinna þessar verkefnabækur undir handleiðslu hljóðfærakennarans.  Sum verkefnin eru unnin í heimavinnu en önnur í hljóðfæratímunum.  Markmiðið með þessari vinnu er að styrkja þekkingu og skilning nemandans í tónfræðilegu tilliti og vinna hljóðfæra- og hópkennarar sameiginlega að því markmiði.