Samspil

Ýmiss konar samspil er snar þáttur í námi við Tónmenntaskólann. Fimm hljómsveitir eru starfræktar í samvinnu við Skólahljómsveit Austurbæjar og Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar auk smærri samspilshópa sem starfa óreglulega:

Blásarasveit I fyrir yngri nemendur
Blásarasveit II fyrir eldri nemendur
Strengjasveit I og II fyrir yngri nemendur
Strengjasveit III fyrir eldri nemendur

Nemendur fara í yngri blásara- og strengjasveitir í 2. bekk, þ.e.a.s., eftir að þeir hafa lært á hljóðfæri í 1 – 2 ár.  Þeir færast í eldri sveitirnar eftir að hafa verið 3 – 4 ár í yngri sveitunum eða u.þ.b. ári áður en þeir taka Grunnpróf á hljóðfærið.  Samt er þetta breytilegt milli nemenda og endanleg ákvörðun um tilfærslu frá yngri yfir í eldri sveitir háð mati hljóðfærakennarans.  

Þátttaka í hljómsveitum skólans er skylda fyrir alla strengja- og blásaranemendur og telst mikilvægur þáttur í náminu.

Markmiðin með hljómsveitarstarfi eru margþætt.  Þau helstu eru að nemandinn:

  • kynnist tónlist sem ekki er hægt að kynnast nema sem þátttakandi í hljómsveitarspili
  • öðlist reynslu af að vinna undir stjórn hljómsveitarastjóra og læri þær tilskipanir og leiðbeiningar sem hljómsveitarstjóri notar
  • læri að sýna tillitssemi við aðra og kynnist þeim samskiptareglum sem gilda í hljómsveitarspili
  • læri að þekkja hlutverk síns hljóðfæris í hljómsveit og fái þjálfun í að stilla sig inn á styrk og hraða annarra
  • öðlist reynslu af að koma fram í hljómsveit á tónleikum og meta þannig framlag sitt sem einstaklings til heildarinnar.

Fyrir utan hljómsveitasamspilið er leitast við að skipuleggja samspil af ýmsum toga.  Má þar t.d. nefna samspil gítarnemenda og ýmiss konar kammermúsík fyrir mismunandi hljóðfærasamsetningar.

Hljómsveitarspil hjá strengjaleikurum og blásurum byrjar á haustin um tveimur vikum eftir að kennsla hefst og stendur þar til um tveimur vikum fyrir páska eða lengur eftir því hve snemma á árinu páskar eru.  Hver samspilstími varir í um 60 – 120 mínútur með hléi.  Hljómsveitirnar koma reglulega fram á tónleikum.  Auk þess taka þær, eftir því sem hægt er, þátt í landsmótum skólalúðrasveita og strengjasveita, fara í tónleikaferðir og stöku sinnum í æfingabúðir.