Námsefni, náms- og kennsluáætlanir

Hópkennsla
Námsefni fyrir hópkennsluna frá forskóla til fjórða bekkjar (sex til ellefu ára nemendur) er samið af hópkennurum skólans og endurskoðað reglulega.  Þetta námsefni er meðal annars hlustunarefni, skapandi verkefni, verkefni með tónfræðilegu ívafi og fræðsla um tónskáld og tónverk.  Námsefnið telst vera kjarni, sem er sameiginlegur fyrir alla hópkennara skólans, þannig að ef nemandi skiptir um kennara milli ára þá hefur hann farið yfir sama kjarna og aðrir nemendur.  Að öðru leyti er kennurum frjálst að nota það kennsluefni sem þeir sjálfir kjósa.

Frá og með fimmta bekk er námsefnið fyrir hóptímana sameiginlegt hvað varðar hlustun.  Einnig er unnið að sameiginlegum tónfræða- og tónheyrnarverkefnum.  Til viðbótar þessu kemur ítarefni hvers kennara.

Hvað tónfræði viðvíkur eru einföldustu grundvallaratriðin kennd í Forskóla II og einnig í 1. bekk.

Í öðrum bekk fá nemendur afhenta bókina Tónfræði ásamt verkefnum, fyrri hluti en þar er fjallað um tónfræðileg atriði.  Auk þess er unnið að tónheyrnarverkefnum í hóptímunum.  Nemendur ljúka við þessa bók á þremur námsárum og ljúka þá jafnframt samræmdum stigsprófum í tónfræði og tónheyrn (forstigi í 2. bekk, I. stigi í 3. bekk og II. stigi í 4. bekk).  Í fimmta bekk fá nemendur bókina Tónfræði ásamt verkefnum, seinni hluti og ljúka henni á þremur árum.  Jafnframt bæta þeir þá við sig þremur stigum í tónfræði, Grunnprófi í 5. bekk, Milliprófi í 6. bekk og Miðprófi í 7. bekk.  Ætlast er til að nemendur vinni tónfræðina í heimanámi, sérstaklega þegar ofar dregur og skili kennara þeirri vinnu til yfirferðar og leiðréttingar.  Að sjálfsögðu eru tónfræðileg atriði oftast útskýrð og unnin fyrst í hóptímunum.

Þar sem töluverður munur getur verið á þroska og færni hliðstæðra námshópa þá kallar það á sveigjanlegar náms- og kennsluáætlanir.  Hver kennari gerir sínar áætlanir fyrir hóptímana miðað við þann hóp sem hann er með hverju sinni.  Í tónfræðakennslunni er þó reynt að víkja ekki frá áætluninni sem miðast við að nemandi taki eitt stig á ári frá 3. bekk og upp í 7. bekk, alls fimm stig. 

Hljóðfærakennsla
Í hljóðfærakennslunni, sem venjulega hefst eftir nám í Forskóla II eða við átta til níu ára aldur, styðjast kennarar við gildandi námskrár viðkomandi hljóðfæra.  Þessar námskrár hafa verið gefnar út af menntamálaráðuneytinu.  Gert er ráð fyrir því í aðalnámskrá tónlistarskóla að hljóðfæranámskrár verði endurskoðaðar reglulega.

Í hljóðfæranámskrám er námsefninu skipt í þrjá prófáfanga, Grunnpróf, Miðpróf og Framhaldspróf.  Í Tónmenntaskólanum ljúka nemendur að meðaltali fjórum (jafnvel fimm) hljóðfærastigum eða prófum eftir átta ára nám í hljóðfæraleik þ.e. Forpróf, (sem er skólapróf sem gæti jafnvel verið tvískipt þ.e. Forpróf I og Forpróf II), Grunnpróf, sem er á vegum Prófanefndar, Millipróf sem er skólapróf og að lokum Miðpróf sem er á vegum Prófanefndar.  Hljóðfærakennarinn semur einstaklingsbundna námsáætlun fyrir hvern nemanda, sem tekur mið af þroska hans, áhuga, vinnugleði og næmi.  Töluverður munur getur verið á yfirferð nemenda, sumir vinna hraðar, aðrir hægar.  Prófin eru tekin þegar nemandinn er að mati kennara tilbúinn til þess og hefur tileinkað sér hæfilegt námsefni úr viðkomandi stigi samkvæmt hljóðfæranámskrá.  Grunnpróf og Miðpróf eru tekin skv. forskrift og reglum Prófanefndar og dæmd af utanaðkomandi prófdómurum.  Skólinn hefur sín eigin skólapróf þar fyrir utan, Forpróf áður en Grunnpróf er tekið (jafnvel tvískipt í Forpróf I og Forpróf II) og Millipróf, sem lendir milli Grunnprófs og Miðprófs.  

Þeir nemendur sem ekki fara í áfangapróf fara í vorpróf þar sem þeir fá reynslu í því að taka próf og fá uppbyggilega umsögn.