Inngangur

Hlutverk skólanámskrár Tónmenntaskóla Reykjavíkur

Í aðalnámskrá tónlistarskóla, útgefinni af menntamálráðuneytinu í maí 2000 segir:

Lögð er áhersla á sjálfstæði skóla.  Í því skyni eru í aðalnámskrá tilmæli um að starfssvið tónlistarskóla skuli skilgreint í skólanámskrá þar sem fram komi markmið náms og fyrirkomulag skólastarfs í viðkomandi skóla.  Við gerð skólanámskrár skal taka mið af stefnumörkun aðalnámskrár tónlistarskóla ásamt því að setja fram sérhæfð og staðbundin markmið einstakra skóla (bls. 11).

Aðalnámskrá tónlistarskóla mælir eindregið með því að allir tónlistarskólar skilgreini starfssvið sitt og markmið í skólanámskrám.  Skólanámskrá Tónmenntaskólans er ætlað að stuðla að árangursríku skólastarfi með því að veita upplýsingar og yfirsýn, auðvelda endurmat áætlana og tryggja sem farsælast tónlistaruppeldi.

Skólanámskrá Tónmenntaskólans er ætluð foreldrum og öðrum aðstandendum nemenda skólans, nemendum sjálfum og stjórnvöldum sem veita fé til skólans (Reykjavíkurborg) og sem bera faglega ábyrgð á þeim ramma sem tónlistarkennsla í tónlistarskólum landsins byggir á (menntamálaráðuneytið).  Auk þess gæti Skólanámskrá Tónmenntaskólans nýst öðrum tónlistarskólum sem hugmyndabanki og  almenningi sem áhuga hefur á tónlistaruppeldi sem almennt upplýsingarit.

Skólanámskrá getur aldrei orðið endanleg.  Hún þarfnast stöðugrar endurskoðunar og er breytingum undirorpin frá ári til árs, þótt meginatriði hennar geti verið óbreytt lengur.