Hlutverk og markmið Tónmenntaskóla Reykjavíkur

Í aðalnámskrá tónlistarskóla segir að tónlistarskólar gegni fjölþættu hlutverki í samfélaginu.  Þeim ber að stuðla að öflugu tónlistarlífi jafnframt því að vinna að aukinni hæfni, þekkingu og þroska einstaklinga.  Skólunum ber að taka tillit til margvíslegra áhugasviða nemenda, getu þeirra og þroska;  kennsluaðferðir og viðfangsefni þurfa því ætíð að vera fjölbreytt og  sveigjanleiki í skólastarfi því nauðsynlegur.

Í aðalnámskrá tónlistarskóla segir á bls. 13:

Hlutverk tónlistarskóla er að:

 • stuðla að aukinni hæfni nemenda til að flytja, greina og skapa tónlist og til að hlusta á ttónlist og njóta hennar […]
 • búa nemendur undir að geta iðkað tónlist uppá eigin spýtur […]
 • búa nemendur undir nám í tónlist og skyldum greinum á háskólastigi […]
 • stuðla að auknu tónlistarlífi […]

Tónmenntaskóli Reykjavíkur samsamar sig þessu almenna hlutverki og gerir það að sínu.  Að öðru leyti er hlutverk Tónmenntaskóla Reykjavíkur fyrst og fremst að veita reykvískum börnum og unglingum á grunnskólaaldri alhliða tónlistarmenntun.  Nemendum skólans gefst bæði kostur á undirstöðumenntun og þjálfun í hljóðfæraleik að eigin vali.  Hlutverk skólans er einnig að reyna ýmsar nýjungar í starfi sínu, bæði hvað varðar námsefni og kennsluaðferðir.

Skólinn fylgist vel með framvindu námsins hjá nemendum og hefur augun opin fyrir því ef sérstakir og óvenjulegir tónlistarhæfileikar koma í ljós hjá einstökum nemendum með það í huga að hlú að og styrkja þessa hæfileikaríku nemendur.

Í aðalnámskrá tónlistarskóla er rætt um meginmarkmið tónlistarskóla og þeim skipt í þrjá flokka:  Uppeldisleg markmið, leikni- og skilningsmarkmið og samfélagsleg markmið.  Þar segir:

Uppeldisleg markmið stuðla að auknum tilfinningaþroska nemenda, listrænum þroska, mótun viðhorfa, samvinnu og ögun.
Leikni- og skilningsmarkmið stuðla einkum að aukinni færni og þekkingu nemenda.
Samfélagsleg markmið stuðla að þátttöku í fjölbreyttri mennta- og menningarstarfsemi (bls. 14).

Of langt mál væri hér að telja upp öll meginatriði sem aðalnámskrá greinir frá í þessum þremur flokkum.  Þau helstu, í samþjöppuðu formi, eru (bls. 14 – 16):

A. Uppeldisleg markmið

 1. Nemendur öðlist lifandi áhuga á tónlist og tónlistariðkun með því að:
  • syngja og leika á hljóðfæri
  • hlusta á fjölbreytta tónlist við margs konar aðstæður
  • skapa eigin tónlist
  • taka þátt í samleik og samsöng
  • koma fram á tónleikum
 2. Nemendur læri að njóta tónlistar og upplifa hana sem:
  • hlustendur
  • þátttakendur

Auk þessa stuðli tónlistarnám að því að efla sjálfsmynd nemenda, einbeitingarhæfni þeirra og hæfni til að vinna með öðrum.

B. Leikni- og skilningsmarkmið

 1. Sjálfstæð vinnubrögð – Nemendur: 
  • læri og æfist í að leika tónlist eftir nótum, jafnt undirbúið sem óundirbúið
  • æfist í að leika og syngja eftir heyrn og minni
 2. Hlustun og skilningur – Nemendur: 
  • læri að heyra og skilja frum- og túlkunarþætti tónlistar
  • öðlist þekkingu, geti greint og gert grein fyrir ólíkum tónlistarstefnum,
  • stíltegundum og tímabilum
 3. Sköpun eigin tónlistar – Nemendur: 
  • læri og þjálfist í að setja fram eigin tónhugmyndir bæði skriflega og leiknar af fingrum fram
  • læri og þjálfist í að setja saman hefðbundnar eða óhefðbundnar tónsmíðar
  • læri og þjálfist í að spinna út frá gefnu upphafi, hljómferli eða eftir öðrum aðferðum
 4. Túlkun tónlistar og flutningur – Nemendur: 
  • þjálfist í að túlka tónlist með tilliti til aldurs og stíls tónverka
  • læri að flytja og túlka tónlist með tilliti til greiningar á viðkomandi verkum
  • þjálfist í að flytja tónverk með tilliti til tilfinningalegs innihalds þeirra

Einnig er á bls. 15 og 16 í aðalnámskrá fjallað um að nemendur læri að tjá sig um einkenni og áhrif tónlistar sem og læri að leggja mat á flutning og túlkun tónlistar.

C. Samfélagsleg markmið

Tónlistarskólar:

 • veiti öllum sem þess æskja, færi á að kynnast tónlistarnámi af eigin raun
 • skapi nemendum tækifæri til tónlistarflutnings, jafnt innan skóla sem utan
 • stuðli að aukinni þátttöku áhugafólks í tónlistarlífi
 • stuðli að góðri fagmenntun tónlistarmanna og tónlistarkennara.

Auk þess er rætt um að stuðla að góðum undirbúningi undir tónlistarstörf, að efla tónlistarlífið í samfélaginu og íslenska tónmenningu og varðveita tónlistararf þjóðarinnar  […]

Þessi almennt orðuðu markmið í aðalnámskrá tónlistarskóla eru nánast þau sömu og Tónmenntaskólinn stefnir að með starfsemi sinni.
Sem dæmi um almenn markmið með kennslunni í Tónmenntaskólanum mætti nefna eftirfarandi:

Nemendur:

 • upplifi tónlist gegnum eigin virkni, hlustun og þátttöku með öðrum
 • taki þátt í skapandi tónlistarathöfnum sem einstaklingar eða með öðrum í smærri og stærri hópum.
 • öðlist skilning og þekkingu á grundvallarþáttum tónlistar (t.d. hryn, laglínu, hljómi) með því að upplifa fjölbreytilega tónlist í gegnum hlustun og eigin þátttöku.
 • fái grundvallarþekkingu í þeim tónfræðaþáttum sem nauðsynlegir eru til að geta stundað  hljóðfæranám í viðkomandi stigi.

Þessi markmið eru útfærð nánar í hóp- og hljóðfærakennslunni.  Það skal tekið fram að inntaksþættir hóptímanna hvað varðar tónfræðaþáttinn, allt frá 1. – 7. bekk skólans, liggja fyrir og eru foreldrum aðgengilegir óski þeir þess.  Auk þess liggur fyrir námskrá í tónfræðum fyrir grunn- og miðnám  útgefin af menntamálaráðuneytinu.

Hljóðfæranámskrárnar útgefnar af menntamálaráðuneytinu skýra og skilgreina nánar námsmarkmiðin með hljóðfæranáminu miðað við tiltekin námstig og er þeim sem óska frekari upplýsinga vísað á þær.

Nú er hljóðfærakennslan yfirleitt einkakennsla og má því í raun segja að kennarinn sé með einstaklingsbundin markmið fyrir hvern nemanda, löguð að getu hans og þörfum, jafnvel með einstaklingsbundna námskrá.  Tíminn milli áfangaprófa getur verið mjög breytilegur eftir nemendum vegna þess hve þeir eru misfljótir að komast yfir verkefni hvers námsstigs.

Ekki er þó öll hljóðfærakennsla í einstaklingskennsluformi.  Í Tónmenntaskólanum er iðkað samspil á ýmis hljóðfæri, allt frá samspili á tvö hljóðfæri upp í samspil í blásara- og strengjasveitum í samvinnu við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og Skólahljómsveit Austurbæjar.