Hagnýtar upplýsingar

Starfstími Tónmenntaskóla Reykjavíkur er frá miðjum ágúst og fram í lok maí.  Kennarar mæta til ýmissa starfa og vinnufunda þriðju viku í ágúst og innritun nemenda hefst strax og þeir hafa fengið stundaskrár sínar úr grunnskólanum í ágúst.  Þá er stundatafla Tónmenntaskólans samin, en það er flókið verk sem tekur nokkurn tíma.  Kennsla hefst svo á hljóðfæri síðustu dagana í ágúst skv. bráðabirgðastundaskrá en hópkennslan og hljómsveitir hefja starfsemi sína í byrjun september skv. endanlegri stundaskrá.

Jólaleyfi, páskaleyfi og aðrir frídagar eru svipaðir og í grunnskólanum, þó hefst jólaleyfið að jafnaði nokkrum dögum fyrr vegna “litlu jólanna“ í grunnskólanum.  Kennt er fram undir 20. maí og þá taka við próf, vinnudagar kennara, útskrift nemenda og skólaslit. Tónmenntaskólinn er með haustfrí og vetrarfrí og eru þessi frí samræmd við dagsetningar haust- og vetrarfrís sem grunnskólarnir eru með.

Vitnisburður með umsögn um námsárangur er aðgengilegur foreldrum á School Archive nemendaskránni og birtur í janúar (fyrir haustönn) og í maí (fyrir vorönn) .

Nýir nemendur eru skráðir inn á vorin, mánaðarmótin mars/apríl eða um leið og opnar fyrir umsóknir á Rafrænni Reykjavík. Nemendur sem þegar stunda nám við skólann, systkini þeirra og þeir umsækjendur sem eiga lögheimili í Reykjavík fá forgang við skráningu í skólann. Vinsamlega athugið að framboð getur verið mismunandi eftir hljóðfærum og merkja þarf við Tónmenntaskólann í 1 val.

Í apríl, ár hvert, þurfa allir nemendur skólans og umsækjendur að staðfesta áframhaldandi nám með því að greiða staðfestingagjaldið. Öðruvísi er ekki hægt að tryggja sér áframhaldandi vist í skólanum.

Ganga þarf frá skólagjöldum við upphaf skólaárs. Skólagjöld eru innheimt með kröfum í heimabanka sem má skipta og greiða fyrri hlutann í ágúst en seinni hlutann eftir áramót í febrúar.  Einnig er hægt að dreifa greiðslum á allt að 7 mánuði sé þess óskað.

Hægt er að nota Frístundakort Reykjavíkurborgar til frádráttar á skólagjöldum, en einungis er hægt að ráðstafa styrknum á haustönn.

Tónmenntaskóli Reykjavíkur nýtur fjárframlaga frá Reykjavíkurborg

Skólagjöld fyrir árið 2019-2020

Heilt nám kr.190.000,-

Fiðlu- og píanóforskóli kr.130.000,-

Forskóli kr.90.000,-

Ef fleiri en eitt barn úr sömu fjölskyldu sækir skólann er veittur systkinaafsláttur.  Afslátturinn er 20% af heildarupphæðinni fyrir tvö börn en 30% fyrir þrjú börn. 

Uppsögn: Segja þarf upp námi með þriggja mánaða fyrirvara, þannig að ef nemandi hættir þarf að greiða fyrir þrjá mánuði eftir að uppsögn er tilkynnt. Uppsögn þarf að tilkynna til skrifstofu skólans skriflega.

Til að forðast allan misskilning skal tekið fram að skólagjöld eru ekki fyrir launakostnaði (sem greiðist af Reykjavíkurborg) heldur fyrir öllum öðrum rekstrarkostnaði, s.s. skrifstofuhaldi, ræstingu, húsaleigukostnaði, viðhaldi húsnæðis, orku, hljóðfæra- og tækjakaupum, efnisgjaldi og fleiru sem of langt mál væri að telja upp hér.

Efnisgjald vegna ljósrita, nótnapappírs, námsefnisbóka fyrir hóptíma,  blokkflautu (í forskóla), möppum og annarra gagna sem nemandi fær fyrir hóptíma og hljóðfæratíma er innifalið í skólagjaldinu.

Nótnabækur vegna hljóðfæranáms eru ekki innifaldar í skólagjaldinu.  Foreldrar verða að gera ráð fyrir kostnaði á hverju ári vegna nótnakaupa handa þeim börnum sem læra á hljóðfæri, enda er það markmið að nemendur eignist dálítið nótnasafn þegar frá líður.  Tekið skal fram að ljósritun á nótum er óheimil.

Hljóðfæri (önnur en píanó og blokkflautur) eru leigð út til byrjenda þar til ljóst er að nemandinn haldi áfram námi og tímabært þykir að hann eignist eigið hljóðfæri.  Foreldrar greiða leigugjald og skrifa undir lánssamning þar sem kveðið er á um ábyrgð á hljóðfærinu.  Vinsamlega athugið að ef nemandi ætlar að læra á píanó þarf að vera til hljóðfæri á heimilinu.

Skrifstofa skólans er opin frá kl. 13:00 – 16:00 alla virka daga. 

Starfslið: Við skólann starfa alls 22 kennarar, flestir í hlutastörfum auk skólastjóra.  Auk þess ritari, ræstingafólk og húsverðir sem búa í lítilli íbúð á efri hæð hússins.

Eins og áður sagði eru hópkennarar (bekkjakennarar) með fasta viðtalstíma sem auglýstir eru á haustin.  Viðtalstími skólastjóra er eftir samkomulagi.