Framtíðarsýn

Allt skólastarf er breytingum undirorpið.  Stundum hafa fræðsluyfirvöld rætt um að æskilegt væri að hluti af starfsemi tónlistarskólanna væri úti í grunnskólum, sérstaklega hvað varðar yngri börnin.  Þetta hefur verið reynt í nokkrum tilfellum en ekki tekist nægilega vel til.

Mikilvægt er, að ekki sé tjaldað til einnar nætur í þessum efnum, aðbúnaður fyrir tónlistarskóla sem ætlar að sinna kennslu í samvinnu við grunnskólann verður að vera góður og traustur; bráðabirgðalausnir og léleg aðstaða eru með öllu óaðgengilegar.

Á meðal þeirra nýjunga sem bryddað hefur verið upp á skólaárið 2019-2020 er píanóforskóli. Hann er eins uppbyggður og fiðluforskólinn, ætlaður börnum fimm til sjö ára, með það að markmiði að gefa  börnum sem eru enn ekki læs á nótur tækifæri til að kynnast hljóðfærinu, læra einföldustu lög eftir eyranu og grundvallartækni á hljóðfærið ásamt grunnatriðum í tónfræði gegnum leik og söng. Sjá nánar undir píanóforskóli.

Stefnt er að því að stofna sellóforskóla, að sömu fyrirmynd, við skólann sem fyrst. Tónlistarskólar þurfa að huga að því að hljóðfæraval sé þar margbreytilegt og gaman er að nefna að á síðasta skólaári var loks hægt að læra á hörpu í Tónmenntaskólanum.

Eitt af meginmarkmiðum Tónmenntaskólans er að koma til móts við þarfir nemenda. Önnur nýjung er einmitt liður í því en það er nám í Miðstöðinni, sem einnig er gott dæmi um góða samvinnu milli tónlistarskólanna á höfuðborgarsvæðinu. Sjá nánar undir kaflanum Miðstöðin.

Kennsla í spuna verður kynnt til leiks á skólaárinu 2019-2020 þar sem farið verður í grunnþekkingu í spuna með tónsköpun að leiðarljósi. Leitast er eftir að þjálfa með nemendum meðvitund og næmni, jafnt sem frumkvæði og dyrfsku í tónsköpun sinni, bæði sem hljóðfæraleikarar og í samspili. Farið verður yfir mismuandi notkun tónbila, rythma, dínamík og áferðar í tónsköpun. Einnig verður frumkvæði og hlustun í tónsköpun efld með kennslu á mismunandi hlutverkum hljóðfæra í samspili.  Byggt er jöfnum höndum á sköpun, hljóðfærakunnáttu og tónfræði kunnáttu nemenda og er ætlað að styrkja allar þessar grunn stoðir tónlistariðkunnar enn frekar með praktískum æfingum og hópvinnu. Mikið verður spilað saman og spunnið í tímunum með gleði í tónsköpun að markmiði!

Samvinna við íslensk tónskáld var lengi vel fastur liður í starfsemi skólans. Fólst hún meðal annars í því að pöntuð voru tónverk fyrir ýmsar hljómsveitir og samspilshópa í skólanum, og einnig í því að fá íslensk tónskáld til að vinna að tónsmíðum með nemendum í hópvinnu. Auk þess voru samdar alls 4 barnaóperur fyrir skólann eftir pöntun.

Skólinn hefur mikinn hug á að koma á fót fullorðinsfræðslu, þar sem fullorðnum (t.d. foreldrum sem eiga börn í skólanum) væri kennd undirstöðuatriði tónlistar auk þess sem hlustað yrði á ýmiss konar tónlist og hún greind og skoðuð frá ýmsum hliðum. Eins er mikill áhugi á hljóðfærakennslu fyrir eldri borgara. 

Nemendur skólans hafa verið duglegir að sinna samfélagsþjónustu með því að heimsækja spítala og halda tónleika fyrir eldri borgara.  Þetta mætti vera enn stærri hluti af skólastarfinu sem og heimsóknir í leik- og grunnskóla þar sem tónlistarskólar kynntu hin ýmsu hljóðfæri og heim tónlistar fyrir nemendum.

Þetta eru þeir vaxtarbroddar sem álitlegir eru í starfsemi Tónmenntaskóla Reykjavíkur á næstu árum.  Tíminn verður að leiða í ljós hvort þeir verða allir að veruleika.