Forsaga og þróun

Frá stríðslokum höfðu verið starfandi barnadeildir eða undirbúningsdeildir fyrir börn í Tónlistarskólanum í Reykjavík.  Frumkvæði að stofnun þessara barnadeilda hafði dr. Heinz Edelstein en hann hafði verið ráðinn sem sellókennari og kennari í kammermúsík að skólanum haustið 1938, auk þess að vera ráðinn sellóleikari við nýstofnaða Hljómsveit Reykjavíkur.

Barnadeildirnar í Tónlistarskólanum uxu jafnt og þétt næstu árin og starfsemin varð æ umfangsmeiri.  Um 1950 fór Heinz Edelstein að huga að nýjum ramma eða skipulags- grundvelli fyrir þessa starfsemi.  Í júní 1951 lagði hann “Tillögur um alþýðlegan músíkskóla“ fyrir fræðslumálastjóra.  Þessar tillögur hlutu góðan hljómgrunn og voru samþykktar af fræðslumálastjórn.  Ragnar Jónson forstjóri og menningarfrömuður sýndi þessu máli mikinn áhuga og styrkti Heinz Edelstein til námsdvalar í Þýskalandi veturinn 1951 – 52 í þeim tilgangi að hann kynnti sér það sem efst var á baugi þar í tónlistaruppeldismálum.

Haustið 1952 var skólinn formlega stofnaður og hlaut nafnið Barnamúsíkskólinn.  Í skólaráði voru dr. Páll Ísólfsson skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík, Ragnar Jónsson forstjóri, dr. Róbert Abraham Ottósson hljómsveitarstjóri og Ingólfur Guðbrandsson kórstjóri.  Skólinn tók til starfa í september 1952.

Dr. Heinz Edelstein var skólastjóri frá stofnun skólans til vors 1956.  Eftirmaður hans Ingólfur Guðbrandsson stýrði skólanum veturinn 1956 – 57 en þá tók dr. Róbert Abraham Ottósson við stjórn skólans til vorsins 1961.  Veturinn 1961 – 62 veitti Jón G. Þórarinsson  skólanum forstöðu. Stefán Edelstein var skólastjóri skólans frá hausti 1962 til vorsins 2017. Þá tók Rúnar Óskarsson við í einn vetur. Núverandi skólastjóri Anna Rún Atladóttir tók við haustið 2018.

Í upphafi voru aðeins tveir kennarar við skólann, Heinz Edelstein og Róbert Abraham Ottósson.  Sinntu þeir allri kennslu við skólann fram til vorsins 1955.  Smám saman bættust við fleiri kennarar eftir því sem skólinn dafnaði og nemendum fjölgaði.

Á fyrstu árum skólans voru kennsluáætlanir þannig að nemendum var kennt í hópum í minnst þrjú ár.  Lögð var áhersla á söng, hreyfingu og grundvallaratriði tónfræðinnar en nemendur gátu einnig stundað hljóðfæranám í smáhópum, annað hvort á píanó, blokkflautu eða einföld strengjahljóðfæri.  Smám saman breyttist námskipan og kennsluhættir.  Árið 1977, þegar gamli Barnamúsíkskólinn flutti í húsnæði gagnfræðaskólans við Lindargötu og tók upp nafnið Tónmenntaskóli Reykjavíkur var núverandi skipulagi komið á.

Nemendafjöldi við skólann var í upphafi um 80.  Smám saman fjölgaði nemendum en aldrei komust allir að sem vildu vegna þrengsla og skorts á hentugu húsnæði.  Veturinn 1960 – 61 fór nemendafjöldinn í 200, veturinn 1965 – 66 í 275, veturinn 1970 – 71 upp í 375, veturinn 1980 – 81 í 480 og veturinn 1982 – 83 er nemendafjöldinn orðinn 540.  Það var meira en hægt var að ráða við með góðu móti í húsnæði skólans og var nemendafjöldinn í skólanum frá skólaárinu 1983 – 84 um 450 – 500 nemendur á ári.  Þegar einsetning grunnskólans hófst í Reykjavík þurfti að fækka nemendum í skólanum þar sem tíminn til kennslu takmarkast við tímabilið frá kl. 14:00 – 19:00.  Nemendafjöldinn er nú rúmlega 170.

Húsnæðismál
Húsnæðismál Barnamúsíkskólans voru erfið frá upphafi og fengu ekki viðunandi lausn fyrr en 1977 þegar skólinn fékk inni í Lindargötuskólanum.  Skólinn hóf starfsemi sína í Valsheimilinu við Hlíðarenda, var síðan í gagnfræðaskóla Vesturbæjar við Hringbraut, þá í Austurbæjarskólanum og síðast í húsnæði Iðnskólans þar sem hann var í rúm tuttugu ár.

Við flutninginn í Lindargötuskólann batnaði öll aðstaða skólans til muna og nemendum tók að fjölga verulega.  Skipt var um nafn á skólanum og hlaut hann nafnið Tónmenntaskóli Reykjavíkur með samþykki borgaryfirvalda.

Á tímabilinu 1973 – 1990 rak skólinn útibú á nokkrum stöðum í borginni meðal annars í Breiðholti og Vesturbæ en frá 1990 hefur öll starfsemi skólans farið fram í Lindargötuskólanum og í tveimur bakhúsum sem standa á lóð skólans.

Rekstur og fjármögnun
Barnamúsíkskólinn hlaut rekstrarstyrk frá Reykjavíkurborg fyrstu árin og einnig greiddi borgin laun skólastjóra.  Síðar komst skólinn inn á fjárlög ríkisins, en frá 1975 til 1988 var hann rekinn eins og aðrir tónlistarskólar í landinu samkvæmt lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla.  Frá 1989 hefur launakostnaður verið greiddur af Reykjavíkurborg samkvæmt lögum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.