Þá eru hátíðarhöld að baki og vorönnin framundan. Skammdegið er smátt og smátt að víkja og kominn nýr kraftur í lífið, bæði í námi og leik.
Ýmislegt er framundan í starfsemi skólans. Er þá fyrst að nefna Forskólatónleikana eða hljóðfærakynningartónleikana, þar sem börn sem læra á hljóðfæri spila fyrir nemendur Forskóla II og kynna hljóðfærin sín. Eru öll hljóðfæri sem kennt er á í skólanum kynnt á þennan hátt. Þetta á að auðvelda forskólanemendum að velja sér hljóðfæri þegar (og ef) þeir sækja um skólavist síðar í vor fyrir næsta skólaár. Þessir tónleikar verða laugardaginn 4. febrúar kl. 11:30 og eru eingöngu fyrir nemendur Forskóla II og aðstandendur þeirra. Tónleikarnir verða haldnir að Lindargötu 51 í salnum á 2. hæð.
Dagana 13. og 14. febrúar verða haldin stigspróf, bæði innanhúspróf og próf á vegum Prófanefndar Tónlistarskólanna. Mánudag og þriðjudag 20. og 21. febrúar er vetrarfrí eins og í flestum grunnskólum borgarinnar og þá daga fellur niður öll kennsla. Miðvikudag 1. mars er öskudagur sem er starfsdagur kennara og fellur þá einnig niður öll kennsla í skólanum. Páskaleyfi í skólanum er frá mánudegi 10. apríl til mánudagsins 17. apríl að báðum dögum meðtöldum.
Laugardagana 25. mars og 1. apríl verða haldnir „blandaðir“ tónleikar í Snorrabúð, tónleikasal Söngskólans í Reykjavík við Snorrabraut, þar sem allir hljóðfæranemendur skólans koma fram.
Vortónleikar skólans þ.e. opinberir vortónleikar verða síðan haldnir laugardaginn 6. maí í Snorrabúð.
Stigspróf (innanhúspróf) og áfangapróf á vegum Prófanefndar Tónlistarskólanna verða dagana 3. – 4. maí og 16. – 18. maí.
Síðasti dagur tónfræðikennslunnar (hóptímana) verður fimmtudagur 4. maí, en síðasti dagur hljóðfærakennslunnar verður föstudagur 12. maí.
Útskrift nemenda og skólaslit verða miðvikudaginn 31. maí.
Skólastjóri