Gul viðvörun

Á morgun, fimmtudaginn 26. nóvember hefur verið gefin út gul veðurviðvörun.

Ef gul viðvörun er í gangi og engin tilkynning komin frá skólanum þá meta foreldrar hvort þeir senda börn sín í skólann.

Skilgreiningar vegargerðarinnar á litunum:

Litur GULUR gefur til kynna veður sem er nokkuð algengt, en getur samt á einhvern hátt sett strik í reikning vegfaranda eða að það þurfi að sýna sérstaka aðgát. Gjarnan er um staðbundnar aðstæður að ræða á fjölförnum leiðum, en líka þegar veður er af meiri styrk á svæðum eða landshlutum þar sem umferð er minni. Alla jafna er ekki varað sérstaklega við á fáfarnari leiðum þegar veður er staðbundið. Vegfarendur sýni aðgát og reyni eftir föngum að gera breytingar á sínum ferðum

Kennsla niðri í skóla á mánudag 23. nóv

Loksins hafa verið gerðar breytingar á reglugerðinni sem gerir tónlistarskólum kleift að starfa eftir sömu reglum og aðrir.Þetta þýðir að eftir helgina verður öll tónfræðikennsla kennd hér í skólanum, á upphaflegum tímum sem þið eruð með í School Archive, og strengjasveitin verður með æfingu á þriðjudaginn kl.17:30.Við þurfum auðvitað áfram að passa okkur, þvo hendur um leið og komið er inn í skólann, foreldrar eru beðnir um að koma ekki inn í skólahúsið nema brýna nauðsyn beri til og bera þá grímur. Við sótthreinsum áfram alla fleti milli nemenda eins og áður. Grímuskylda er aðeins fyrir nemendur (fædd fyrir 2007) og kennara EF ekki er hægt að viðhalda 2 metra reglunni.

Engin breyting!

Svo virðist sem aðrar reglur gildi um tónlistarnám en aðrar tómstundir barna þar sem samkvæmt nýrri reglugerð heilbrigðismálaráðherra, sem tekur gildi á morgun, mega hópar barna blandast saman alls staðar nema í tónlistarskólum! Þetta þýðir að börn mega vera saman í hópum í ballett og á íþróttaæfingum, úti sem inni, en ekki í tónfræði hjá okkur, þrátt fyrir að hér í tónlistarskólanum getum við tryggt tvo metra á milli nemenda, kennum í mjög fámennum hópum og gætum viðhaft grímuskyldu án mikilla vandkvæða. Rökin sem færð eru fyrir þessu misræmi eru þau að hér sitja nemendur inni í minni rýmum en t.d. í fimleikasal!

Tónmenntaskólinn má því aðeins, enn sem komið er, sinna einstaklingskennslu, tónfræði verður því enn í gegnum netið og engin samspil á dagskrá. Grímuskylda er einnig sú sama og áður – þ.e. hér eiga allir að vera með grímur áfram bæði nemendur (fæddir fyrir 2011) og kennarar, samkvæmt reglugerðinni. Við vonum að ráðherra sjái að sér og endurskoði málið á næstu dögum. Þangað til hlýðum við þeim reglum sem okkur eru settar.

Til hamingju með daginn Klarinettuleikarar!

Í dag, 16. nóvember, er alþjóðlegi dagur klarinettsins. Klarinett er tréblásturshljóðfæri búið til úr svörtum viði og fallegur mjúkur hljómur þess svipar til söngraddarinnar. Það er sérstakt því það getur spilað mjög djúpar nótur en líka mjög háar nótur og styrkleikasvið þess er afar vítt, frá mjög sterkum tónum yfir í mjög veika tóna.

Klarniettið er gamalt hljóðfæri en vinsældir þess jukust mjög fyrir um 200 árum þegar hið fræga tónskáld Wolfgang Amadeus Mozart tók ástfóstri við hljóðfærið og samdi fyrir það mörg falleg lög. Klarinett er notað í sinfóníuhljómsveitum, spilar t.d. köttinn í Pétri og úlfinum eftir Prokofiev, og eins er það mikið notað í klezmer- og jazz tónlist. 

Til eru um 12 mismunandi tegundir af mismunandi stórum klarinettum. Það klarniett sem flestir byrja að læra á heitir B – klarinett. Nemendur þurfa að vera orðnir um átta til níu ára til að læra á það og það hjálpar að hafa lært dálítið á blokkflautu fyrst. Til eru minni og léttari klarinettur, svokallaðar C klarinettur, sem gefa möguleika á að byrja nokkru fyrr, eða um sjö ára aldur.

Nóvember – Ennio Morricone

Ennio Morricone var ítalskt tónskáld, hljómsveitarstjóri og trompetleikari fæddist 10. nóvember 1928 og lést í sumar 6. júlí 2020. Ennio Morricone er talinn eitt fjölhæfasta, fjölbreyttasta og ekki síst tilraunagjarnasta tónskáld allra tíma. Hann samdi yfir 500 tónverk fyrir kvikmyndir og sjónvarp sem urðu heimsfræg auk þess samdi hann yfir 100 klassísk tónverk. Um 70 kvikmyndanna sem Morricone samdi tónlist fyrir unnu til verðlauna. Hann samdi tónlist við allar kvikmyndir ítalska leikstjórans Sergio Leone (frá myndinni Per un pugno di dollari) og allar kvikmyndir ítalska leikstjórans Giuseppe Tornatore frá og með Óskarsverðlaunamyndinni Nuovo Cinema Paradiso. Morricone vann í fyrsta skipti til Óskarsverðlauna árið 2015 fyrir bestu tónlist í kvikmynd fyrir tónlist sína í myndinni  The Hateful Eight eftir leikstjórann Quentin Tarantino. Hann varð þar með elsti maðurinn sem hefur nokkurn tímann unnið til Óskarsverðlauna.

Ennio Morricone lék á trompet í djasshljómsveitum á fimmta áratugnum en gerðist umsjónarmaður hljóðvers í eigu fyrirtækisins RCA Records og byrjaði að semja tónlist fyrir kvikmyndir og leikhús. Frá 1960 til 1975 varð Morricone heimsfrægur fyrir tónlist sína í spaghettivestrum. Þeirra frægust var tónlistin í kvikmyndinni The Good, The Bad and The Ugly (Il buono, il brutto, il cattivo) frá 1966 en hún hefur verið talin með frægustu kvikmyndatónlist allra tíma. Plötur Morricones með kvikmyndatónlist hafa selst í bílförmum og notið ótvíræðrar heimsfrægðar. Platan með tónlist úr myndinni Once Upon a Time in the West (C´era una volta il West) frá árinu 1968 seldist til að mynda í yfir 10 milljónum eintaka og er með söluhæstu kvikmyndatónlist á heimsvísu.

Morricone starfaði með helstu kvikmyndaleikstjórum í heiminum. Tónlist hans fyrir myndina  The Mission (1986)  hlaut gullverðlaun bandarísku hljóðritunarsamtakanna Recording Industry Association of America og hljómplatan Yo-Yo-Ma plays Ennio Morricone var 105 vikur á topplista Billboard fyrir klassíska tónlist. Ennio Morricone samdi opnunartónlist fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu árið 1978 og áfram samdi hann tónlist við stórmyndir næstu áratugina auk tónlist fyrir sjónvarpsþætti, en hann kom á fót upptökuverinu Forum Music Village ásamt fleirum. Árið 1971 hlaut Morricone kvikmyndaverðlaunin Targa d’Oro fyrir að hafa selt um 22 milljónir platna á heimsvísu. Morricone hlaut heiðursverðlaun Óskarsverðlaunanefndarinnar árið 2007 fyrir „stórkostleg og fjölbreytt framlög til kvikmyndatónlistar“. Hann hafði sex sinnum verið tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir kvikmyndatónlist áður en honum hlotnuðust verðlaunin. Hann vann einnig þrenn Grammy verðlaun, þrenn Golden Globe verðlaun, sex BAFTA verðlaun, 10 David di Donatello verðlaun, 11 Nastro d´Argento verðlaun, tvenn evrópsk kvikmyndaverðlaun, heiðursverðlaun á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum auk sænsku Polarpris verðlaunanna.

Aljóðlegi saxófóne dagurinn er í dag 😃

Þó saxófónn tilheyri tréblásturshljóðfærum er það búið til úr málmi. Saxófónninn var fundinn upp og fyrst smíðaður af belganum Adolphe Sax um 1840 svo miðað við önnur hljóðfæri þá er hann ungt hljóðfæri eða aðeins um 150 ára gamall. Hljómur hans er mjúkur og fallegur en getur líka verið sterkur og spennandi. Saxófónn er mest notaður í jazz- og popp tónlist og er frægur fyrir t.d. lagið Carless Whisper, en hann er líka notaður í klassískri tónlist. Til eru margar stærðir af saxófónum, frá litlum sópran saxófónum til risastórra baritón saxófóna. Sá algengasti er alt saxófónninn og hægt er að hefja nám á hann um níu til ellefu ára aldur, jafnvel aðeins yngri, allt eftir þroska nemandans.

Tónleikar felldir niður

Því miður verðum við að fella niður tónleikana sem fyrirhugaðir voru laugardagana 7. og 14. nóvember. Vonandi getum við sett upp skemmtileg jólasamspil í staðinn.

Kennt á morgun mánudag 2. nóv.

Tónmenntaskólinn mun verða opinn á morgun

– enginn starfsdagur hér – og öll hljóðfærakennsla fer fram samkvæmt stundaskrá.

Tónfræðin verður kennd yfir netið eins og ráðgert var á nýjum tímum samkvæmt tölvupóstum sem nú þegar hafa verið sendir.

Vinsamlega athugið að grímuskylda er fyrir alla, nema börn fædd 2011 eða síðar. Nemendum ber að koma sjálfir með sínar grímur.