Tónskáld febrúar mánaðar 2023 er austurríska tónskáldið Carl Czerny.

Tónskáld Mánaðarins

Carl Czerny var fæddur í Vínarborg í Austurríki, 21. febrúar 1791.  Hann var tónskáld, kennari og píanóleikari. Hann var af tékkneskum uppruna og spannaði tónlist hans seinasta hluta klassíska tímans og snemm rómantíska tímabilið. Czerny samdi yfir þúsund tónverk, þar á meðal margar fingraæfingar fyrir píanóið og eru þær notaðar enn þann dag í dag. Carl Czerny var einn frægasti nemandi L. v. Beethovens.

Czerny var af mikilli tónlistarfjölskyldu. Afi hans var fiðluleikari nálægt Prag í Tékklandi og faðir hans var óbóleikari, organisti og píanóleikari. Það er því ekki að undra að Czerny hafi byrjað ungur að spila á píanó. Hann var aðeins þriggja ára þegar hann byrjaði að læra á píanó hjá föður sínum og var undrabarn í tónlist. Hann samdi sitt fyrsta verk sjö ára gamall. Pabbi hans kenndi honum aðallega tónlist eftir Bach, Haydn og Mozart. 

Á tímum Czerny var gott að hafa gott tengslanet, en pabbi hans kom því þannig fyrir að Czerny kæmist í prufutíma hjá L. v. Beethoven. Sagan segir að Beethoven hafi hlustað á hann spila á píanóið og samþykkt hann sem nemanda. Czerny varð heillaður af verkum Beethovens, uppbyggingu þeirra og hvað Beethoven var flinkur í spuna, fingrasetningu, hröðum tónstigum og skrauti. Svo bar hann sig líka svo vel við hljóðfærið! 

C. Czerny var einn sá fyrsti sem talaði um möguleg einkenni á veikindum Beethovens en hann hafði tekið eftir umbúðum sem Beethoven var með við annað eyrað. Síðar varð heiminum kunngjört um veikindi Beethovens. Beethoven valdi oft Czerny til að frumflytja píanókonserta sína, svo hrifinn var hann af honum sem píanóleikara og túlkanda verka sinna. 

Czerny var aðeins 15 ára gamall þegar hann hóf farsælan feril sinn sem píanókennari. Hann byggði kennsluna á aðferðum Beethovens og Muzio Clementis og í þá daga var kennt á einkaheimilum aðalsins í Vínarborg, börnum aðalsins. Einn frægasti nemandi Czernys var Franz Liszt sem átti eftir að verða heimsfrægt tónskáld og píanóleikari. Síðar helgaði Czerny sig tónsmíðum og eru þekktastar fingraæfingar sem hann samdi fyrir byrjendur í námi jafnt sem lengra komna nemendur. Þær eru ennþá notaðar til að liðka fingurna!

Czerny lést 66 ára að aldri þann 15. Júlí 1857 í Vínarborg. Hann átti þá enga nákomna ættingja en hann giftist aldrei og eignaðist ekki börn. Hann skildi eftir sig mikil auðæfi sem hann gaf til góðgerðarmála.

Add Your Heading Text Here