Námsumhverfi

Húsnæði
Í aðalnámskrá tónlistarskóla er stuttur kafli um æskilegt námsumhverfi í tónlistarskólum (bls. 57) og í viðauka eru ábendingar um húsnæði, búnað og tæki (bls. 68 – 72).  Tónmenntaskólinn stendur nokkuð vel hvað þetta varðar og má segja að miðað við núverandi nemendafjölda sé húsnæði skólans mjög gott.

Í aðalbyggingunni, Lindargötu 51 eru tíu kennslustofur, þar af meðalstór salur í risi.  Í aðalbyggingunni er einnig skrifstofa skólans, íbúð húsvarðar, bókasafn og nótna- og hljóðritasafn auk vinnuaðstöðu kennara.

Á baklóð aðalbyggingar eru fimm kennslustofur í tveimur húsum, þar af séraðstaða fyrir slagverkskennslu og málmblástur.  Á Lindargötu 48 eru átta kennslustofur auk rúmgóðs salar til hljómsveitaæfinga og tónleikahalds.  Þennan sal nýta Tónmenntaskólinn og Lúðrasveitin Svanur sameiginlega.

Samtals hefur því skólinn til umráða 24 kennslustofur; þar af eru tveir salir, einn meðalstór og annar stór.

Biðaðstaða er fyrir nemendur í öllum húsum skólans;  í aðalbyggingu er sér biðstofa  með lestrarefni fyrir nemendur á öllum aldri, á Lindargötu 48 bíða nemendur í rúmgóðri forstofu.

Bílastæði eru næg á lóð skólans og séð er til þess að lóðin sé mokuð og sandborin  þegar þess gerist þörf.

Tæki og búnaður
Þó alltaf megi bæta tæki og búnað má segja að einnig hér sé Tónmenntaskólinn nokkuð vel settur.  Skólinn hefur í gegnum árin komið sér upp nótna-, hljóðrita- og bókasafni til afnota fyrir kennara.  Skólinn er áskrifandi að nokkrum erlendum fagtímaritum um tónlist og tónlistarkennslu, en að öðru leyti er keypt í safnið eftir ábendingum kennara.

Öll hljóðfæri sem kennt er á í Tónmenntaskólanum, nema píanó og blokkflautur geta  nemendur fengið leigð.  (Sjá nánar bls. 28, lið 3.)

Píanó eða flyglar eru í öllum kennslustofum skólans og allar hópkennslustofur eru með hljómflutningstækjum (plötuspilara, geislaspilara og segulbandi).  Til eru tveir “flakkarar“ (hreyfanlegt tæki með innbyggðu segulbandi og geislaspilara) sem kennarar geta notað í öðrum stofum.

Vinnuaðstaða kennara er sæmileg.  Þeir hafa aðgang að tveimur herbergjum með tölvum,  prenturum, ljósritunarvélum, Internet-tengingu og öðru því sem gagnast má til námsefnisgerðar eða annarrar vinnu.