Hljóðfæranám

Eftirfarandi upptalning sýnir á hvaða hljóðfæri er kennt við Tónmenntakólann:

Hljómborðshljóðfæri:  píanó og harmónika
Strengjahljóðfæri:  fiðla, lágfiðla, selló, gítar og harpa
Tréblásturshljóðfæri:  þverflauta, klarinett, saxófónn og fagott
Málmblásturshljóðfæri:  kornett, trompet, horn, básúna, barytón og túba
Ásláttarhljóðfæri:  slagverk
Rafhljóðfæri: rafmagnsgítar og rafbassi (viðbótarhljóðfæri sem hálfur nemandi)

Á flest þessi hljóðfæri er hægt að hefja nám við átta ára aldur en það er þó ekki algild regla.  Börn sem eru bráðþroska á þeim sviðum sem tónlistarnám hvílir einkum á geta byrjað hljóðfæranám við sjö ára aldur eða fyrr.  Gagnvart börnum sem eru seinni til verður að gera kröfur samkvæmt þroska og getu.

Nemendur velja sér hljóðfæri til að læra á að forskóla loknum.  Hljóðfærin eru kynnt rækilega á sérstökum tónleikum í lok forskóla II til að vekja nemendur til umhugsunar um valkosti og auðvelda þeim val fyrir næsta vetur.

Stundum er nauðsynlegt að hafa aðdraganda að námi á það hljóðfæri sem nemandi hefur valið sér.  Kjósi hann t.d. að læra á fagott er nauðsynlegt að byrja að læra á annað hljóðfæri fyrst.  Þegar nemandi er orðinn tíu eða ellefu ára gamall getur hann síðan hafið nám á óskahljóðfæri sitt.

Komið er til móts við óskir eldri nemenda um að læra á fleiri en eitt hljóðfæri ef þeir hafa náð það góðum tökum á því fyrsta að ekki þykir hætta á að það bitni á áhuga þeirra eða framförum (þetta á m.a. við um nám á rafhljóðfærin).

Óski nemandi eftir að skipta um hljóðfæri metur skólinn í samráði við foreldra hvernig við því skal brugðist.

Námið í forskólanum, sérstaklega í forskóla II og í 1. bekk, þegar hljóðfæranám hefst, er eins konar reynslutími.  Fyrir kemur að nemendur gefast upp eftir nám í þessum bekkjum og liggja að sjálfsögðu til þess ýmsar ástæður.  Með samráði milli kennara, skólastjóra og forráðamanna barnsins er metið hvað muni henta því best;  að hætta, skipta um, endurtaka bekk, skipta um hljóðfæri eða annað.

Kennt er á hljóðfæri í einkatímum;  yngri nemendur mæta tvisvar í viku, 30 mínútur í senn, en eldri nemendur geta fengið klukkutíma kennslu einu sinni í viku.  Námsefni og áfangapróf (stigspróf) taka mið af þeim hljóðfæranámskrám sem til eru.  Kennari metur hvenær nemandi er fær um að taka stigspróf eða áfangapróf.

Allir hljóðfæranemendur koma fram á reglulegum tónleikum í skólanum a.m.k. tvisvar á ári.