Hagnýtar upplýsingar

Starfstími Tónmenntaskóla Reykjavíkur er frá byrjun september og fram í lok maí.  Kennarar mæta til ýmissa starfa og vinnufunda í síðustu viku ágúst og innritun nemenda hefst strax og þeir hafa fengið stundaskrár sínar úr grunnskólanum í ágúst.  Þá er stundatafla Tónmenntaskólans samin, en það er flókið verk sem tekur nokkurn tíma.  Kennsla hefst svo á hljóðfæri fyrstu daga í september skv. bráðabirgðastundaskrá en hópkennslan og hljómsveitir hefja starfsemi sína um miðjan september skv. endanlegri stundaskrá.

Jólaleyfi, páskaleyfi og aðrir frídagar eru svipaðir og í grunnskólanum, þó hefst jólaleyfið að jafnaði tveim dögum fyrr vegna “litlu jólanna“ í grunnskólanum.  Kennt er fram undir 20.maí og þá taka við próf, vinnudagar kennara, útskrift nemenda og skólaslit. Tónmenntaskólinn er með haustfrí og vetrarfrí og eru þessi frí samræmd við dagsetningar haust- og vetrarfrís sem grunnskólarnir eru með.

Starfsdagar kennara yfir skólaárið eru svipaðir og í grunnskólanum með einni undantekningu:  Í febrúar á ári hverju getur hluti af reglulegri kennslu fallið niður í tvo daga.  Þessa daga eru haldinstigspróf á hin ýmsu hljóðfæri.  Eru þessir dagar auglýstir með góðum fyrirvara.

Nýir nemendur eru skráðir inn á vorin (eftir páska) og á haustin (í seinni hluta ágúst). Umsóknir fyrir eldri nemendur sem ætla að halda áfram námi verða að berast fyrir lok apríl eigi skólavist næsta vetur að vera tryggð.  Umsóknareyðublaðið er sent út til foreldra í byrjun mars.  Ekki er nóg að foreldrar sæki um skólavist nemenda fyrir lok apríl á þar til gerðum eyðublöðum sem skólinn sendir út í mars heldur verða foreldrar einnig að staðfesta umsóknir sínar hjá Rafrænni Reykjavík en það er kerfi sem Reykjavíkurborg hefur komið upp og nær til allra leikskóla- og grunnskólanemenda.

Vitnisburður með umsögn um námsárangur er sendur út í byrjun júni.

Skólagjöldum má skipta og greiða fyrri hlutann í október en seinni hlutann eftir áramót í janúar.  Einnig má greiða með raðgreiðslum (Euro eða Visa) án aukakostnaðar og er hægt að dreifa greiðslum á allt að 7 mánuði. Upplýsingabréf um greiðslu skólagjalda og innritunardaga er sent út í lok ágúst til þeirra sem hafa sótt um skólavist fyrir börn sín fyrir næsta skólaár.

Skólagjöld fyrir árið 2018-2019

Heilt nám kr.190.000,-

Fiðluforskóli kr.130.000,-

Forskóli kr.90.000,-

Ef fleiri en eitt barn úr sömu fjölskyldu sækir skólann er veittur systkinaafsláttur.  Afslátturinn er 15% af heildarupphæðinni fyrir tvö börn en 25% fyrir þrjú börn.

Hafi skólagjald verið greitt að fullu og nemandi hættir námi um áramót af einhverjum orsökum,endurgreiðir skólinn hálft gjaldið.  Hætti nemandi af einhverjum orsökum námi á tímabilinu september til febrúar og hafi skólagjald verið greitt fyrir allt skólaárið eða fyrir lengra tímabil en nemur námstíma nemanda, endurgreiðir skólinn skólagjaldið í hlutfalli við það.  Stundum er það matsatriði hvort eigi að endurgreiða skólagjald eða hluta þess og verður þá að skoða þau dæmi sérstaklega.  Það á sérstaklega við ef nemandi hættir námi af einhverjum ástæðum seint á skólaárinu.

Til að forðast allan misskilning skal tekið fram að skólagjöld eru ekki fyrir launakostnaði (sem greiðist af Reykjavíkurborg) heldur fyrir öllum öðrum rekstrarkostnaði, s.s. skrifstofuhaldi, ræstingu, húsaleigukostnaði, viðhaldi húsnæðis, orku, hljóðfæra- og tækjakaupum, efnisgjaldi og fleiru sem of langt mál væri að telja upp hér.

Efnisgjald vegna ljósrita, nótnapappírs, námsefnisbóka fyrir hóptíma, tónfræðabóka,  blokkflautu (í forskóla), möppum og annarra gagna sem nemandi fær fyrir hóptíma og hljóðfæratíma er innifalið í skólagjaldinu.

Nótnabækur vegna hljóðfæranáms eru ekki innifaldar í skólagjaldinu.  Foreldrar verða að gera ráð fyrir kostnaði á hverju ári vegna nótnakaupa handa þeim börnum sem læra á hljóðfæri, enda er það markmið að nemendur eignist dálítið nótnasafn þegar frá líður.  Tekið skal fram að ljósritun á nótum er óheimil.

Hljóðfæri (önnur en píanó og blokkflautur) eru leigð út til byrjenda þar til ljóst er að nemandinn haldi áfram námi og tímabært þykir að hann eignist eigið hljóðfæri.  Foreldrar greiða leigugjald og skrifa undir lánssamning þar sem kveðið er á um ábyrgð á hljóðfærinu.

Skrifstofa skólans er opin frá kl. 13:00 – 16:00 alla virka daga.  Ritari annast meðal annars símavörslu, tekur við skilaboðum (t.d. um veikindi nemenda) og kemur  þeim áleiðis og veitir auk þess allar almennar upplýsingar um skólann.

Skólinn er opnaður kl. 13:00 í hádeginu  og er opinn fram yfir kl. 19 þegar kennslu lýkur og ræsting hefst.

Starfslið: Við skólann starfa alls 20-25 kennarar, flestir í hlutastörfum auk skólastjóra.  Auk þess ritari, ræstingafólk og húsverðir sem búa í lítilli íbúð á efri hæð hússins.

Eins og áður sagði eru hópkennarar (bekkjakennarar) með fasta viðtalstíma sem auglýstir eru á haustin.  Viðtalstími skólastjóra er eftir samkomulagi.