Framtíðarsýn

Allt skólastarf er breytingum undirorpið.  Það er ljóst að skipulag tónlistarskólanna hefur breyst á síðustu árum eftir því sem einsetningu grunnskólans var komið á.  Það er stutt í það að grunnskólinn þurfi á öllu sínu kennslurými að halda til að gera markmið einsetins skóla að veruleika.  En einnig fer að líða að því að nýir skólar rísi þar sem fyrirfram hefur verið gert ráð fyriri sérskólum og sérhæfðu húsnæði til tónlistarkennslu.

Stundum hafa fræðsluyfirvöld rætt um að æskilegt væri að hluti af starfsemi tónlistarskólanna væri úti í grunnskólum, sérstaklega hvað varðar yngri börnin.  Þetta hefur verið reynt í nokkrum tilfellum en ekki tekist nægilega vel til.

Mikilvægt er, að ekki sé tjaldað til einnar nætur í þessum efnum, aðbúnaður fyrir tónlistarskóla sem ætlar að sinna kennslu í samvinnu við grunnskólann verður að vera góður og traustur; bráðabirgðalausnir og léleg aðstaða eru með öllu óaðgengilegar.

Samvinna við íslensk tónskáld hefur verið fastur liður í starfsemi skólans og er stefnt að því að halda þeirri samvinnu áfram.  Felst hún meðal annars í því að panta tónverk fyrir ýmsar hljómsveitir og samspilshópa í skólanum, og einnig í því að fá íslensk tónskáld til að vinna að tónsmíðum með nemendum í hópvinnu.

Ýmislegt annað kæmi til greina að gera tilraunir með í framtíðinni.  Það er t.d. ekki sjálfsagt að alla nemendur langi til að læra á hljóðfæri.  Hugsanlegt væri að kenna börnum og unglingum (í smáhópum) að hlusta á og fræðast um ýmiss konar tónlist án þess að það verði um of á fræðilegum nótum.  Með því móti yrði komið til móts við þarfir fleiri nemenda, sem einmitt er eitt af markmiðum Tónmenntaskólans.

Einnig mætti hugsa sér tilraunarstarfsemi í formi fullorðinsfræðslu í tónlist þar sem fullorðnum (t.d. foreldrum sem eiga börn í skólanum) væri kennd undirstöðuatriði tónlistar auk þess sem hlustað yrði á ýmiss konar tónlist og hún greind og skoðuð frá ýmsum hliðum.

Að síðustu mætti nefna hugmynd um ungbarnakennslu í tónlist þar sem 3 – 4 börn á aldrinum 2 – 4 ára væru í smáhópum ásamt foreldrum eða mæðrum í stuttan tíma í senn t.d. 25 – 30 mínútur tvisvar vikulega.  Þar yrði unnið að ýmsum þáttum tónlistar í samræmi við viðurkenndar uppeldisaðferðir í tónlist.

Þetta eru þeir vaxtarbroddar sem álitlegir eru í starfsemi Tónmenntaskóla Reykjavíkur á næstu árum.  Tíminn verður að leiða í ljós hvort þeir verða að veruleika.