Formáli

Hér birtist önnur útgáfa af Skólanámskrá Tónmenntaskóla Reykjavíkur en fyrsta útgáfan kom út í febrúar 1996.
Var þá í fyrsta sinn gerð tilraun til að setja Tónmenntaskóla Reykjavíkur skólanámskrá og kom hún út í kjölfar útgáfu að drögum á aðalnámskrá tónlistarskóla á vegum menntamála- ráðuneytisins í febrúar 1996.  Endanleg útgáfa aðalnámskrár tónlistarskóla á vegum menntamálaráðuneytisins kom síðan út í maí árið 2000 (almennur hluti).  Í því riti er tilgreint hvernig uppbygging skólanámskráa í tónlistarskólum skuli vera (bls. 21 – 22).

Í Skólanámskránni er reynt að taka á flestu sem lýtur að skipulagi, námi og kennslu í Tónmenntaskóla Reykjavíkur.  Leitast er við að gefa góða heildarsýn yfir sem flesta þætti skólastarfsins, m.a. hvaða nám skólinn býður upp á og hverjum það er ætlað, uppbyggingu skólans og kennsluhætti.  Vikið er að þeim hugmyndum sem liggja að baki skipulagi skólans og fjallað um námsmat.  Einnig er  sett fram stutt ágrip af sögu skólans.

Skólanámskrá Tónmenntaskóla Reykjavíkur er ætluð öllum sem vilja fræðast um þetta efni.  Þar sem Tónmenntaskólinn er einkum fyrir nemendur á grunnskólaaldri er þess að vænta að skólanámskráin komi foreldrum eða öðrum forráðamönnum þeirra að gagni.

Reykjavík, september 2005

Stefán Edelstein
Skólastjóri